Viðbjóðurinn á AMX

Á sama tíma og ég les í dönskum fjölmiðlum að fyrst hafi verið talið að um hryðjuverk hafi verið að ræða í Noregi, en svo hafi það reynst vera Norðmaður, berst enn ógeðfelldari málflutningur úr afdankaðasta horni íslenskra netheima. Þá á ég ekki við það illa innrætta fólk sem ásakaði Önnu Pálu Sverrisdóttur um pólitíska sýndarmennsku fyrir að láta hafa eftir sér við fjölmiðla að hún hefði áhyggjur af vinum sínum sem skotið hafði verið á, heldur smáfugla AMX.

Best er að veita ekki hatursfullu öfgafólki athygli og leyfa því bara að spúa sínu eitri úti í horni, en stundum ofbýður manni óþverrinn sem frá því kemur. Ungir jafnaðarmann voru stráfelldir á Utøya og í Osló var forsætisráðuneytið sprengt í loft upp. Samkvæmt nýjustu fréttum eru að minnsta kosti 93 látnir. Ef til vill finnast þau aldrei sem enn er saknað.

Þetta er harmleikur sem kemur okkur öllum við. Og meðan allir með snefil af samvisku finna til samhygðar með Norðmönnum á þessum döpru tímamótum í norskri sögu – sögu okkar allra – þvert á stjórnmálaskoðanir, nota þeir sem standa að baki AMX tækifærið til ógeðfelldra pólitískra árása á mótherja sína. Þeir hafa látið hafa eftir sér að það sé hræsni af Össuri Skarphéðinssyni að senda samúðarkveðjur til Norðmanna, af því hann nýverið fór til Palestínu að kynna sér aðstæður fólksins á hernumdu svæðunum og lýsti í kjölfarið yfir stuðningi við vilja fólksins þar til að lifa í friði sem þjóð í eigin landi.

Hann er kallaður hræsnari fyrir að vera stuðningsmaður hryðjuverkasamtaka, eftir skilningi AMX. Í mörg ár hafa Ísraelar átt í friðarviðræðum við Palestínumenn. Líklega eru Ísraelar þá hræsnarar líka fyrir að barma sér þegar einhver fremur hryðjuverk þar í landi, svona einsog hægrimenn hljóta allir að vera hræsnarar um leið og einn þeirra fremur hryðjuverk og myrðir 93 saklausar manneskjur, eða hvað? Sú yfirlýsing að fólk skuli hafa tækifæri til að lifa við sömu lífskjör og við teljum sjálfsögð er nefnd stuðningur við hryðjuverkasamtök. Á sama tíma reyna AMX-liðar að afneita því að ódæðismaðurinn hafi verið hægriöfgamaður.

Athugasemd þeirra um að nasismi eigi eitthvað skylt við sósíalisma er of heimskuleg til að svara. En hitt, að þeim finnist það ekki fyrir neðan sig að gera lítið úr fjöldamorðum á jafnaðarmönnum á einstaklega ógeðfelldan hátt, með því að spyrða þá saman við hryðjuverkasamtök – vel að merkja hafa AUF það einnig á sinni stefnuskrá að stuðla að friði milli stríðandi fylkinga fyrir botni Miðjarðarhafs, svo þetta er ekki aðeins árás á Össur, heldur öll þau sem létu lífið í hryðjuverkunum í Noregi – það nægir þeim ekki einu sinni, heldur eru þeir nægilega veruleikafirrtir til að reyna að neita því að maðurinn hafi aðhyllst hægristefnu. Einsog það geri harmleikinn eitthvað skárri eða verri eftir því hvar hann fann sig í stjórnmálum.

Það hefur ekki hvarflað að þeim að fjalla um málið eftir eigin yfirlýstu stefnu, sem á eins kaldranalegt og það nú er að heita „vönduð miðlun frétta“, heldur notfæra þeir sér vofveiflegasta atburð í sögu Norðurlanda til að skjóta á pólitíska andstæðinga og spyrða þá saman við hugmyndafræði sem í þeirra sjúka höfði þeir sjálfsagt tengja við ódæðismanninn sjálfan. Meiri viðbjóð í íslenskri umræðuhefð hef ég ekki orðið var við í langan tíma, ef nokkru sinni. Slík gegndarlaus mannfyrirlitning er alveg á pari við óþverrann sem liggur eftir Anders Breivik á prenti; að ungir jafnaðarmenn hafi átt skilið að deyja fyrir stuðning sinn við fjölmenningarstefnu, og í leiðinni stuðning þeirra við sjálfstætt ríki í Palestínu samhliða Ísrael. Já, gott ef hann kallar það ekki hræsni líka.

Eru smáfuglarnir ánægðir með að vera spyrt svona saman við morðingjann á Utøya? Ekki get ég ímyndað mér það. En samkvæmt AMX hlýtur það sömuleiðis að teljast hræsni að nú syrgja 2000 manns hinn 21 árs Tore Eikeland á opinni minningasíðu. Samkvæmt þeim er kannski hræsni að finna í frásögn ungrar stúlku sem faldi sig í hrúgu látinna félaga í tilraun til að lifa af. Samkvæmt AMX hljóta allir að vera hræsnarar aðrir en þeir sjálfir. En hvernig væri nú, Friðbjörn Orri og félagar, að þið sýnduð sömu samúð og aðrir sýndu ykkur ef ungir hægrimenn hefðu verið myrtir í hrönnum á samkomu fyrir það eitt að hafa hugsjónir og ræða þær? Ef þið alls ekki getið sýnt tilhlýðandi virðingu fyrir mannslífum, ef ykkur er alls ekkert heilagt annað en fullvissa ykkar um eigið ágæti, þá er kannski betra að þið haldið bara kjafti og geymið þórðargleðina meðan við hin syrgjum með norsku þjóðinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *