Eftir að ég fór að ferðast mikið um Norðurlöndin hef ég skemmt mér því meira yfir þeim orðum sem hafa ólíka merkingu á milli landa. Það sem er sjovt á dönsku er til dæmis gøy á norsku, sem er sama orðið og gay í ensku og hýr í íslensku. Ólíkt seinni tveim málunum er það enn notað í upphaflegri merkingu í norsku.
Uppáhaldið mitt er samt roligt í sænsku. Það tók mig tíma að átta mig á því hvers vegna Svíum þætti svona rólegt að kynnast mér og hvernig það gæti passað að metaltónleikar hefðu verið „djöfull rólegir“. Svo komst ég náttúrlega að því að það sem Svíum finnst vera roligt er það sem Íslendingum þykir skemmtilegt eða gaman, og hefur því svipaða merkingu og sjovt, sem getur hvorutveggja verið fyndið eða skemmtilegt, eða gøy, sem er það sem er hýrt eða skemmtilegt.
Semsé rólegt, skemmtilegt, fyndið og hýrt þegar grunnmerkingar fjögurra tungumála eru teknar saman. Hljómar það ekki einsog staðalmynd um einhvern þjóðfélagshóp?