Í fyrradag úthlutaði alþjóðaskrifstofa Árósaháskóla mér bráðabirgðahúsnæði í algerri neyð. Það er í Hejredalkollegíinu við Lottesvej í Brabrand, þ.e. í vesturbænum. Ekki alveg það sem ég hafði í huga en sama hversu mér líkar get ég ekki búið þar lengur en til áramóta. Mánaðarleigan er lág og ég hef eigin sturtu. Það er ekki nauðsyn, heldur lúxus. Svo ég kvarta ekki nema síður sé.
Ég er búinn að kveðja alla sem ég komst yfir, núna síðast í afmæli Auðar Lilju fyrr í kvöld. Þar komst ég að því að Steinunn Rögnvalds verður í Leifsstöð á sama tíma og ég, á leiðinni til Noregs. Það er ekki lítið tilefni fyrir bjórdrykkju að morgni. Á Kastrup tekur svo Gunni Sissekelling á móti mér og í Árósum taka Christian og David við því sem ekki er svitnað úr mér á leiðinni.
Á þessum bænum er mikil tilhlökkun til næstu tveggja vikna. Það er fyrsta alvöru fríið sem ég hef fengið síðan ég teymdi fyrrverandi finnsku kærustuna um Suðvesturlandið, með viðkomu á Hellu hjá téðri Sissekellingu, og hélt síðan með Dóra Marteins til Dublin í kjölfarið. Það eru rúm tvö ár síðan. Það frí ætti að gefa mér tóm til að vinna í bók sem er ekki eftir Þórberg Þórðarson, en um þá bók ætla ég hinsvegar að fjalla nánar á þessum síðum bráðlega – það sem ekki var rúm fyrir í eftirmála bókarinnar.
Er ekki villa þarna, kveðja allaR sem ég komst yfir? Döh, sorrí.