Í september brá ég mér til Mílanó. Þar gerðist sitthvað mismerkilegt. Hér er það eftirminnilegasta:
Þegar óróaseggir grýttu veitingabátinn okkar á sýkinu með flöskum. Staðarhaldarar og bullur tóku að rífast hverjir sín megin sýkisins uns lögreglan kom og leysti þetta upp.
Suddaleg rigningin að degi fyrsta bæjartúrsins – sem varð skammlifaður. Meðfylgjandi ótti við að metrókerfið flæddi yfir. Sömuleiðis var eftirminnilegt að taka sömu neðanjarðarlestir og fyrir 22 árum, sjá sömu sporvagna á götunum.
Þegar Steinvör læsti okkur Eyju óvart úti á svölum. Eftir vonlausar tilraunir til að gera vart við okkur var ég farinn að íhuga að láta mig gossa þessa tæpu fjóra metra frá svölum niður á stétt og freista þess að hringja dyrabjöllunni, í von um að hún vaknaði, þegar hún skyndilega birtist í stofunni, hálfsofandi að sækja sér vatnsglas.
Mótmæli opinberra starfsmanna á dómkirkjutorginu. Þar voru kommúnistafánar í bland við vinstrigræna fána og innlifuð ræðuhöld. Mér hætti að lítast á blikuna þegar alríkislögreglan (carabinieri) mætti á maríunum með óeirðaskildi og byssur, en mótmælendur fóru að öllu með friði. Ég átti von á baráttusöngvum á borð við Bandiera Rossa, en þess í stað voru leikin popplög af geisladisk.
Nektarmynd inni í barnaherbergi.
Kvöldverður úti við kanalinn undir eldingarglærum í fjarska.