Blogg

Það er ekki vegna þess að ég hafi ekkert að segja sem ég blogga ekki. Ég blogga ekki vegna fyrirframhugmynda minna um hvað lesendum kann að þykja áhugavert.

Flest blogg eru meira eða minna eitthvert krepputuldur og strámannapandemóníum. Þetta blogg verður ekki þannig. Til hvers að öskra í hófi þarsem allir eru meira eða minna öskrandi? Þá vil ég heldur vera úti.

Ég blogga ekki um strípistaði vegna þess að ég nenni ekki að eiga orðastað við fífl sem loka augunum fyrir veruleika mansals. Skilaboð til þeirra: ef þið lærið að hegða ykkur innanum fólk munuð þið kannski dag einn verða svo heppnir að geta séð allsbera konu án þess að greiða kvalara hennar formúgu fjár fyrir. Kannski verður samband ykkar ástríkt og þið eignist börn. Hugsið um hvað getur orðið um börn í þessari viðbjóðslegu veröld. Opnið svo ekki kjaftinn aftur fyrren þið hafið hugsað málið.

Ég blogga heldur ekki um Sjálfstæðisflokkinn, af því það er ekki orðum eyðandi á Sjálfstæðisflokkinn. Ég þarf líklega ekki að útskýra hvers vegna ég blogga ekki um Framsóknarflokkinn.

Ég blogga ekki um eigin persónu vegna þess að það er fátt af henni að segja, að minnsta kosti það sem á annað borð kemur ykkur við. Fátt hefur breyst síðan síðast. Að vísu er bók væntanleg frá mér. Meira um það síðar. Annað er það ekki.

En mér líður vel mitt í allri þessari súrrandi geðveiki. Þið megið vita það.

One thought on “Blogg”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *