Enn af Árósum – og umferðarmenningu

Eitt það fyrsta sem fór að ergja mig þegar ég kom heim í síðustu viku er umferðarmenningin á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef lengi haft þann draum að komið yrði á laggirnar léttlestakerfi eða metró á stór-Reykjavíkursvæðinu með miðstöð við Kringluna. Stoppin yrðu fá: Hamraborg, Garðatorg, Fjörður. Við Fjörð væri hægt að skipta yfir í lestina til Keflavíkur. Frá Firði færi lestin áfram með viðkomu við IKEA, Smáratorg, Mjódd og Skeifu með endastöð við Kringluna.

Þetta verður aldrei að veruleika. Ef ekki væri fyrir núverandi vandamál þá yrðu bara einhver önnur ljón á veginum. Þá skortir almennt framsýni í þessum málum á Íslandi. Eini stjórnmálamaðurinn mér vitandi sem hefur pælt í þessum málum er Árni Þór Sigurðsson. Menn skyldu hlusta betur á slíkar hugmyndir.

Nú gladdi mig á hinn bóginn talsvert nokkuð sem ég las á dönsku Wikipediu áðan. Til að stemma stigu við aukinni bílnotkun og sporna við vandamálum þar að lútandi (bílaumferð er semsé ekki orðin að vandamáli enn) hafa borgaryfirvöld í Árósum komið á laggirnar nefnd sem fjalla skal um skipulagningu og uppbyggingu léttlestakerfis þar í borg. Fyrsta sporið verður vígt 2015 og tekur hringinn frá aðallestastöðinni með viðkomu á Nørreport, Randersvej, Lisbjerg, Lystrup og Grenå, og dekkar þannig vel ríflegan hluta af norðurbænum með tveim stoppum hvoru sínu megin við miðbæinn.

Og þetta er aðeins fyrsta spor af fleirum. Sem er auðvitað ekkert annað en tær snilld. Það væri óskandi að borgaryfirvöld Reykjavíkur væru svona framsýn.

Århus V

Þá er ég kominn heim frá Árósum. Get ekki sagt að ég sé því neitt sérstaklega feginn, glaður hefði ég lengt í miðanum mínum og verið framyfir helgi. Eða bara sleppt því að koma aftur. En það skipti mig meira máli að mæta í jarðarför en að liggja í leti við Árósaá og drekka bjór.

Ég var þegar búinn að gleyma því hvað Reykjavík er þrátt fyrir allt falleg. Hafði samt á tilfinningunni að ég stæði öðru fremur utan við gluggann horfandi inn. Við hliðina á Árósum er Reykjavík dálítið einsog apabúrið í Zoologiske.

Talandi um skepnur þá er dýraríkið þarna eystra dálítið skemmtilegt. Bara við kollegíið mitt sá ég íkorna, héra og broddgelti. Stundum sá ég líka haltrandi ketti eftir misheppnaðan víking gegn síðastnefndu. Við Moesgård sá ég dauða moldvörpu. Inni í Moesgård sá ég 2200 ára gamlan Dana, dauðan sem betur fer. Svo í gær tók ég S-lestina frá Höfuðbana út til Husum þar sem ég sat heima hjá Degi Snæ langt fram á kvöld, drakk bjór og fylgdist með leðurblökum.

Svo kemur maður heim til Íslands og sér bara venjulega bavíana. Til að finna aðra eins vitleysu þarf að leita út til Danmerkur aftur. Þá á ég að sjálfsögðu við sjónvarpsþættina Klovn.

Århus IV

Ég stóðst prófið. Ég fékk af algerri rælni sömu spurningu og ég fékk fyrir tveim árum í goðafræði Snorra-Eddu í HÍ, semsé, um heimildargildi Snorra-Eddu, Eddukvæða og annarra sambærilegra texta, svosem Gesta Danorum, Ynglinga sögu, Völsunga sögu o.s.frv.

Eftir prófið spurði kennarinn hvort ég væri ekki örugglega búinn að fá allar upplýsingar viðvíkjandi námsdvöl við Árósa og hvort ég ætlaði ekki örugglega að koma. Það er semsé offisjalt, þótt ég hafi ekki opinberlega sótt um ennþá; ég er að flytja til Árósa í fyrsta lagi á næsta ári, síðasta lagi því þarnæsta.

Hér er boðið uppá svokallað 4+4 kerfi. Fyrri helmingur er BA gráða til þriggja ára, fjögurra að vísu í mínu tilfelli, og svo til eins árs í meistaranámi. Ef ég hætti eftir eitt ár fengi ég gagnslausa diplómu sem segði að ég hefði lokið ble námi við bla skóla og kynni því að hossa mér á róluvelli fræðanna svo lengi sem enginn stærri og sterkari, feitari og frekari kæmi mér nærri.

Að loknu þessu eina ári myndi ég skila inn einskonar drögum að doktorsrannsókn fyrir fakúltetið að synja eða samþykkja. Að fengnu samþykki nýtti ég seinni fjögur árin til rannsókna, kennslu og fræðaskrifa. Og að fimm árum loknum fengi ég PhD. í norrænum fræðum, kennsluréttindi og mögulega fasta stöðu.

Og ég er bara andskotans ekkert viss um hvort ég hafi nokkurn einasta áhuga á að koma aftur að loknum þeim fimm árum. Engin furða svosem, Ísland er álíka aðlaðandi og Zimbabwe um þessar mundir, og ég hef allt sem ég þarf hér. Að undanskildum elsku vinum mínum. Nenniði ekki bara að flytja með mér?

Århus III

Ef Kaupmannahöfn má að einhverju leyti líkja við Reykjavík þá eru Árósar svona dálítil Akureyri (ég viðurkenni að þessi samanburður er fullkomnlega ósanngjarn, en það verður að hafa það). Hér liggur háskólinn uppá hæðinni og í stað aflíðandi andapollsins er feiknarstór garður milli háskóla og miðbæjar með stöðuvatni, trjám og lautartúrandi stúdentum.

Að vísu lýkur þar samanburði við Akureyri. Kaupmannahöfn, utan að hún er „fyrir sunnan“, er hraðskreiðari höfuðborg sem inniheldur alltof marga Íslendinga. Þarmeð líkur samanburði við Reykjavík.

Í síðustu færslu sagðist ég hafa hug á að flytja hingað. Árósar er nægilega lítil borg til að stemningin hérna sé tiltölulega róleg og nægilega stór til að innihalda fjölbreytt menningarlíf. Ólíkt Reykjavík er samgangur milli stúdenta mikill. Þar er kampus, ólíkt í Reykjavík, með stúdentakjallara sem bæði er ólíkt skemmtilegri en sá gamli heima fyrir utan að vera aktúelt til. Stúdentakjallarinn er líklega það eina sem hægt er að sakna við HÍ.

Að félagslífinu undanskildu býður námið sjálft uppá miklu meiri möguleika hér en heima. Hér get ég tekið próf í norrænum fræðum og ráðið námsleiðinni algerlega sjálfur. Ég þarf semsé ekki að hafa áhyggjur af leiðinlegum skyldukúrsum í póstmódernískri hringavitleysu. Eina sem ég hef áhyggjur af er hvort ég fengi yfirleitt vinnu þegar og ef ég kæmi aftur, nokkuð sem ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af hér.

Þetta eru bara svona smástiklur, til að skýra betur síðustu færslu. En það er margt fleira sem kemur til. Og það er margt sem ég myndi sakna að heiman. En þetta er semsé möguleiki. Það gæti farið svo að ég flyttist hingað. Og ég get ekki annað sagt en ég yrði því feginn.

Århus

Skrifað í Leifsstöð kl. fimm að morgni þess fimmtánda:

Leifsstöð, eini staður á Íslandi þarsem enginn er alkóhólisti. Hér drekka allir klukkan fimm á morgnana án þess að nokkur þyki þeir verri. En utan Leifsstöðvar eru allir alkóhólistar, jafnvel þeir sem aldrei hafa drukkið.

Ég veit ekki hvort það er svefnleysið mín megin eða andleysið í sófunum aftanvið mig en mér finnst ég vera kominn vel á veg með að fá raðheilablóðfall. Einhverjir snillingar á leiðinni á Hróarskeldu. Töluðu í fimm mínútur um pantverð á dósum og flöskum. Guð minn góður.

Mér finnst ég vera nokkuð oft hérna, einhverra hluta vegna. Ég var síðast hér í janúar, þaráður í október, þará undan í júlí. Og það verður bara að segjast að ég er orðinn nokkuð þreyttur á vistinni hérna í Leifsstöð. Það er ekki sama stemningin sem var.

Samt er þetta besta flugstöð í Evrópu á eftir Vantaaflugvelli í Finnlandi. Það segir að vísu meira um hinar flugstöðvarnar en þessar tvær. Þetta eru líka einu tvær flugstöðvarnar sem hafa reykingasvæði. En það segir líklega meira um mig en flugstöðvarnar.

En nú er ég semsé kominn til Árósa. Hélt að lestarferðinni ætlaði aldrei að ljúka. Hún tók þrjá og hálfan tíma, og það eftir svefnlausa nótt, þriggja tíma flug og klukkutímabið niðri á lestarpalli vegna þess að ég missti af fyrstu lestinni. Eini kosturinn var að ég þurfti ekki að skipta um lest. Það leiðinlegasta sem ég veit er að skipta um lest.

Það er gasalega fallegt hérna. Fór í dag og skoðaði Den Gamle By sem er einskonar Árbæjarsafn þeirra Árósarbúa. Þar safna þeir saman gömlum húsum hvaðanæfa að í Danmörku sem annars hefðu verið rifin, þarmeðtalið eitt feiknarstórt frá Kaupmannahöfn. Það elsta sem ég man eftir er frá 1700 og eitthvað.

Það fylgdi öskubakki með herberginu mínu og það hlýtur að vera stærsti kosturinn við að nema í Danmörku. Úti í Fakta kostar ódýrasti bjórinn, sem heitir Dansk Pilsner og er vel að merkja ágætur, aðeins 5 krónur per 50 cl. dós. Svo ég er ansi vel settur. Keypti inn morgunmatarbirgðir til að endast út vikuna, plús pylsupakka, sinnepsflösku og tvær dósir af ofangreindu. Kostaði ekki nema tvöþúsundkall. Svo það er ekkert kreppuvæl á þessum bæ.

Að vísu keypti ég mér bjór í miðbænum í dag sem kostaði tæpan þúsundkall – með stúdentaafslætti. En það geri ég ekki aftur.

Mikið djöfull er fínt að vera hérna. Allt námsefni er að vísu á ensku sem er algert eip.

Ég afsaka fábreytnina í þessum texta og hve óskáldlegur hann er. Þetta er bara skýrsla. Þið getið vænst frekari útlistana af þessu tagi á þessum síðum næstu tæpu tvær vikurnar, því í fábreytni Árósaraftansins mun ég talsvert dveljast við tölvuna milli þess sem ég les forna texta. En hér lýkur skýrslunni í bili.