Mér finnst stundum gaman að þykjast vera gamli karlinn. Fyrir einhverjum árum sagði ég við táning að það skipti engu máli hvað hún segði, ég tæki ekki mark á svona krökkum sem væru fæddir eftir fall Berlínarmúrsins. Grey stelpan hélt ég meinti þetta og varð voða skömmustuleg.
Það er jú í sjálfu sér ekki neitt voðalega merkilegt að muna hvernig þjóðfélagið var fyrir tveim árum þótt fólk tali nú varla um neitt annað lengur. Einhvern tíma lék ég gamla karlinn í vinnunni og minnti á að fyrir ekki svo löngu fengust ekki einu sinni hamborgarar á Íslandi – fólk keypti sér einfaldlega nautahakk og bjó þá til. Og það datt engum í hug að setja ost á þá. Þá var það ekki hamborgari nema á honum væri Gunnarshamborgarasósa, kál, tómatar og gúrkur. Það var einfaldlega ekkert annað, að minnsta kosti ekki neinstaðar sem ég þekkti til. Og fyrir okkur viðrinin sem ekki vildum þetta? Þá var það Libby’s tómatsósa úr glerflösku. Einsog maður var orðinn helvíti laginn við að ná jukkinu úr henni. Það er gleymd list.
Pítsur voru annaðhvort heimagerðar eða Ömmupítsur. Pizza Hut kom fyrstur slíkra staða um eða eftir 1990. Venjulegur heimilismatur samanstóð oft, ef ekki af fiski og kartöflum, af unninni íslenskri kjötvöru og gufusoðnu grænmetisjukki, t.d. kálbögglar, fiskibollur, slátur, bjúgu, kjötbúðingur og svikinn héri. Stundum fékk maður kjúkling en það var meira til spari. Heimatilbúnir hamborgarar eða pítsur voru ekki á hverju strái en pylsur voru ágætis sárabót. Heilsubyltingin var nefnilega ekki hafin. Og ef maður vildi ekki matinn þá var talað um fátæku börnin í Afríku. Núna nægir kannski að benda á foreldrið sem eldaði matinn. Gosdrykkir voru ekki mikið á boðstólnum. Með matnum var ýmist mjólk eða djús úr Egilsþykkni. Og þetta nákvæmlega sama fékk maður á leikskólanum.
Börn átu nesti í skólum (en sú tilhugsun), fengu húslykla sex ára og flestum foreldrum nægði að þau létu vita af sér gegnum landlínukerfi Pósts og síma. Og oftast var alveg í lagi að sleppa því, foreldrarnir höfðu lag á að finna börnin sín með öðrum ráðum. Og ef börnin fundu ekki vini sína heima hjá sér fundu þau þá annarsstaðar; maður vissi alltaf nokkurnveginn hvar þá væri að finna.
Og Hagkaup, sem varð Nýkaup og svo aftur Hagkaup, beygðist: Hagkaup, Hagkaup, Hagkaup, Hagkaups í þá daga. Skrýtið sem það var. þá voru Ískóla, RC Cola, Sinalco, Seltzer og Tab ennþá vörumerki. Jón Páll seldi Svala, Laddi þótti fyndinn og trópíkarlinn var lifandi appelsína.
Og það er ekkert langt síðan þetta var svona. Ég myndi segja að þetta hafi byrjað að breytast milli 1992 og 1993 með auknu vöruúrvali, tölvuvæðingunni í kjölfarið og loks farsímavæðingunni sem skók mína kynslóð kringum 1999.
En það eina sem kom vinnufélögunum á óvart við þessa upptalningu var tómatsósan í glerflöskunum. Þau könnuðust við allt hitt, meira eða minna. En uppúr þessu hófust semsé þónokkrar samræður um mismunandi leiðir til að losa tómatsósu úr glerflösku: nota hníf, láta flöskuna undir heita bunu og guð má vita hvað. Og skyndilega fannst mér sem gamli karlinn hefði snúist við í höndunum á mér – hvernig gat fólk mögulega nennt því að sitja þarna diskúterandi tómatsósu í glerflöskum?
Ég er í töluverðu áfalli yfir Gunnarshamborgarasósu. Var svoleiðis til? Var það þá bara mamma sem vildi hana ekki?
Ertu ekki að grínast? Þetta er ennþá til.
http://www.gunnars.is/Forsida/Vorur/Hamborgarasosa/
Svo er E. Finnsson að sjálfsögðu (lengst til hægri).
http://www.gulalinan.is/files/Voga2_2079125533.jpg
Ég datt næstum því af hjólinu mínu í gær þegar ég sá krakka þamba RC-kóla.
Sendu mér flösku.
Skal gert, þ.e.a.s. ef ég finn slíka. Ég hef ekki rekið augun í RC-kóla í nærliggjandi búðum. Þetta hlýtur að poppa upp á endanum.
Jamm, svona var þetta. Skemmtileg upprifjun á horfnum tímum.
Sjálfur er ég úr sveit og ég upplifði þá tíma að ég fór með lömbin mín í sláturhúsið og lagði þau inn í kaupfélagið. Svo fór maður í kaupfélagsbúðina og keypti nammi og Andrés blöð, notaði aldrei peninga heldur fór það bara á reikninginn í kaupfélaginu. Var með mitt eigið reikningsnúmer og kvittaði rogginn undir nóturnar.
Rétt að taka það fram að ég er enn undir þrítugu. Margt hefur breyst á stuttum tíma.
Ég hefði alveg verið til í að upplifa þetta.