Að Lottuvegi 1

Í augnablikinu er ég staddur á Café Undermasken í Árósum. Þvílík beljandi rigning hefur verið í dag að dyflinnarregnhlífin gaf undan og því flýði ég inn. Ég er líka netlaus svo ég kem til með að verða nokkuð hér næstu daga.

Innskot:
Ég er núna á Ris Ras. Einhver strákur hellti bjór yfir tölvuna mína á Undermasken og hún brást við með því að drepa á sér. Eftir að ég kom henni í gang fór hún að eipa og blikka á mig skjánum. Hún drepur á sér við og við, en ég er að vonast til að þurfa ekki með hana í viðgerð. Þá þarf að senda hana til Kaupmannahafnar, og það gæti tekið tvær vikur. En ég er með símann hjá stráknum ef þetta verður kostnaðarsamt.
Innskoti lýkur.

Allt fór samkvæmt áætlun til að byrja með í gær. Ég hitti Steinunni á Panorama bar í Leifsstöð og Sissekellingin tók á móti mér á Kastrup. Þaðan fórum við á Höfuðbana þar sem við settumst á tröppurnar og fengum okkur nokkra. David og Christian tóku svo á móti mér á Banagarði nyrðri og þaðan lá leið okkar uppí Brabrand.

Lítill austurlenskur strákur deildi vagni með okkur og bauðst til að leiða okkur að kollegíinu. Hann skoðaði myndina á möppunni sem ég fékk og opnaði hugarkortið, svo gekk hann hratt á undan með sífelldum bendingum og sagði „kom her nu“ og „den vej her“ og „lige herover“ í svona 5 mínútur meðan hann leitaði að húsinu. Svona svipað og í öllum Hollywoodmyndum þar sem hvíti aðkomumaðurinn má sín lítils gagnvart speki 8 ára drengs í óbyggðum Ástralíu eða Kenýa. Sjálfsprottin staðalmynd.

Íbúðin sjálf var, og er, viðbjóðsleg. Mold og gras á gólfinu, saur í klósettinu og þar sem lásinn á eina glugganum, sem er meira einsog rennidyr út í garð, er brotinn hefur fyrri leigjandi sett kústskaft í staðinn. Það voru göt á veggnum og för á gólfinu eftir bókahillur sem höfðu verið fjarlægðar. Risastór en vitagagnslaus skúffueining liggur við fótalag rúmsins. Rúmið sjálft er þó nýlegt en án sængurfata, hvað þá kodda eða sængur, svo það var ekki alveg glatað að sofa á því í nótt mitt í öllum viðbjóðinum, undir teppi sem ég var nógu forsjáll til að hafa með mér.

Aðrir leigjendur sem deila með mér eldhúsinu eru brjálaðir, og hræddir. Þetta eru allt krakkar um tvítugt. Þeim hefur skilist að Brabrand sé hættulegasta hverfi Árósa og ekki eru íbúðirnar til að létta þeim áhyggjurnar. Sturtan í einni íbúðinni virkar ekki. Klósettið virkar ekki í annarri. Frágangur er hryllilegur, og það eru engar búðir í göngufæri frá kollegíinu. Mér finnst þetta nú ekki svona svart, en þetta er engu að síður ógeðslegasta vistarvera sem ég hef búið í.

Ég myndi skrifa gáfulegar um þetta allt saman en ég óttast að tölvan drepi á sér, svo ég læt hér við sitja í bili.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *