Béa

Þá er béaritgerðin mín komin úr prentun, skylduskil í Hugvísindadeild og Þjóðarbókhlöðu að baki. Þá er bara að senda afurðina til leiðbeinanda sem kemur henni áleiðis til prófdómara. Ef að líkum lætur verð ég ekki felldur fyrir uppátækið. Ritgerðinni hef ég komið fyrir á þessari síðu vegna þess að ég trúi á að akademía sé almenningseign og að höfundarréttur eigi ekki við um fræðilegar greinar. Hana má lesa hér.

Ritgerðin er ekki fullkomin og ég veit nákvæmlega hvar veikleikar hennar liggja, ef nokkur nennir yfirhöfuð að gagnrýna hana.

Einingarnar mínar frá Árósum komu sömuleiðis í dag og samtals eru þetta 35 einingar í hús. Það þýðir að ég á eftir heilan vetur í fullu námi ef ég ætla að útskrifast næsta vor. Allajafna væri mér drullusama en núna hef ég fastákveðið að flytja til Árósa svo fljótt sem auðið er svo ég komist í framhaldsnám. Mér hafa þótt kringumstæður til grunnnáms á Íslandi alveg nógu ókræsilegar hingað til og ekki bætir hrunið og eftirköst þess úr skák. Það eru eiginlega engin skilyrði til náms eftir á Íslandi og það er annaðhvort að fara eða verða bókavörður það sem eftir er. Svo ég ætla að fara.

Svo ég sé fram á fullt nám í vetur ofaná allt að 70% starf á bókasafninu auk annarra smærri verkefna. Það geri ég fyrst og fremst til að lifa af. Svo borga ég skuldir eftir föngum og get þó ekki sagt að ég sé meðal stórlaxa í skuldabók þjóðarinnar. En ef ég ynni ekki svona mikið þá væri ég samt sem áður í verri málum en ég kann frá að segja. Þannig er nú það. Og sannast sagna veit ég ekki hvað yrði eiginlega um mig mitt í þessu öllu saman ef ég hefði ekki þetta haldreipi – að eftir ár get ég byrjað að gleyma öllum vandræðum mínum hér heima og hafið nýtt líf annarsstaðar, á allt öðrum forsendum, með glæný markmið – markmið sem ég hafði að leiðarljósi þegar ég hóf nám fyrir þrem árum en var löngu búinn að gefa uppá bátinn vegna þess að það var bara aldrei nokkur möguleiki á að þau gætu orðið að veruleika hérna.

Og það er þónokkurs virði að eiga sér skyndilega markmið, eitthvað til að stefna að. Þegar talað er um að eitthvað sé „svo 2007“ þá á það varla við um neinn almenning. Það var skítt að vera námsmaður 2006, 2007 og 2008 og það er langtum verra að vera námsmaður núna. Það hefur alltaf verið ömurlegt að vera námsmaður á Íslandi – öll þriðjaheimsrök afþökkuð. Og jájá, kannski er ekkert svo glæst að vera námsmaður í Danmörku heldur. En það er þó von þar. Og ég ætla mér að halda í hana. Ég skal miklu fremur lifa á núðlum þar heldur en hér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *