Eðli tungumálsins

Sumum bókmenntafræðingum er mjög tamt að tala um „eðli tungumálsins“ í víðum skilningi, hvað felist í eðli þess og hvaða áhrif það hefur útfyrir sig – sem er í sjálfu sér merkilegt því samkvæmt fræðum þeirra sjálfra felst ekkert utan tungumálsins – á málhafa gegnum texta eða sambærilega miðla sem einnig eru nefndir textar.

Samt hafa fæstir þeirra lagt stund á málvísindi. Hvernig skyldi nú standa á því?

Ágæt þumalputtaregla þegar lesnar eru greinar eftir yfirlýsta póstmódernista: skoða heimildaskrá þeirra greina þarsem talað er um eðli tungumálsins. Bakhtín og Jacobson hef ég séð, en aldrei Chomsky. Hvað þá heldur neitt nýlegra. Það er einsog eftir 1957 hafi ekkert gerst í málfræði. Hvað skyldi það segja okkur um eðli tungumálsins? Hvers vegna er afbygging póststrúktúralismans svona höll undir strúktúralisma?

Kannski af sömu ástæðu og þeir sem mesta áherslu leggja á málrækt hafa enga málfræði lesið, samanber ónefndur málræktarklúbbur: þeim mun minna sem þú veist, þeim mun meira þvaðrarðu, vitandi kannski innst inni að hvað sem þú segir hefur það ekkert með málfræði að gera. Eðli tungumálsins hafnar afbyggingu. Í heimi afbyggingar væri texti ekki til.