Nú vantar mig aðstoð frá lesendum. Ég get ekki tekið við póstsendingum frá Íslandi, kemur í ljós. Pakki sem beið mín hefur nú verið endursendur af því enginn gat veitt mér upplýsingar um sendinguna, og þótt standi í kerfinu að tvisvar hafi póstburðarmaður barið hér að dyrum hugkvæmdist víst engum að skilja eftir tilkynningu.
Í ljós kom ennfremur að ég þarf að skrá póstfangið mitt hjá danska póstinum, enda dugi þjóðskráning ekki ein og sér. Þegar ég reyndi að skrá póstfangið var mér tjáð að aðeins væri hægt að tilkynna um breytt póstfang, ekki nýtt, og að danski pósturinn gæti ekki ábyrgst heimilisfang á Íslandi nema Íslandspóstur kunngerði þeim breytinguna. Ég sagði þeim að það væri nú með því fábjánalegra sem ég hefði heyrt enda hefði Íslandspóstur ekkert að gera með slíkar skráningar. Það fannst dömunni undarlegt að heyra og sagðist ekkert geta gert fyrir mig öðruvísi.
Þegar ég sneri mér að Íslandspósti var mér tjáð að sannarlega væri þetta með heimskulegri uppástungum sem þau hefðu heyrt og að pósturinn gæti ekki ábyrgst eitthvað heimilisfang í Danmörku enda sæu þau aðeins um póstfangaskráningar innanlands.
Í sem fæstum orðum neitar danski pósturinn semsé að skrá mig nema fyrir tilkynningu sem Íslandspóstur neitar að senda þeim, og nú er afmælisgjöfin mín aftur á leiðinni til Íslands af því ég er ekki til fyrir póstinum. Það nægir víst ekki að fólki sé treyst fyrir því að það viti hvert það sendir póstinn, og þessum dularfullu póstburðarmönnum sem munu hafa komið hingað virðist hvorki hafa hugkvæmst að skrifa mér miða né hreinlega skutla pakkanum í lúguna. Ólíkt leikskólabörnum er dönskum póstburðarmönnum nefnilega ofvaxið að troða kubbum í göt.
Því spyr ég þau ykkar sem einhverja reynslu hafa af þessu svívirðilega vanhæfa fyrirbæri hvernig í ósköpunum maður fer að því að fá póstinn sinn í þessu landi. Einhver ráð?
Vá, ekki einu sinni hin fræga póstþjónusta á Ítalíu er svona slæm, og þó hef ég það eftir starfsmönnum hennar að bezt sé að leita annarra leiða til að senda póst en að leita á náðir hennar.
Jahérna, það er engin smá hógværð. Að vísu er „Who are we kidding“ vanmetið viðskiptamódel sem fleiri mættu tileinka sér, í stað þess að þykjast veita raunverulega þjónustu.
Ég hef átt langt og stormasamt haturssamband við allskonar póstþjónustur, hef t.a.m. aldrei skilið að pósturinn beri enga ábyrgð nema maður borgi aukalega. Það er varla hægt að treysta fyrirtækjum sem svo berlega auglýsa vanhæfni sína.
Það er einsog að kaupa heimsreisu sem tryggir manni í versta falli rútuferð til Þorlákshafnar.
Vá hvað þetta er absúrd! Kannski mætti láta senda pakkann til einhvers fólks sem þú þekkir og hefur reynslu af að fá póstinn sinn?
Hér í Kaupmannahöfn er reglan sú að nafnið þitt verður að standa á póstkassanum. Ég held að þjóðskráning komi þessu ekkert við (eins og þér hefur réttilega verið bent á). Smelltu nafninu þínu á póstkassann eða þar sem að sendillinn getur séð það. Meira ætti ekki að þurfa til.