Lesendur Bloggsins um veginn ættu að kannast við að ég hef ekki beinlínis átt sjö dagana sæla í Danmörku. Nú er sú dvöl á enda runnin, með sérdeilis viðeigandi hætti líka sé tillit tekið til allra þeirra erfiðleika sem ég hef átt við að etja síðan ég flutti fyrir rúmu ári.
Fyrsta íbúðin mín var ógeðsleg, nær óíbúðarhæf, og á versta mögulega stað. Á endanum var ég varla fáanlegur útúr húsi fyrir þunglyndi, hékk bara þarna og lét mér líða illa. Meðan ég bjó þar lauk gríðarstórum kafla í mínu persónulega lífi, og við bættist að ég fékk ekki að halda jól einsog aðrir. Jólamaturinn var bjór og einhver bakkelsisviðbjóður í Kristjaníu, en alla aðra daga fram að áramótum vann ég að rannsóknum.
Með naumindum tókst mér að flytja eftir að ég var skilinn eftir lyklalaus með búslóðina bakvið læsta girðingu, og það kostaði mig um 23.000 krónur fyrir 40 mínútna vinnu. Undir eins og ég var fluttur á betri stað tók við þriggja mánaða vinna sem skilaði mér litlu nema reynslunni, og svo fór allt í köku þegar kom að prófunum. Ég er enn að glíma við afleiðingar þess þar sem ég fæ ekki allar einingarnar sem ég lauk vegna einhvers formsatriðis sem klúðraðist í meðförum starfsmanna skólans.
Tvisvar í sumar var mér húrrað upp á slysadeild. Á mér hvílir óskiljanleg krafa vegna einhverrar internettengingar sem ég fyrir lifandis löngu sagði upp. Að ótöldu tekjuleysi síðasta spottann og því að allir vinir mínir eru fluttir burt frá Árósum að einum undantöldum. Svo fékk ég þau tíðindi í gær að ég fái ekki íbúðina sem mér hafði verið lofað, og ekki tjóir að búa á götunni meðan maður skrifar mastersritgerð. Það er ekki smuga að ég fái aðra íbúð með þessum fyrirvara, svo ég er að koma heim til að skrifa ritgerðina.
Ekki bætir úr skák að ég er að sjálfsögðu heimilislaus á Íslandi líka og nýbúinn að selja bílinn minn. En það er þó betra að vera heimilislaus í eigin landi en öðru. Eins mikið og ég elska Árósa þá var dvölin orðin ansi þrúgandi, enda var ég aleinn nánast 8 mánuði samfleytt, sem er ekkert gaman þótt maður að vísu afkasti miklu þannig.
Áætlun næstu daga er eftir tilefni sérlega áhugaverð. Ég held til Danmerkur í fyrramálið og flyt eigur mínar með fulltingi Jakobs vinar míns heim til hans, þar sem hann er svo ljúfur að leyfa mér að breyta fínu stofunni sinni í geymslu. Þar gisti ég uns ég svo held aftur utan og í þetta sinn til Ítalíu. Þaðan svo aftur til Árósa að fjarlægja lagerinn af heimili Jakobs og afhenda Eimskipum. Eftir það veit ég ekki hvað verður um mig, en mig grunar þó að ég eigi í ýmis góð hús að venda meðan ég ræð ráðum mínum um framhaldið.
Það á ekki af þér að ganga!
Píslarsaga af Karl Wernerssonarvegi 4,