Ríkisstyrkt list

Mér virðast margir bloggarar orðnir æstir vegna árvissrar fréttar um listamannalaun í dag (af hverju enginn fyrtist fyrr við veit ég ekki). Þá er Hallgrímur Helgason oft sérstaklega nefndur, Baugur og annað álíka. Skoðanir listamanna, yrtar eða óyrtar, eru semsé skyndilega farnar að þykja tilefni til að ríkið hætti að styrkja þá.

Ef dagskipunin á að verða sú að öll list eigi að verða algjörlega sjálfbær eða hvergi þrífast ella þá er það einhver allra versta afleiðing kreppunnar. Enn verra er ef ríkisstyrkir eigi að verða enn háðari hagsmunatengslum, eða öllu heldur skorti þar á, en hingað til. Og mér þykir dapurlegt að slík viðhorf séu viðruð nú.

Öfgavefurinn AMX gengur lengst í adhómíneminu gegn Hallgrími í frétt sinni um málið. Undir mynd við fréttina stendur:

Ragnheiður Ríkharðsdóttir biður Hallgrím að stöðva mótmæli sín þar sem hann mótmælti fyrir utan Valhöll þegar Geir H. Haarde tilkynnti um krabbamein sitt í vélinda.

Þess er ekki getið í fréttinni hvort Hallgrímur borði börn þegar hann er ekki að ráðast á krabbameinssjúklinga eða auka hallann á ríkissjóði með óþrifnaðarháttum sínum og betli.

7 thoughts on “Ríkisstyrkt list”

  1. Ísland er á hausnum og sérstaklega ríkissjóður og því er eðlilegt að það sé horft í hverja krónu sem er greidd út. Þá er oft gott að grípa til þess að forgangsraða hlutunum.
    Þessar 10 milljónir sem fara í vasa Hallgríms gera þjóðinni nákvæmlega ekkert gagn. Varla færi hann að hætta að skrifa bækur og fá sér vinnu á bensínstöð ef þessara listamannalauna nyti ekki við.
    Þessi listamannalaun eru það heimskulegasta á fjárlögum hvers árs. Það væri nákvæmlega jafn mikil listsköpun á Íslandi ef þau væru ekki.
    Þeir listamenn sem þiggja ölmusuna eru ekkert annað en ómagar.

  2. Einmitt Atli. Listamennirnir færu sko ekkert að vinna eitthvað annað ef þessara listamannalauna nyti ekki við. Enda eru listamenn snillingar í því að lifa á loftinu, það er alkunna.

  3. Ef það er viðhorf þitt að list geri almennt ekkert gagn þá er auðvelt að skilja afstöðu þína útfrá því. Ég hinsvegar get ómögulega tekið undir þá afstöðu. Að minni hyggju er listsköpun eitt það allra mikilvægasta sem hlúa þarf að.

  4. Æ – mér finnst ég hafa heyrt þessa umræðu í mörg ár.
    En það kemur væntanlega ekki á óvart að ég er sammála þér Arngrímur.

Skildu eftir svar við Arngrímur Vídalín Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *