Ef Kaupmannahöfn má að einhverju leyti líkja við Reykjavík þá eru Árósar svona dálítil Akureyri (ég viðurkenni að þessi samanburður er fullkomnlega ósanngjarn, en það verður að hafa það). Hér liggur háskólinn uppá hæðinni og í stað aflíðandi andapollsins er feiknarstór garður milli háskóla og miðbæjar með stöðuvatni, trjám og lautartúrandi stúdentum.
Að vísu lýkur þar samanburði við Akureyri. Kaupmannahöfn, utan að hún er „fyrir sunnan“, er hraðskreiðari höfuðborg sem inniheldur alltof marga Íslendinga. Þarmeð líkur samanburði við Reykjavík.
Í síðustu færslu sagðist ég hafa hug á að flytja hingað. Árósar er nægilega lítil borg til að stemningin hérna sé tiltölulega róleg og nægilega stór til að innihalda fjölbreytt menningarlíf. Ólíkt Reykjavík er samgangur milli stúdenta mikill. Þar er kampus, ólíkt í Reykjavík, með stúdentakjallara sem bæði er ólíkt skemmtilegri en sá gamli heima fyrir utan að vera aktúelt til. Stúdentakjallarinn er líklega það eina sem hægt er að sakna við HÍ.
Að félagslífinu undanskildu býður námið sjálft uppá miklu meiri möguleika hér en heima. Hér get ég tekið próf í norrænum fræðum og ráðið námsleiðinni algerlega sjálfur. Ég þarf semsé ekki að hafa áhyggjur af leiðinlegum skyldukúrsum í póstmódernískri hringavitleysu. Eina sem ég hef áhyggjur af er hvort ég fengi yfirleitt vinnu þegar og ef ég kæmi aftur, nokkuð sem ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af hér.
Þetta eru bara svona smástiklur, til að skýra betur síðustu færslu. En það er margt fleira sem kemur til. Og það er margt sem ég myndi sakna að heiman. En þetta er semsé möguleiki. Það gæti farið svo að ég flyttist hingað. Og ég get ekki annað sagt en ég yrði því feginn.