Iðulega hef ég rétt misst af gönguljósinu þegar ég kem að gangbrautinni við Hamrahlíð og Kringlumýrarbraut. Þá ýti ég á takkann, en oft myndast einmitt þá gap í umferðinni sem ég gæti hæglega smogið mér í gegnum. En mér finnst eitthvað svo ókurteist að nýta ekki ljósið til neins svo ég bíð uns yfirleitt uns það kemur, bara svo bílstjórarnir fái eitthvað fyrir sinn snúð. Svona er ég góðhjartaður.
Við þessi sömu gatnamót liggur Suðurver. Það eru ekki margir sem vita að Suðurver er kennt við bæ fyrsta Spánverjans sem settist að á Íslandi á 13. öld, eða einsog segir í kvæðinu: „Sunnan verir sigldu / sölu Mára frá.“ Því miður náði kvæðið ekki útbreiðslu utan suðvesturlands fyrr en með bættum samgöngum á 19. öld. Vestfirðingar vissu auðvitað ekki af hinu íslensk-hispaníska menningarsamfélagi sem hafði þróast á suðvesturhorninu, og hefði kvæðið borist til Vestfjarða hefði því mátt komast hjá Spánverjavígunum á 17. öld, en með þeim lauk menningarsambandi Íslands og Spánar uns skreiðarútflutningur komst í hámæli um aldamótin 1900. Er fallandi munnlegri kvæðahefð jafnan kennt um en kvæðið er varðveitt í pappírseftirskrift frá 18. öld. Til þess voru hagyrðingar fundnir upp að sporna við samskonar misskilningi þaðan í frá, og upp úr því umhverfi spratt Sigurður Breiðfjörð, til hins betra eða verra eftir því hver mælir um.
Annars er fermingarundirbúningur í hámarki hér í Bogahlíðinni. Það er mikið verk að pússa silfur, og smáborgaratilfinningin sem hellist yfir mann á meðan er óviðjafnanleg. Svo lengi sem það er það eina sem hellist yfir mann, en ég að sjálfsögðu sullaði silfurpússi í hvítu skyrtuna sem ég asnaðist til að vera í á meðan. Og á buxurnar. En bakkinn sem Eyja keypti á þúsundkall í Góða hirðinum er í það minnsta farinn að skína undan tæringunni. Til þess nefni ég verðið og sölustaðinn að skola af mér smáborgaratilfinningunni. Hvort silfurpússið skolist af fötunum mínum er aftur önnur og ef til vill flóknari spurning.
Hvar er læk-hnappurinn?
Ef ég aðeins hefði slíka græju.