Heill kafli handa æstum lesendum

Nei, ég veit þið hafið engan áhuga á þessu. En hér er samt heill kafli sem ég hripaði upp úr handritinu, svo mér fer greinilega fram við að lesa þetta. Eftir á að hyggja læðist sá ljóti grunur að mér að sami kafli finnist í Skáldalífi Halldórs Guðmundssonar. Stök orð í textanum skildi ég ekki og því vantar þau:

Um orðið „Forbindelse“.

Það var komið fram á vorið 1913. Ég hélt enn þá áfram að hugsa ástríkar hugsanir til elskunnar minnar. Enn þá var hún fegurst allra kvenna og enn þá voru aðrar konur, sem ég sá á vegi mínum, að eins endurhljómur af fegurð hennar. Enn þá gat ég ekki hugsað mér að lifa án hennar. Enn þá var hún jafnfull af ólgandi lífi, jafn fagurrjóð í kinnum, augun jafntindrandi. Hún hlýtur að lifa hreinu lífi, sagði ég oft við sjálfan mig.

En þennan vetur leit hún sjaldnar upp í baðstofuna til mín en veturinn áður og stóð skemur við. Það er skiljanlegt, hugsaði ég með sjálfum mér. Hún vill hafa allt sem nýjast og ósnjáðast, þegar við förum að lifa saman fyrir fullt og allt. Hún var hætt að ganga í spilatíma, og raulaði nú bara lög, sem hún [heyrði?] í söngtímum í skólanum: Stóð ég úti í tunglsljósi, Hvað er svo glatt, Nú blika við sólarlag o.s.frv. Ég gerði mér far um að líta þannig á aðrar konur, að þær sæju, að ég fyrirliti þær, sérstaklega ef hún var nærri. Ein hafði beðið mig um tilsögn í dönsku. En ég þorði ekki að taka hana. En þá kom hún upp til mín á Þorláksmessukvöld og bað mig að lofa sér [að] skrifa utan á nokkur jólakort upp[i] hjá mér. Ég var kurteis og sagði:

Gerið þér svo vel og sitjið [þér hér?] við borðið. Hún kveikti á perunni. Svo settist hún við borðið, en ég færði mig fram að dyrum, settist þar á stól og lést vera að virða fyrir mér ofninn. Að eins einstöku sinnum hornauga. En hvað hún var falleg: Há og grönn, dökk augu, dökkt hár, dökkar augnbrúnir, fagurlega [?], að eins 16 ára. Það var verið að tala saman í eldhúsinu niðri, líkast og tvær stúlkur væru að pískra um eitthvað. Ég stóð upp og fór að ganga þungum skrefum um gólfið, svo að þær gætu heyrt, að ég væri ekki að gera neitt ljótt. Svo stóð hún upp, tók saman jólakortin, þakkaði mér fyrir, sagði góða nótt og skaut á mig einu hvössu, ásakandi augnatilliti. Svo gekk hún þegjandalega út úr herberginu, lét hurðina aftur á eftir sér, og hélt niður stigann. [Ég hlustaði?] Í eldhúsinu mætti henni skellihlátur. Hver er að hlæja? Það er elskan mín, sem er að hlæja. Guð almáttugur, hjálpi mér! Svo datt allt í dúnalogn. Ég þorði ekki niður, það sem eftir var kvöldsins.

Daginn eftir var elskan mín líkust því sem hún þekkti mig ekki. Hún talaði háværum [spakmælum?] eins og hún væri að tala við veggina eða húsgögnin, og það var allt á [?] um skot og kelirí við einhvern eða einhverja. Ég mændi á hana. Aldrei hafði hún verið svona fögur, svona djöfulleg og fögur.

Við eigum að fyrirgefa, stamaði ég ósjálfbjarga.
Fettu haus, ef þú hefur lyzt á, Tobbi minn.

Eftir það kom hún aldrei upp til mín. En nokkurum kvöldum síðar varð mér litið út um gluggann minn. Það var [?] og úti var dauðaél með föl á jörðu. Undir húsgaflinum sunnanhallt við gluggann minn stóð unga stúlkan, sem hafði beðið mig um tilsögn í dönsku. Og hjá henni stóð ungur piltur. Þau töluðu saman í lágum hljóðum, hvískruðust á. Og eftr það mæltist hún aldrei til að ég veitti henni tilsögn í dönsku.

Elskan mín fór nú að vera lengur úti á kvöldin og ballferðir hennar gerðust nú tíðari en áður. Stundum kom hún ekki heim fyr en klukkan eitt til tvö á næturnar.

Einn dag um vorið gekk ég heim til kunningja míns, skólabróður sem hafði verið með mér á Kennaraskólanum. Hann bjó í litlu herbergi á Laufásveg ??? Við tókum tal saman. Ég vissi að hann þekkti vel alla í skólanum. Talið barst að skólanum.

Guðbjörg hefur ekki komið aftur í skólann, sagði ég.
Hún, Guðbjörg. Hún svaf hjá [Gústa?] í allan fyrri vetur og svo giftust þau um vorið. Er nú farin að búa [einhversstaðar fyrir austan?]
Var hún virkilega svona óhreinlíf.
Þær eru nú ekki allar þar sem þær eru séðar, þessar dræsur.
Svo [lempaði?] ég talið hægt og gætilega í áttina til elskunnar minnar.
Mig grunar að hún hafi nú „Forbindelse“ hér í bænum.
Forbindelse? Forbindelse? [Stamaði/Stundi] ég eins og fábjáni. Jæja. Það var eins og öll líffæri mín [?] innan í mér. Svo stóð ég upp og sagði:

Jæja. Það kemur kunningi minn heim til mín klukkan fjögur. Ég verð að flýta mér. Svo stökk ég heim í einu hendingskasti til þess að fletta upp orðinu Forbindelse í dönsku orðabókinni eftir Jónas Jónasson. Ég [fálmaði?] til bókarinnar. Kem fyrst niður á B, síðan E, svo J, svo H. Hver andskotinn. Loks F: Forbindelse n. samtenging, samband, tenging; efnasamband, blöndun; samgöngur. Hvað átti hann við? Samtenging, tenging, blöndun? Getur það táknað hjónaband? Að hún sé í þann veginn að giftast? Að blanda blóði við einhvern? Átti hann við það? Eða samband, [?] Vináttusamband? Ég vissi hvorki upp né niður, hvoru ég ætti að trúa. Ég las útskýringarnar aftur og aftur, ekki að eins orðin, heldur og stafina og [lestrarmerkin?]. Svo henti [ég] bókinni á borðið og stökk út og marséraði allan daginn þvers og endilangt gegnum bæinn.

Eftir þetta hræðilega áfall tók ég að sjá elskuna mína frá öðru sjónarmiði. Nú fannst mér það liggja í augum uppi, að hún hefði jafnvel lengi haft „Forbindelse“. Var það þetta, sem hún þráði? Var það þetta sem ég hafði [?] Nei. Þetta hlýtur að vera bara laust forbindelse. En þrátt fyrir það gat ást mín til hennar aldrei dáið. Ég var allt af að búast við, að morgundagurinn leysti þetta vandamál.

– Þórbergur Þórðarson, Stóra handritið bls. 154-159.

2 thoughts on "Heill kafli handa æstum lesendum"

  1. Erla skrifar:

    lög sem hún lærði?

  2. Arngrímur skrifar:

    Auðvitað, hvernig læt ég!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *