Ég vil benda á það litla atriði, sbr. þessi frétt, að berserkjavígunum er bæði lýst í Víga-Styrssögu, og þarmeð Heiðarvígasögu, og Eyrbyggju. Það bætir ekki fyrir þau mistök að gefa rangt fyrir Víga-Styrssögu, en svar Kópavogsliðsins var engu að síður rétt líka.
Réttlætingin er þá væntanlega sú að Víga-Styrssaga hafi ekki verið sagan sem leitað var eftir þótt svarið væri vissulega rétt? Minnir óneitanlega á það sem haft var eftir Kiljan: Enda ekki allar Íslendingasögur á því að Njáll er brenndur? En spurningahöfundar þurfa auðvitað að passa sig á að klúðra ekki svona. Næst verður kannski spurt í hvaða Íslendingasögu Snorri goði gegni veigamiklu hlutverki. Eina rétta svarið við því er: Alveg lygilega mörgum!
Mér er náttúrulega málið skylt. Vildi bara segja þér að Kópavogsbúar komu ekki með Eyrbyggjusvarið. Þeirra svar var líka rangt. Dómarinn sagði líka að hann hefði gefið rétt fyrir Heiðarvígasögu rétt eins og Eyrbyggju. En hann viðurkennir ekki að Víga-Styrssaga sé rétt svar. En auðvitað hefðum við átt að negla þetta á Eyrbyggju. Þá værum við ekki að velta þessu fyrir okkur.
Ah, þarna gerði ég þau klaufalegu mistök að gera ráð fyrir einhverju sem stóð alls ekki í fréttinni. En Víga-Styrssaga er auðvitað ansi djarft svar. Heiðarvígasaga ætti þá raunar að vera álíka hættulegt svar, ef dómari tæki uppá að rugla henni saman við Heiðarvígssögu, þ.e. Sturlusögu.
Að því sögðu er víst lítið annað hægt en hafa gaman af þessu, þótt mistök af þessu tagi séu alltaf heldur pínleg.