Engin svör hafa borist

Nú, tæpum sólarhring eftir að ég sendi opið bréf til forsvarsfólks Málsvarnar, og í tölvupósti einnig, hefur mér enn ekkert svar borist við spurningum mínum. Í kjölfar umfjöllunar Smugunnar, Eyjunnar og The Reykjavík Grapevine hefur nafn mitt þó verið fjarlægt af stuðningslistanum.

Mér þykja spurningar mínar eðlilegar og sanngjarnar. Ég sé enga ástæðu fyrir þau að svara þeim ekki nema fyrir það að ég tók sérstaklega fram í bréfi mínu að ég áskildi mér rétt til að birta þau svör opinberlega. Til upprifjunar, kjósi þau að svara mér að endingu, voru spurningarnar þessar:

1. Hverjum á að afhenda þennan stuðningslista?

2. Ef ekki á að afhenda hann neinum, til hvers er hann þá?

3. Samkvæmt vefsíðunni skal hafa samband við forsvarsfólk Málsvarnar í því tilfelli að fyrirtæki vilji styrkja söfnunina. Hvers vegna eru engar upplýsingar um það hvernig maður skráir sig af undirskriftalistanum, eða hvert beina skal fyrirspurnum?

4. Hefur forsvarsfólk Málsvarnar í engu gætt að því að baktryggja sig gegn fölskum skráningum með því að krefjast staðfestingar í tölvupósti og keyra listann saman við Þjóðskrá?

5. Ef ekki, er það þá ekki verðugt umhugsunarefni eftir nýfelldan úrskurð Persónuverndar um brotalamir undirskriftalistans gegn síðasta Icesavesamningi?

6. Get ég beiðst þess að forsvarsfólk Málsvarnar aðgæti að nafn mitt verði ekki skráð aftur á listann? Mér finnst rétt og sjálfsagt að mér verði að þeirri ósk minni.

Ég vonast enn eftir viðbrögðum. Ég býst við þeim, og ég ætlast til að fá þau. Ef þessi stuðningslisti á að vera til marks um nokkuð, þá er varla til of mikils mælst að forsvarsfólk hans veiti svör við einföldum spurningum, eða hvað?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *