Með lægri bloggtíðni og leiðinlegum hversdagsfærslum hefur Bloggið um veginn hrapað þónokkuð í virðingarstiganum á Blogggáttinni. Það finnst mér ágætt. Mér finnst alltaf jafn hundleiðinlegt þegar einhverjir eyjukommentarar koma hingað til að rúnka sér yfir síðuna mína. Svo enn um sinn verður haldið áfram á sömu braut nema eitthvað sérstakt komi til (næg eru bloggin um stjórnlagaþing án þess ég fari í að dýpka það ginnungagap – en það má svosem nefna að flest þykja mér þau heimskuleg og fordómafull).
Ég hef meiri áhuga á að fjalla um það sem stendur mér næst þessa stundina, en það er að nema í háskólasamfélagi sem tekur fagnandi á móti öllum en er samt sem áður fárra. Flest okkar í litla vinahópnum sem hefur myndast utan um námið kynntust norrænu deildinni gegnum sumarskóla deildarinnar, tveggja vikna fyrirlestraröð milli 9-16, sex daga vikunnar með rosalegu pensúmi. Öll heilluðumst við af því sem deildin hafði upp á að bjóða og sóttum um fullt nám.
Þegar hingað er komið kemur hinsvegar í ljós að þetta er svolítið einsog að vera fastur í sápuóperu þar sem persóna er drepin í hverri viku. Nú í gærmorgun fór spánskur vinur minn alfarinn heim aftur. Þar sem háskólinn gat ekki orðið honum úti um vistarveru neyddist hann til að leigja íbúð á 13.000 danskar krónur – þið getið sjálf margfaldað með 21. Svo fór að lokum að margra ára uppsafnað sparifé var uppurið og hann neyddist til að fara.
Svipað er uppi á teningnum hjá franskri vinkonu minni. Hún hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið ár – vinir hennar hafa dáið, nánir fjölskyldumeðlimir veikst, hún hefur flakkað milli húsnæða, búið við óöryggi í atvinnumálum og þar af leiðandi peningamálum, og það hafði gríðarleg áhrif á námið hennar. Nú er svo komið eftir þriggja ára dvöl í Danmörku að hún er að fara heim svo hún geti unnið og verið með fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum.
Markmið okkar flestra hefur verið að komast í doktorsnám hér að loknu meistaraprófinu. Enskur vinur minn hefur nú tvisvar sótt um hið svonefnda 4+4 doktorsnám og í bæði skiptin hefur honum verið hafnað. Hann á nú aðeins einn möguleika enn og hann er ekki stór: að sækja um hið svonefnda 5+3 nám. Komist hann ekki inn þá neyðist hann einnig til að bregða búi með kærustu sinni og stjúpdóttur. Merkilegt nokk sýnist mér straumurinn liggja til Íslands meðal vina minna. Það er nokkuð kaldhæðnisleg framvinda mála, fyrir mig.
Allar góðar sápuóperur þurfa auðvitað persónulegt drama og hér hefur talsvert verið af því. Einn danskur vinur minn er svolítið einsog Sheila úr Glæstum vonum (eitt sinn fylgdist ég með þeim þáttum) – hann hefur brennt allar brýr að baki sér og það eru ekki margir eftir hér sem vilja tala við hann, að minnsta kosti ekki í mínum vinahópi, en hann er útsjónarsamur og virðist alltaf enda á báðum fótum (ef hann les þetta þá er það vel meint!). Hann á ekki möguleika á doktorsnámi hér heldur og er nú að grennslast fyrir annarsstaðar.
Samkeppninni um námið vindur þó áfram. Þar sem norræna deildin heyrir undir hugvísindadeild þá fara allar umsóknir um doktorsnámið fyrir sömu nefnd. Þær geta skipt hundruðum, og eins hæpið og það er að oggulitla norræna deildin nái einum manni inn þá eru nær engar líkur á að hún nái tveim. Ég verð sjálfur umsækjandi í mars og keppi því um stöðuna við vinkonu mína hér við deildina, sem ekki aðeins er dönsk heldur hefur verið hér talsvert lengur en ég, sem gæti skekkt aðstöðu okkar. Niðurstaða nefndarinnar á eftir að hafa áhrif á allt sem við gerum þaðan í frá.
Ef hvorugt okkar kemst inn núna endurtekur leikurinn sig næsta haust þegar við nýtum seinni sénsinn. Það er vond tilhugsun að keppa við vini sína en það er bara þannig sem það er. Þangað til hef ég núna tvær rannsóknir á könnu minni sem ég er farinn að verða of seinn með, og um niðurstöður annarrar þeirra flyt ég fyrirlestur á málþingi nemenda í mars. Það er víst nóg að gera.
Samkeppnin er semsé ansi hörð og vinir hverfa hver á fætur öðrum, ýmist nauðbeygðir eða til að víkka sjóndeildarhringinn. Það er nokkuð sérstök tilhugsun miðað við hversu stórt samfélagið var þegar ég fyrst kom hingað. En ég kvarta ekki (fólk heldur alltaf að ég sé að kvarta). Það þýðir enda ekkert. Núna gildir bara að gera sitt besta og sjá hvað setur. Næsta skref er að undirbúa umsóknina samhliða rannsóknarvinnu, sem verður erfitt þar sem hér verða nær engir kennarar eftir til ráðleggingar á næstu önn. Það þýðir því ekkert annað en að vinna einsog skepna, og þess vegna kem ég ekki heim um jólin.
Allt er það til þess gert að vinna að hinu stóra markmiði, og ef mér bregst bogalistin þá neyðist ég sjálfur til að fara einsog aðrir á undan mér. Svo það er mikið í húfi. Ég reyni þó að hugsa sem allra minnst um það og bara njóta þess sem hver dagur ber í skauti sér. Eftir mánuð þá flyt ég á háskólasvæðið og það ætti að einfalda mér talsvert lífið. Það er tilhlökkunarefni dagsins.
Það er bara eins og þú hafir verið að lýsa stöðu minni hérna í Árósum fyrir rúmum 2 árum, vá hvað ég þekki þetta alltsaman! Nema mínir vinir fóru allir á sama tíma þannig að uppi stóð ég ein með ekkert nema 4+4 styrk og get alveg viðurkennt að það hvarflaði að mér í svona millisekúntu hvort þetta væri þess virði. EN Árósar og Danmörk eru eins og flestir góðir hlutir, maður þarf að vinna fyrir þeim og ef maður heldur út allt þetta með að vinirnir fari o.s.frv. og finnur sér stabíla vini og svoleiðis þá eru Danmörk virkilega yndislegur staður.
Þetta með að keppa við vinina – það breytist hvorki né batnar ef þú síðan færð styrkinn svo það er eins gott að venjast því og fara bara að trúa að fólk fær það sem það á skilið og það sem það er ætlað að fá, hvorki meira né minna :o)
Já og mundu svo að skrifa fyrirlesturinn á Student Symposium í doktorsumsóknina þína ;o)
Gangi þér vel með þetta allt!
Takk fyrir peppið!