Kaffi

Við þurfum að horfast í augu við sannleikann.
Áðan mallaði ég nefnilega einhvern þann furðulegasta kaffibolla sem ég hef lengi bragðað. Svo komst ég að því hvað var að kaffinu: það var óvenjugott! Gömul fíkn er að skríða upp á yfirborðið og eftirbragðið er mig lifandi að drepa. En ég veit að ef ég laga meira þá fer ég í kerfi, og lok prófatarnarinnar mun hylla undir nýtt upphaf, endurvakningar sterkustu fíknar ævi minnar frá því fyrir þrem árum, þegar ég hvorki gat vaknað né sofnað nema drekka kaffi og vaknaði sérhverja nótt í fráhvörfum. Endurhvarf til þeirrar tíðar þegar ég drakk hátt í tvær könnur á dag með tilheyrandi svitaköstum, þegar ég laumaðist oft á dag á Café Milano í leit að styrkjandi einsog fíkill sem ráfar inní húsasund eftir fixi, þegar korgur var ekki óþverri heldur matur – ljúffengur kaupbætir einsog aldinkjöt í safa.
Svo nú gildir að vera sterkur. Andskotinn veiti mér æðruleysi og bjargi mér frá að seilast í könnuna!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *