Kúkulúkur og Gardaland

Á Ítalíu 1989 voru í sjónvarpinu skemmtiþættir sem ég gæti ekki munað hvað hétu til að leysa höfuð mitt. Þáttastjórnandinn var klæddur í safarígalla og eitthvert hundskvikindi af sokkabrúðu stýrði þáttunum með honum. Stundum var kona í stað mannsins, klædd sama safarígalla, og stundum voru þau tvö saman, en okkur fannst konan ekkert skemmtileg. Við bræður dáðum hinsvegar þennan hund þótt líklega muni hvorugur nú hvað hann hét.

Þættirnir voru hreinn og klár áróður sem miðuðu að því einu að börn sannfærðu foreldra sína um ágæti þess að sækja heim Gardaland, skemmtigarð við hið margrómaða Gardavatn (þar sem Kristján Jóhannsson bjó). Pabbi þoldi ekki þáttastjórnandann, sem í minningunni hefði að vísu allteins getað verið Bog Saget, og uppnefndi hann Kúkulúkur eftir sínu hárbeitta skopskyni. Eftir orðhlutafræði mætti greina fyrri liðinn sem orðið kúkur án karlkynsbeygingarendingarinnar -r, og seinni liðinn sem einskonar herðandi og jafnframt niðrandi aðskeyti. Kúkulúkur var semsé ekki hátt skrifaður.

En í hvert sinn sem Kúkulúkur og hans dýrðlega hundskvikindi birtust á skjánum hrópuðum við bræður af ákefð: Kúkulúkur og Peppito! (ég gef mér bara það nafn á hundinn) af því við vissum að pabbi myndi stynja af vandlætingu. Kúkulúkur var svosem ekkert hátt skrifaður hjá okkur bræðrum heldur en hundurinn gerði það allt þess virði. Hundurinn var hreint út sagt frábær, og vatnsrennibrautirnar sem hann af kapítalísku innsæi innprentaði okkur að væru merkilegri fyrirbæri en píramídarnir við Giza urðu okkur að áþreifanlegu markmiði í lífinu til að falast eftir.

Svo kom að lokum að foreldrar okkar gáfu eftir og við fórum öll til Gardalands. Þar tapaði ég skó í hendur hins illa Frankensteins og sárgrét megnið af tímanum. Drumbaferðin eftir vatnsbrautinni var hinsvegar nokkuð skemmtileg. En hvergi sáust Kúkulúkur eða Peppito neinstaðar nálægt. Það olli mér sárum vonbrigðum, en bróður mínum virtist sléttsama um það. Í draugalestinni hélt mamma fyrir augun á honum alla ferðina hinsvegar svo ég varð einn um að upplifa þann hrylling að sjá beinagrindur sveifla sér í veg fyrir lestina okkar. Ég minnist þess ekki að hafa orðið neitt hræddur.

Gardaland uppfyllti allar okkar væntingar um skemmtun sem venjulegir leikgarðar áttu ekki séns á, en á hinn bóginn saknaði ég ákaft nærveru þeirra Kúkulúks og hundsfyrirbærisins hans. Í dag átta ég mig á að ég vissi ekki einu sinni hvað maðurinn hét og man ekki lengur fyrir mitt litla líf hvað hundurinn hét, þótt Peppito sé sjálfsagt nálægt því. Og það sem meira er, ég átta mig á um leið og ég minnist þessa að ekkert af þessu skipti nokkru einasta máli. Þannig fer líklega um flestar manns bernskuminningar.

Viðbót: Alli kann að hafa fundið þáttinn:

Heimurinn þá og nú

Ég man eftir að mér hafi verið sagt frá því þegar ég var barn að öðruhvorumegin við 1980 hafi margmenni þust að Heklurótum til að verða vitni að eldgosi. Ég sá fyrir mér ungt háskólafólk í drapplitum lopapeysum og joggínggöllum lulla þetta á ryðbrúnu ópelunum sínum og fíötum til að vera innanum fimmtuga bartaða fréttamenn með hornspangargleraugu á köflóttum jakkafötum. Allir pollrólegir og prúðir, og allt heldur leiðinlegt og grátt (einsog allt var áður en ég fæddist, sama hversu skömmu áður, og ljósmyndir fannst mér staðfesta hversu grátt allt var þá).

Aldrei í lífinu gat ég ímyndað mér annan eins heimatúrisma einsog varð kringum gosið á Fimmvörðuhálsi, fólk vaðandi þetta á skyrtunni, drekkandi, takandi ljósmyndir. En sjálfsagt var þetta alveg eins við Heklugosið forðum. Að minnsta kosti get ég ekki ímyndað mér að Íslendingar hafi breyst neitt meira á síðustu 30 árum en þeir gerðu næstu 1000 ár á undan. En svona virkar hugur barnsins. Nú er þessi heimsmynd aðeins dofin minning. En þó gleðst ég alltaf inní mér þegar ég sé þætti einsog Stiklur Ómars Ragnarssonar. Þar í er hún varðveitt, sú hugmynd sem ég hafði um Ísland áður en ég varð til. Land gamallra karla, ryðgaðra bíla og ljótra fata.

Ég svolítið sakna þess Íslands, þótt það hafi kannski aldrei verið til einsog ég sá það fyrir mér.

LÍN og séreignasjóðirnir

Í gildi eru lög félagsmálaráðherra sem gilda að ég held fram í apríl á næsta ári, sem kveða á um að þeir sem eiga sparnað í séreignasjóðum geti tekið hann út gegn því að þeir greiði af honum fullan tekjuskatt í stað fjármagnstekjuskatts. Þetta eru kaup kaups og með þessu móti er bæði ætlunin að koma til móts við almenning og auka tekjur ríkissjóðs um eitthvert lítilræði.

LÍN framfylgir svo sínum reglum og þegar sparnaðurinn er talinn fram sem tekjur þá tekur Lánasjóðurinn auðvitað mið af því í sínum útreikningum. Fyrir vikið getur námsmaður lent í því að bæði greiða tekjuskatt af sparnaðinum sínum og skerða í leiðinni námslánin fari hann yfir tekjuviðmið LÍN. Það er auðvitað ekki meiri glóra í viðmiðum LÍN núna fremur en hingað til og þetta er nokkuð sem þarf alvarlega að skoða að taka fyrir.

Á hinn bóginn ættu námsmenn erlendis ekki að örvænta þar sem þeir ættu flestir ef ekki allir að falla langt undir tekjumiðun bæði LÍN og skattsins. Sjálfur held ég utan í haust ef allt fer að óskum og hver einasta króna er dýrmæt. Þá get ég tekið út sparnaðinn minn strax eftir áramót og greitt af honum skatt sem ég fæ að fullu endurgreiddan síðar þar sem sparnaðurinn minn, sem er ekki sérlega há upphæð, kemur til með að teljast til minna einustu tekna á Íslandi fyrir árið 2011. LÍN lætur þá sömuleiðis vera að klípa af láninu mínu þótt ég sé sá stórbokki að eiga sparnað.

Þetta er nokkuð sem allir ættu að hafa í huga ef þeir hyggja á nám erlendis.