Vinnuvikan

Ég kemst alltaf nær þeirri skoðun að 40 stunda vinnuvikan sé barn síns tíma. Nær væri að miða við 30 stunda vinnuviku og í raun er hærra viðmið ómanneskjulegt miðað við nútímalegar þarfir.

Reykjavíkurborg hefur að vísu náð að lempa þetta niður í 35 stundir með því að selja kaffi- og matartímana en mér finnst það rangsnúin mannúð. Það þýðir í raun að starfsfólk fær ekki greitt lengur í pásum en hefur þann valkost í staðinn að sleppa þeim til að fá að fara úr vinnu klukkutíma fyrr. En undir öllum eðlilegum kringumstæðum eyðir fólk eftir sem áður jafnmörgum klukkutímum í vinnunni á dag.

Þið megið kalla það óskhyggju en ég vildi gjarnan sjá þær breytingar að vinnuvikan verði stytt niður í 30 stundir án þess það rýri tekjur fólks. Kjarasamninga má þá endurgera með tilliti til hins nýja fyrirkomulags. Ég held það sé nokkuð sem vert er að hugsa um á tímum þegar vinnuveitendur gera sitt ítrasta til að notfæra sér ástandið til að skera niður í starfsmannahaldi og kreista á sama tíma meiri vinnu útúr fólki vitandi að það getur ekki sagt nei. Gildir þar hið fornkveðna: flestum vinnuveitendum stendur á sama um þig.

10 árum seinna

Unglingurinn sem fiktaði við reykingar og skrópaði í leikfimi staðnæmdist framan við spegilinn einn morgun tíu árum seinna. Þar sá hann sjálfan sig með sömu hárgreiðsluna og tíu árum áður, kominn niður í 15 sígarettur á dag, sýnilega tíu árum eldri. Þó var hann orðinn allt það sem hann vildi hugsa sér að hann myndi vera orðinn að tíu árum liðnum. Að sínu leytinu til hafði hann því ekki brugðist sjálfum sér.