Ég var á fjölmennum fundi í gær, sem haldinn var í minningu valinkunns bloggara og vinar. Þar velti Gísli Ásgeirsson því upp að bloggið hefði breyst svo mikið í seinni tíð frá því sem áður var, þegar venjulegar sögur úr hversdagslífinu – væru þær vel sagðar – gátu verið dagleg upplyfting. Þegar fólk kom hreinlega til dyranna einsog það var klætt.
Þegar hann sagði þetta þá uppgötvaði ég skyndilega að ég var staddur nánast á sellufundi þeirra bloggara sem ég hef kynnst smámsaman yfir alnetið, allt frá því ég byrjaði 2003 til dagsins í dag, bloggara sem ég hef kallað vini mína í mörg herrans ár en þó aldrei hitt áður. Gísla má fyrstan nefna. Hann hafði ég aldrei hitt, en þó lesið og tjáð mig við einstaka sinnum í nokkur ár.
Baunina hafði ég aðeins hitt tvisvar áður, þar af eitt skipti þegar mér var boðið á ríkulegt heimili hennar að drekka kaffi. Þar hitti ég Hjálmar líka í fyrsta sinn, sem ég veit raunar ekki hvort bloggi en hafði séð hér og þar á Facebook, og að sjálfsögðu baunarbarnið æskuvinkonu mína Ástu. Betu baun las ég áður en ég vissi að þær væru mæðgur.
Parísardömuna hitti ég í fyrsta sinn í gær líka, svo ég muni altént, þótt persónulegu kynnin væru stutt þar sem ég þurfti að fara. Ef hægt er að kalla þau kynni eitthvað persónulegri en þau sem við höfum átt á netinu. Allt fólkið þarna finnst mér ég þekkja eins vel og mína nánustu. Hildigunnur Rúnars var þarna, og hana hef ég aðeins hitt einu sinni áður – þegar hún flutti Vídalínsstykkið sitt – og svo systir hennar Hallveig sem ég hafði aldrei hitt.
Elías Halldór var þarna, og dóttir hans og vinkona mín Erla. Elíasi kynntist ég fyrst á blogginu en hef þó hitt talsvert oft síðan, og svo eftir að ég kynntist Erlu fór ég að lesa bloggið hennar.
Þarna var líka Þórunn Hrefna, eða Tóta paunk, sem ég þekki einna best, ekki síst í gegnum samstarf við Þórbergssetur. Þá var þarna margt annað fólk sem ég hef kynnst í eigin persónu áður en netvinátta hófst, svosem Drífa, Þorsteinn Vilhjálms, Þorgerður Sigurðardóttir og Gerður Kristný, og svo enn önnur manneskja sem ég aðeins hafði talað við á netinu, Eyja Margrét.
Flestöll kynntumst við í dagsins önn og ekki gegnum einhver merkilegheit, bara með því að vera við sjálf, og leyfa okkur að vera við sjálf opinberlega – á netinu. Öðrum kynntist ég í gegnum pólitík eða ritlist, en flestöllum hefur okkur hreinlega bara litist svo vel hvert á annað að við höfum myndað órjúfanleg tengsl yfir þá dómadagsmaskínu, alnetið.
Einsog Gunnar Hrafn sagði, þá þarf alnetið knúz miklu oftar, því annars breytist það bara í vígvöll. Eftir að Gísli opnaði augu mín fyrir því ennfrekar, hvað vinátta getur verið sterk þrátt fyrir að aldrei hafi maður einu sinni hitt viðkomandi, þá hallast ég ennþá meir að því að gamla bloggið sem eitt sinn við öll stunduðum, sum enn en sum okkar ekki, sé langtum hollari vettvangur skoðanaskipta en þetta argaþras sem stöðugt dynur yfir blogggáttina.
Í einu herbergi voru saman komnar fleiri og fleiri manneskjur sem ég lít á sem vini mína, og enn aðrar manneskjur sem ég hafði aldrei áður hitt. Margir komust ekki þótt viljað hefðu, gamlir bloggvinir einsog Þórdís Gísla, gamlir félagar úr ljóðlistinni einsog Hildur Lilliendahl, og svo fólk sem ég nýverið hef fengið löngun til að kynnast, einsog til dæmis Hildur Knútsdóttir tískubloggari.
Þetta er öflugur hópur fólks, og flestöll kynntumst við gegnum netið. Segið svo ekki að alnetið geti ekki ýmislegt þegar það fær smá knúz.
Ég elska internetið. Ég vildi að ég hefði komist.
Kommentið sem ég ætlaði að skrifa þótti kerfinu of stutt til að tæki því að birta það. Það sem ég vildi sagt hafa er bara þetta:
*knúz*
Hjálmar er hér: http://stjupbauni.blogspot.com/
Oh, ég var að sjá þetta fyrst núna. Þú rassast ekki lengur hjá mér! Nákvæmlega eins og ég fór að pæla eftir orð Gísla. Knúz til þín og takk fyrir að rembast við að vera bloggari áfram.
Gno, en ótrúlega krúttleg færsla. Fær mig til að langa til að vera memm í þessum bloggheimi… en ég þoriðvíekki… og hef ekki tíma 🙁 Hver veit, kannski seinna.
Jú, vertu með. Það er best 🙂