Ásgeir Berg Matthíasson, úrvalsþýðandi, spekingur, launbróðir minn og consiglieri, hefur bent á tiltekin líkindi milli pistils Stefáns Fr. Stefánssonar á æðibunulega repúblíkanavefnum amx og stílæfingarinnar hér neðar á síðunni. Vitaskuld eru öll slík tengsl tilfallandi.
En ég vil endilega koma stórglæsilegum málflutningi Stefáns á framfæri fyrst ég á annað borð lét mig hafa það að garfa í þeim grautarpotti. Á einum stað segir hann um Ögmund Jónasson:
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, á hrós skilið fyrir að tala tæpitungulaust við BBC um Icesave, IMF og íslensk efnahagsmál. Þar talar hann máli Íslands betur en allir ráðherrar hafa gert í þessari lánlausu vinstristjórn, enda varla heyrst múkk í þessu liði á alþjóðavettvangi á meðan þörf hefur verið fyrir trausta forystu. Hann á eftir að verða skeinuhættur fyrir stjórnarparið þreytulega, Jóhönnu og Steingrím, í þessari rimmu – gæti orðið örlagavaldur þeirra.
Skömmu síðar segir hann um Össur Skarphéðinsson:
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sem hefur verið á flótta frá ástandinu og varla birst í íslenskum fjölmiðlum nema sem einhver váleg skuggamynd á bakvið Jóhönnu, talar hreint út og það við BBC af öllum fjölmiðlum. Kannski ágætt að íslenskur ráðherra tali loks við þá stöð.
Spurningarnar sem brenna á mér við lesturinn eru æði margar, en til að gæta velsæmis læt ég mér nægja að spyrja aðeins einnar: Nákvæmlega hversu illa gefinn er þessi maður?
„Aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ Þetta er ágætis heilræði fyrir gáfumenni.
Stangast þessi máltæki ekki á? Aðgát skal höfð í nærveru sálar, en vinur er sá er til vamms segir?
Annars er ég vanur að kalla þá fífl sem tala einsog fífl og dylgja einsog fífl. Það kann að vera ómálefnalegt, en Stefán er nú ekki beinlínis málefnalegur sjálfur.
Þá þrýtur mig þolinmæði til að taka eipinu í honum með vinsemd og virðingu.