Þrjú öppdeit

Mér sýnist að peningar verði engin fyrirstaða fyrir aðstöðu í Suðursveit hvenær sem sá gállinn er á mér. Þá neyðist ég samt til að troða vetrardekkjunum undir bílinn og láta laga þetta smáræði sem laga þarf.

Sumarnámskeiðið í Árósum er matshæft, sem þýðir að ég borga engin skólagjöld komist ég að. Og það að ég er aðeins örfáum formsatriðum frá því að skila inn umsókn.

Ég hef aftur lyklavöld yfir eigin Uglu. Kannski varð nemendaskrá pirruð á námskeiðaflakkinu mínu. Annars veit ég ekki hvers vegna henni var læst til að byrja með.

Af mér er þetta helst að frétta

Mun sækja um sumarnámskeið um kristni og heiðni í norrænum miðaldabókmenntum í háskólanum við Árósa eftir helgi. Nordplusstyrk ef ég kemst að. Ég hafði aldrei færi á að fíflast í útlöndum einsog flest ykkar hinna eftir stúdentspróf. Svo það er sárabót ef ég fæ að vera voða alvarlegur í útlöndum í smátíma.

Fer að demba mér í BA ritgerðina líka, sem mun fjalla um Þórberg Þórðarson sem sköpunarverk sjálfs sín og ólíkar persónur. Hef sent fyrirspurn á Þórbergssetrið í Suðursveit um fræðimannsaðstöðu þar. Fátt betra til að koma sér í stemninguna, að geta rölt um óspjallaða sveitina með jökla í baksýn.

Hef ákveðið að eftir BA-gráðu muni ég einbeita mér að íslenskum miðaldabókmenntum. Þrátt fyrir allt hef ég komist að raun um að það er mitt svið. Þá er bara að vona að ég hafi tíma og efni á að vera utan vinnumarkaðar svo lengi.

Er svo búinn að vera í tygjum við konu núna í tæpa tvo mánuði. En það kemur ykkur ekkert við.

Ég er ánægður með lífið og tilveruna. Aldrei þessu vant liggur mér við að segja. Í komandi viku fer ég til Kaupmannahafnar og verð þar framyfir helgi í ýmsum erindagjörðum misfagmannlegum. Það verður kærkomið frí frá íslensku samfélagi.

Descartes og moggabloggið

Til er hryllilega súr brandari um Descartes. Þannig var nefnilega mál með vexti að Descartes fór alltaf á sama kaffihús á hverjum degi, í fleiri fleiri ár, og pantaði sér súpu. Nema dag einn kemur Descartes inn og þjónninn spyr hann hvort ekki megi bjóða honum súpuna eins og venjulega. Descartes svarar: Nei … ég hugsa ekki. Þá hvarf Descartes.

Á hverjum degi vona ég að eins fari fyrir moggablogginu. Þeirri tilgátu var reyndar stungið að mér í dag að ef moggabloggarar áttuðu sig á þverstæðu Descartes þá yrðu margir þeirra að svartholum með óendanlega neikvæðan massa – svo mikið væri bullið í þeim. Í sjálfu sér ágætiskenning en ég þori ekki að standa við hana af ótta við að fá holskeflu af sauðheimsku fólki hingað inn. Þeir geta myndað sín svarthol annarsstaðar.

Aldrei að segja aldrei að segja …

Þrátt fyrir meðfædda bölsýni, sem fær mig til að trúa ótrúlegustu hlutum, virðist mér ekki hafa tekist að láta reka mig úr háskólanum. Ég byrja því að sanka í BA ritgerð eftir helgi – og tileinka mér hin eilífu vísindi orðmyndunar- og beygingarfræða. Held að Jóhannes Gísli eigi eftir að sakna mín næsta vetur.

Hinsvegar trúði ég því staðfastlega að litla aldamótadísan mín kæmist gegnum skoðun í dag. Aldrei að segja aldrei að segja aldrei. Núna hef ég mánuð til að láta laga hana.

Annars hef ég ákveðið að hætta að angra sjálfan mig, og lesendur þessarar síðu gleymum þeim ekki, með hversdagshamförum þess sem ritar. Ég vil frekar fjalla um hugmyndir í sem víðustum skilningi, það er eitthvað sem stendur – allavega að mestu leyti – utan við sjálfan mig.

Þess vegna langar mig að benda á að Hermann Stefánsson hefur líka skrifað um útrásarhöfundana. Mína grein má aftur finna hér fyrir neðan.

Síðasta ljóðabók Sjóns

Þá er ég kominn út úr skápnum með nýjustu bókina mína. Við Jón Örn Loðmfjörð skrifuðum hana saman, upplýsingar um hana má finna hér, smellið á kápuna.

Þess má geta að hún kostar aðeins 490 krónur í næstu bókabúð – nánar tiltekið á Laugavegi, í Austurstræti og í Iðu.

Þess má einnig geta að fjölmiðlar hafa hingað til hunsað hana algjörlega. Ekki múkk.

Viðbót: Ég get þá kannski heimtað af Hauki Ingvarssyni ef hann lítur hingað inn, að fjallað verði um bókina í TMM. Hvað segir Haukur við því?

Viðbót II:Nú, eða Guðmundur Andri. Já og þið öll bara.

Útrás

Og nú þegar víkingarnir liggja í valnum og ekki dugir neitt minna en hrækja á hræin er þegar búið að finna arftaka þeirra sem verðugir eru sæmdarheitisins „víkingar“.

Jú, það eru rithöfundar. Og hvaða rithöfundar? Arnaldur Indriðason, Ævar Örn Jósepsson, Yrsa Sigurðardóttir og Árni Þórarinsson. Semsé rjómi stéttarinnar. Vantar bara Birgittu Halldórs. Jú, og svo er eitthvað minnst á Guðrúnu Evu, Auði Jóns og Gerði Kristnýju. Í framhjáhlaupi. Þetta eru hinir nýju víkingar, og ekkert kreppuvæl á þeim bænum. Bara trilljón titlar hjá Fischer Verlag og læti. Líklega tökum við yfir allan evrópskan markað á fyrsta ársfjórðungi 2009 og leysum kreppuna.

Ágætis þverskurður sem Evrópa fær af íslenskum bókmenntum þarna þegar 57% útgefinna verka eru glæpasögur. Þau halda þá allavega ekki að hinir nýju víkingar hugsi bara um peninga eins og þeir gömlu. En kannski finnst þeim hjákátlegt að Íslendingar skrifi um glæpi í ljósi nýliðinna atburða. Ekki það, ef allt væri með eðlilegu móti ættum við að vera orðin sérfræðingar í þeim, en ef allt hefði verið með eðlilegu móti til að byrja með hefðu þeir aldrei verið mögulegir.

Ég ætla ekki að röfla of mikið undan þessu en mér finnst þetta vinsældamat leiðinlegt. Fólk les það sem því er sagt að sé vinsælt og vinsældir glæpasögunnar eru fyrst og fremst sprottnar af því að hún er matreidd ofan í það af bókaútgefendum og í framhaldi af ritdómurum og bókasöfnum. Og þetta er ekkert bara svona hérna – Arnaldur er kannski vinsælastur hérna en James Patterson er vinsælastur í heimi. Er mér sagt. Svo eru til minni spámenn á borð við John Grisham og Stephen King.

En svo er þessi víkingastimpill. Hann og þessi sjálfsskilyrta firring sem honum fylgir er eiginlega tífalt verri en einsleitur bókmenntasmekkur Íslendinga: að allt sé gott meðan það er vinsælt, sama hversu siðlaust og hreint út sagt viðbjóðslegt það er. Því það er alveg sama hvað mönnum finnst um verk þessara rithöfunda; það er alvarlega vanhugsað og fullkomlega óréttlætanlegt að kalla þá „útrásarvíkinga“. Við Íslendingar erum ekki svo merkileg meðal þjóða að við höfum efni á svona hroka nema síður sé, sama hversu merkileg við eigum það til að telja okkur vera.