LÍN og séreignasjóðirnir

Í gildi eru lög félagsmálaráðherra sem gilda að ég held fram í apríl á næsta ári, sem kveða á um að þeir sem eiga sparnað í séreignasjóðum geti tekið hann út gegn því að þeir greiði af honum fullan tekjuskatt í stað fjármagnstekjuskatts. Þetta eru kaup kaups og með þessu móti er bæði ætlunin að koma til móts við almenning og auka tekjur ríkissjóðs um eitthvert lítilræði.

LÍN framfylgir svo sínum reglum og þegar sparnaðurinn er talinn fram sem tekjur þá tekur Lánasjóðurinn auðvitað mið af því í sínum útreikningum. Fyrir vikið getur námsmaður lent í því að bæði greiða tekjuskatt af sparnaðinum sínum og skerða í leiðinni námslánin fari hann yfir tekjuviðmið LÍN. Það er auðvitað ekki meiri glóra í viðmiðum LÍN núna fremur en hingað til og þetta er nokkuð sem þarf alvarlega að skoða að taka fyrir.

Á hinn bóginn ættu námsmenn erlendis ekki að örvænta þar sem þeir ættu flestir ef ekki allir að falla langt undir tekjumiðun bæði LÍN og skattsins. Sjálfur held ég utan í haust ef allt fer að óskum og hver einasta króna er dýrmæt. Þá get ég tekið út sparnaðinn minn strax eftir áramót og greitt af honum skatt sem ég fæ að fullu endurgreiddan síðar þar sem sparnaðurinn minn, sem er ekki sérlega há upphæð, kemur til með að teljast til minna einustu tekna á Íslandi fyrir árið 2011. LÍN lætur þá sömuleiðis vera að klípa af láninu mínu þótt ég sé sá stórbokki að eiga sparnað.

Þetta er nokkuð sem allir ættu að hafa í huga ef þeir hyggja á nám erlendis.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *