Ég ber mikla virðingu fyrir þeirri prinsípskoðun að Íslendingum beri yfirhöfuð ekki að greiða skuldir einkafyrirtækja (þó er deilt um hvort það sé tilfellið hér), og var sjálfur þeirrar skoðunar fyrst eftir hrun. Afstaða mín breyttist síðar og þá fyrst og fremst af pragmatískum ástæðum – auðvitað á almenningur ekki að borga skuldir einkafyrirtækja, en fyrirtæki sem ekki mega fara á hausinn ættu heldur ekki að vera einkafyrirtæki, þá síst af öllu bankar. Það sem gerðist var fyrirsjáanlegt öllum sem ekki höfðu hausinn í sandinum, þótt vitanlega væri okkur öllum brugðið. Þegar heilt bankakerfi fer á hliðina er ekki annað hægt en að bjarga því sem bjargað verður.
En hér bauðst okkur samningur um að greiða lygilega lága og sanngjarna upphæð fyrir þá fjármuni sem íslensku bankarnir rændu almenning í Bretlandi og Hollandi um, og ég kaus með honum af því ég tel að það sem kemur þjóðinni best að lokum sé óháð þrjóskulegum prinsípum; þeir sem helst bera sig saman við Bjart í Sumarhúsum eiga þá sjálfslíkingu áreiðanlega skuldlausa. Hann er einhver alversta fyrirmynd sem hugsast getur, en einhverra hluta vegna hefur hann orðið að táknmynd hins sjálfstæða Íslendings. Kannski er eitthvað til í því.
Ég þekki margt gott og gáfað fólk sem kaus á móti samningnum í gær, og ég þekki sömuleiðis margt gott og gáfað fólk sem kaus með honum. Þó held ég að þeir fyrrnefndu hafi rangt fyrir sér, af nokkrum ástæðum.
Eftir að fyrri samningi var hafnað hafa margir orðið til þess að segja að ekkert hafi gerst, að höfnun þess samnings hafi verið afleiðingalaus fyrir Ísland, jafnvel talað um tilefnislausan hræðsluáróður stjórnvalda. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin verið ásökuð um aðgerðaleysi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það er einsog fólk sjái ekki samhengið þarna á milli.
Það er nokkuð ljóst að Ísland er lánsfjárþurfi, og að höfnun Svavarssamningsins hefur orðið þess valdandi að Íslendingum hafa ekki staðið til boða mikilvæg erlend lán sem nota mætti til að mæta eldri lánum á gjalddaga og dæla peningum út í atvinnulífið til að efla hagvöxt, sem er forsenda þess að gjaldeyrishöftin verði afnumin. Í þeim skilningi er það rétt hjá fólki að „ekkert hafi gerst“ við að neita þeim samningi. Þær fjárhæðir sem hafa tapast vegna þessa verða ekki mældar í neinum smáræðis einingum, ef þær eru yfirhöfuð mælanlegar.
Það er raunar ótrúlegt að Ísland sé ekki verr statt en raun ber vitni. Það má margt segja um ríkisstjórnina, en henni hefur þó tekist að halda Íslandi á floti með Icesavemálið óklárað. Á meðan heldur niðurskurðurinn áfram, atvinnuleysi eykst og almenningur á sífellt erfiðara með að ná endum saman. En stöðnun í fjármálakerfi og atvinnulífi Íslands er ekki ríkisstjórninni að kenna, heldur er hún afleiðing hruns íslenska bankakerfisins og lánleysi stjórnvalda til að semja um það sem út af stendur. Með þetta mál hangandi yfir hausamótunum á okkur horfumst við í augu við nokkur ár til viðbótar af þessu sama.
Í gær fengum við valkost um að greiða 32 milljarða króna miðað við nýjustu útreikninga. Þeir sem tóku afstöðu gegn samningnum voru margir á því að betra væri að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort Íslendingar þyrftu yfirhöfuð að borga. Ég deili ekki þeirri bjartsýni með þeim. EFTA höfðar ekki mál nema að vel athuguðu máli, enda vinnur EFTA undantekningalítið. Þá voru sumir sem töldu að töpuðu Íslendingar málinu yrðu þeir tæpast dæmdir til að greiða meira en umsamda 32 milljarða króna. Það er óskhyggja.
Sannleikurinn er sá að við vitum ekki hvað við gætum þurft að greiða, og stór hluti þeirrar upphæðar verður eingöngu reiknaður í töpuðum tíma – líkt og með höfnun fyrri Icesavesamnings. Sá árangur sem ekki næst meðan Ísland rekur mál sitt fyrir EFTA er glataður árangur, glataðir fjármunir, meiri niðurskurður og aukið atvinnuleysi. Það var fórnarkostnaður síðasta neis og það verður fórnarkostnaðar þessa. Við þessu var búið að vara og það gekk eftir, sama þótt það sé nú kallað hræðsluáróður og stjórnvöld sögð „aðgerðalaus meðan heimilin brenna“. Meira má nú dramað vera. Lýðræðinu fylgir ábyrgð og þjóðin tók þessa ákvörðun sjálf.
Enn aðrir spurðu sig hvers vegna Bretar og Hollendingar hefðu ekki þegar kært okkur fyrst þeir væru svona vissir um réttmæti krafna sinna. Því er auðsvarað: þjóðir sem eiga í samningaviðræðum kæra ekki samningsaðilann. Það er fáránleg hugmynd. En á næstu vikum og mánuðum munum við sannarlega fá að sjá hversu einarðir þeir standa með kröfum sínum. Um það er ekki að efast að þeir taka slaginn með sannfæringu, rétt einsog íslensk stjórnvöld lýstu yfir í gærkvöldi að þau myndu gera fyrir hönd Íslendinga.
Um þátt forsetans vil ég sem minnst segja. Ég er almennt hlynntur slíku hliðskipuðu aðhaldi, hvort sem er frá forseta, meirihluta þings eða tilteknu hlutfalli kjósenda, en ég er líka sammála forsætisráðherra þegar hún segir að mál af þessu tagi henti ekki til þjóðaratkvæðagreiðslna. Þegar fólki býðst að greiða umtalsverðar fjárhæðir eða sleppa því hlýtur það alltaf að sleppa því, og þar kemur ofureinföldunin inn: atkvæðagreiðslan snerist ekki um að sleppa því, heldur um hvernig, hvenær og hversu mikið við komum til með að greiða á endanum. Kannski greiðum við ekkert, en fórnarkostnaðurinn við málareksturinn verður alltaf hærri en sú upphæð sem bauðst í gær. Þá fyrst verðum við kannski einsog Bjartur í Sumarhúsum, sem stóð uppi með ekkert að lokum sökum þrjósku sinnar og heimóttarskap.
Á sama tíma hef ég orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum með Íslendinga – ekki vegna niðurstöðu kosninganna, ég ber virðingu fyrir henni – heldur vegna þeirrar umræðu sem átti sér stað í aðdraganda kosninganna. Vigdís Finnbogadóttir lýsti afstöðu sinni til málsins og var í kjölfarið kölluð landráðamaður og afæta á íslenskri þjóð. Það er hreinlega ekki í lagi. Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri og höfuðpaur Icesave, lýsti einnig yfir sinni afstöðu – og uppskar engin húrrahróp þótt hann segði nákvæmlega það sama og margir nei-arar (enda skyldi engan undra). Þá voru ýmsir sem stilltu Vigdísi og Sigurjóni upp sem dýrlingi á móti djöfli – glæponinn segir nei, sameiningartáknið segir já, hver sá sem sæi það ekki væri heimskur. Það var ekki til fyrirmyndar.
Þá hafa ýmsir kallað eftir leiðtoga sem stæði í lappirnar gagnvart erlendri kúgun. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá hvert slíkur þankagangur gæti leitt okkur. En þjóðin er geðklofin í þessu sem svo mörgu öðru: hún hafnar „foringjaræði fjórflokksins“ (?) en biður um „sterkan leiðtoga“ í staðinn. Umræðan hefur spúið fnyk þjóðernishyggju yfir grandvaralausa og vitnað er í hverja bábiljuna á fætur annarri, einsog þeir sem lýstu yfir á Facebook að nei árið 1918 hefði skilað okkur fullveldi, nei árið 1944 hefði skilað okkur sjálfstæði og nei árið 1976 hefði skilað okkur 200 mílna landhelgi. Þetta er svo galin söguskoðun að það þarf ekki að hafa frekari orð um það.
En söguvitund á Íslandi hefur svosem aldrei verið neitt sérlega beisin. Hún er svona: Íslendingar voru stoltir víkingar sem létu erlent yfirvald ekki svínbeygja sig svo þeir stofnuðu fyrsta lýðveldi heimsins (nei árið 871 skilaði okkur …). Svo komu Danir og kúguðu okkur og létu okkur borða maðka. Þá kom Jón Sigurðsson og mótmælti í fleirtölu. Svo fengum við sjálfstæði og urðum langsvölust.
Þá hefur fólk verið kallað fífl, bjánar, geðsjúklingar og ég veit ekki hvað á báða bóga fyrir það eitt að mynda sér skoðun á einu umdeildasta máli Íslandssögunnar og kjósa eftir sannfæringu sinni. Ég get ekki sagt að ég sé stoltur Íslendingur eftir þetta. Umræðuhefðin virðist snúast um að gagga sem hæst innantóm slagorð einsog tourettesjúklingur í miðju raðheilablóðfalli. Ég var um daginn spurður hvort ég ætlaði að skuldsetja „börnin okkar“, sem að vísu er skárra en að senda þau í kolanámu einsog annar nei-ari gaf í skyn. Margur á já-hliðinni var litlu skárri. Íslendingar mega eiga það eftir hrunið að þeir eru gagnrýnir og veita stjórnvöldum aðhald, en umræðan einsog hún var orðin fyrir atkvæðagreiðsluna var fyrir margt löngu farin að daðra við fasisma. Og mér sýnist á netinu að ekki sé hún enn búin þar sem já-arar og nei-arar munnhöggvast nú sem aldrei fyrr.
En nú er niðurstaðan komin og við hana verður að una. Við rekum þá málið fyrir dómstólum og sjáum hvað setur. Ég vona bara að Íslendingar hafi þroska til að axla ábyrgð sína þegar þar að kemur og láta af þessum heimskulega fúkyrðaflaumi á báða bóga. Hvorugur helmingur þessarar klofnu þjóðar má segja „told you so“ þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir. Þá skulum við í eitt skipti fyrir öll taka höndum saman, halda kjafti og borga helvítis reikninginn. Ég vona að sem flestir geti verið sammála um það.
Ég er alveg sammála þér með að málið var flókið og umræðan fór á villur vegar. En þetta með að aldrei megi segja I told you so er orðið nokkuð þreytt. Í Íraksstríðinu og Afganistan vöruðu friðarsinnar við afleiðingunum, þegar þær komu svo í ljós eru friðarsinnar skammaðir fyrir einhverja þórðargleði. Eins var það með fyrir hrun. Það komu fram aðilar bæði af hægri og vinstri væng sem vildu hægja á (ég var alls ekki einn af þeim, hélt að allt væri í gúddí) og síðan þegar þeir koma fram eftir hrun eru þeir skammaðir fyrir að þykjast vera einhverjir besserwisserar og já Þórðargleði.
Sjálfur hef ég ekki hugmynd um hvað er rétt eða rangt í þessu máli. Það verður að vinna með þá stöðu sem upp er kominn en þó ef allt fer í fokk þá finnst mér það bara allt í lagi þó einhverjir komi fram og segi I told you so.
Já. Það sem ég meinti er að það er engin ástæða til að leggjast í aðrar eins árásir aftur þótt þetta fari illa. En það er sannarlega ástæða til að minna á að betur hefði verið hlustað á okkur sem vöruðum við, verði það niðurstaðan. Ég er sammála þér um það. Það er aðallega spurning um hvernig við gerum það, og mér finnst engin ástæða til að sýna yfirlæti þar. Þó grunar mig að fari allt á versta veg verði já-sinnar fullir af heilagri vandlætingu. Ég sé bara ekki að það skili okkur neinu.