Íslenskar bókmenntir eru dauðar

Nú þegar Páll Baldvin lætur af störfum í Kiljunni og á Fréttatímanum, þar sem hann gagnrýndi jafnan sömu bækur fyrir báða miðla, segist hann vera alveg gáttaður á því að rithöfundar hafi ekki kvartað undan meðferðinni sem þeir hafa fengið í fjölmiðlum, meðal annars hjá honum sjálfum. Bíðum nú hæg. Við höfum bara víst kvartað og það í áraraðir og okkur hefur jafnan verið sagt að við megum bara þakka fyrir það sem við þó fáum. Hvorki í störfum sínum í Kiljunni eða í Fréttatímanum sýndi hann mínum bókum til dæmis neinn áhuga. Þess heldur samnýtti hann Fréttatímann til að endurtaka sömu gagnrýnina og úr Kiljunni. Átti ég að hringja í hann og kvarta?

Ekki eru hinir miðlarnir skárri; raunar eru þeir langtum verri ef eitthvað er. Þetta eru miðlar sem taka innsendar ljóðabækur og kasta beint í ruslið, nema í þeim undantekningatilvikum að viðtal er tekið við ljóðskáld (nær aldrei undir fertugu), en þá aldrei án þess að spyrja stríðnislega hvort ljóðið sé ekki dautt. Ljóðið er auðvitað steinfokkíngdautt, bara rétt einsog íslenskar bókmenntir og bókmenning yfirhöfuð. Hafði ég ekki lesið bókina gat ég í 90% tilvika giskað á hvaða dóm hún fengi hjá Páli Baldvin í Kiljunni/Fréttatímanum – 100% ef ég hafði lesið bókina. Það er algerlega fyrirsjáanlegt hvaða bókum verður hampað og að fólk muni almennt vilja lesa það sem Páll Baldvin og Kolbrún vilja að það lesi. Fjölmiðlar skammta gagnrýnendum sínum rúmi og gagnrýnendur verða tól þeirra til eyðileggingar. Þetta er tilræði við bókmenntirnar og enginn þorir að horfast í augu við það.

Og Páll er gáttaður á hverju, nákvæmlega? Að rithöfundar rísi ekki upp og mótmæli þessu? Hann gat bara mótmælt þessu sjálfur, því þeim rithöfundum sem gera það er sagt að þegja. Restin skrifar sig viljandi inn í markaðinn sem Páll Baldvin hafði að atvinnu þar til fyrir skemmstu. Ég hef ekki áhuga á að skrifa fyrir markað sem viðurkennir ekki að yngstu höfundar sínir séu til nema þeir skrifi inn í Kiljulaga skapalónið sem einokar íslenska umræðu um bókmenntir. Ég ætla því ekki að mótmæla neinu. Hinsvegar mun ég fagna því í hvert sinn sem hundraðorðagagnrýnandi hættir. Ég mun fagna því þegar Kolbrún hættir og Kiljan vonandi með henni. Og ég mun fagna því þegar dagblöð endanlega gefast upp á að eyða orðum í íslenskar bókmenntir. Engin umræða er illskárri en þetta yfirborðskennda vinsældablaður sem nú er.

Bætist alltaf við það sem vantar

Ég er farinn að halda að Árósaháskóli vilji alls ekki losna við mig, slíku dauðataki heldur hann í mig. Sagan hefst á því að ég skilaði ritgerðinni minni í mars, einsog lög gerðu ráð fyrir. Langur tími leið, líklega 4-5 vikur, uns ég fékk athugasemdir tilbaka frá leiðbeinanda, nokkuð sem ég var orðinn efins um að ég fengi yfirhöfuð. Það hefði bæði verið auðvelt og erfitt að fylgja þeim eftir til hlítar, en ég var bundinn af blaðsíðufjölda sem ég hafði þegar yfirskriðið og í kapphlaupi við tímann, svo á endanum gerði ég lítið við athugasemdirnar. Ég skerpti aðeins á röksemdafærslu hér og þar, bætti við dálitlu efni og setti aðeins skýrari fyrirvara við verkið (sem ég sé eftir að hafa gert núna). Ég skilaði ritgerðinni aftur í maí, til leiðbeinanda, nokkuð á eftir áætlun.

Svo fékk ég bréf frá leiðbeinandanum mínum. Mánuði síðar. Hann sá ástæðu til þess að spyrja mig hvort ég hefði ekki örugglega skilað ritgerðinni. Hann átti víst ekki að fá ritgerðina heldur skrifstofa skólans, og hann einfaldlega gerði ráð fyrir að ég vissi það svo hann gerði engar athugasemdir við það þótt hann fengi ritgerðina aftur í pósti. Svosem ekki mikið mál, að ég hélt. Ég sendi ritgerðina á skrifstofuna. Ekkert svar. Í Danmörku getur það vitað á allt gott og illt milli himins og jarðar að fá ekki svar við tölvupósti. Einu sinni sat ritgerð eftir mig mánuðum saman á skrifborði hjá manneskju af því það vantaði eyðublað með henni. Engum datt í hug að hafa samband við mig eða kennarann í það skiptið.

Og viti menn, tveim vikum síðar spyr leiðbeinandinn mig hvort ég hafi ekki skilað eyðublaði með ritgerðinni. Þar hófst eltingarleikur við meint eyðublað sem entist nokkra streituvaldandi daga. Enginn vissi hvaða eyðublað það væri sem vantaði eða hvar ég gæti fengið téð eyðublað. En það voru hreinar línur að það vantaði eyðublað. Án þess yrði ritgerðin ekki lesin hvað þá annað. Ég sendi bréf til nýrrar konu á skrifstofunni (öllu fyrirkomulaginu er breytt á tveggja ára fresti og í hvert sinn er skyldum eins starfskrafts jafnan deilt á fleiri; nýja konan virtist þá vera býrókratinn sem tekur við ritgerðum og eyðublöðum). Þrír dagar liðu án svars, svo ég hringdi í hana. Hún varð reið og sagðist myndu svara bréfinu þegar hún hefði tíma! Þegar svarið barst síðla sama dag sagði hún ekki annað en að það vantaði eyðublað. Ég sendi henni annað bréf og spurði hvaða eyðublað það væri og hvar ég gæti nálgast það. Ekkert svar.

Til að gera langa sögu stutta þá á endanum varð nýja konan alveg foxill sökum endalausra fyrirspurna minna um keisarans skegg og leyfði mér að skila ritgerðinni án eyðublaðsins sem ég aldrei fékk úr skorið hvar ég eiginlega fengi eða til hvers væri. Þetta var 14. júní og hún sagði að skólinn áskildi sér þrjá mánuði til að meta ritgerðina; einkunn bærist eigi síðar en 14. september. Í fyrradag hringdi leiðbeinandinn í mig á Skype og sagði að búið væri að meta ritgerðina mína, en ég hefði gleymt því að hafa útdrátt á öðru tungumáli fremst í henni og að ekki væri hægt að útskrifa mig án hans. Það væri í reglunum.

Ég skrifaði eina blaðsíðu á dönsku og var tilbúinn með hana sama dag. Daginn eftir kemur í ljós að leiðbeinandinn veit ekki hvort útdrátturinn eigi að vera á dönsku eða ensku, þar sem honum hefur verið tjáð hvorttveggja af sömu manneskjunni (nýju konunni á kontórnum) og nú segir hann þrjár blaðsíður en ekki ein. Eftir óvenju snörp bréfaskipti við konuna á kontórnum varð ljóst að útdrátturinn á að vera þrjár blaðsíður og má vera á ensku eða dönsku af því ég var fyrst skráður í skólann 2009 (síðan þá hefur heildarfyrirkomulaginu verið breytt að minnsta kosti tvisvar og deildin mín leyst upp inn í einhverja allt aðra deild).

Nú vona ég bara að þau taki sér ekki aðra þrjá mánuði í að registrera jafnmargar blaðsíður sem engu bæta við heildarverkið. Ég held ekki að nein stofnun nokkru sinni hafi lagt jafn marga steina í götu mína af eins lítilfjörlegu tilefni. Hálft ár horfið fyrir eyðublað og útdrátt. Maður hefði haldið að það mætti redda öðru eins á einni viku í mesta lagi (til samanburðar skilaði ég BA-ritgerðinni þegar ég var búinn með hana og fékk einkunn; flóknara var það nú ekki). Þrátt fyrir allt er ég nokkuð vongóður um að ég fái að útskrifast úr meistaranáminu einhvern tíma áður en ég ver doktorsritgerðina.

Íslenskufræðingur tefst vegna ferðasögu frá 1998

Þetta var nokkuð óþægileg nótt, ég hélt áfram að hrökkva upp hóstandi. Vaknaði svo skjálfandi og með höfuðverk sem ég er enn ekki laus við og keyrði pabba, ásamt pumpu, Nesjavallaleiðina út að Úlfljótsvatni þar sem bíllinn hans sat á loftlausu dekki. Í þessu líka ofsaviðri. Á bakaleiðinni tafðist ég spöl úr leið aftan við Lapplander á þýskum plötum sem lullaði áfram á 50 úti á þjóðvegi. Velti fyrir mér stundarkorn hvort Huldar Breiðfjörð hefði verið þýddur yfir á tungu Búndesrepúblíksins og því ef til vill átt hlut að máli þótt óbeint væri, valdið straumhvörfum í hugum ungs vinahóps í 101 Stuttgart, „Wir müssen durch Island in einem Volvo Lapplander fahren!“ og nú væru þau komin í þennan hrylling hérna á sérstaklega völtu farartæki. Mikil er ábyrgð þín, Huldar.

Á leiðinni heim kom ég við í Góða hirðinum og festi kaup á flatskjá til að tengja við borðtölvuna sem ég hef ætlað skrifstofunni. Ég setti svo tölvuna saman til þess eins að setja upp Office á henni en þá virkaði ekki fyrsti diskurinn sem öll installasjónin hangir á. Þar sem ég nenni alls ekki að finna Office fyrir Windows XP á netinu (þótt ég eigi keypt eintak þyrfti ég að stela þessum úrelta hugbúnaði, sem er fullkomlega snargalið) sótti ég OpenOffice á makkann og færði yfir á tölvuna með minnislykli. Það þarf að duga í bili.

Og nú fer klukkan að nálgast fimm og ég hef enn ekki unnið neitt í dag. Me miserum.

Deus ex academia

Fyrsta lögmál framhaldsnemans er: Ef ég aðeins hefði X, þá kæmi ég öllu í verk. Ef þetta gengi upp í raun og veru væri um að ræða einhvers konar deus ex academia. Annað lögmál framhaldsnemans er því: Um leið og X fæst, þá hættir það að vera X. Sú ímyndaða lausn sem fólgin er í X er aldrei í samræmi við veruleika þarfarinnar.

Með öðrum orðum bíð ég eftir vinnuaðstöðu í Háskólanum og hef talið sjálfum mér trú um að þá fyrst finnist hið mikla skipulag, að þá verði allt fullkomið, að þá komi ég öllu í verk. Að þar muni ég frekar finna tíma til að lesa allar nýju bækurnar mínar en heima hjá mér, enda þótt staðreyndin sé sú að ég hef meira eða minna vinnufrið heima frá átta til fimm og að bókaskápurinn sem ég fæ á skrifstofunni verður minni en sá sem ég kveinka mér undan að sé löngu sprunginn, og síst skánar ástandið þegar ég bæti við bókum nærri vikulega.

En ég hef semsagt talið mér trú um að vinnuaðstaða á skrifstofu muni breyta lífi mínu til hins betra, og það verður að játast að mér finnst ágætt að standa í þeirri trú. Þangað til kenni ég skrifstofuleysinu um hvað mér verður lítið úr verki. Ég prentaði út fimm greinar í gær eða fyrradag sem ég vonandi kemst í að lesa fyrir mánaðamót, og vonandi verð ég ekki fyrir jafnmiklum vonbrigðum með þær einsog með greinina hverrar höfundur virtist telja það vera merkilega uppljóstrun að líklega hefði Sæmundur fróði numið þríveginn á skólaárum sínum í Evrópu. Líklega tók Caesar sér einræðisvald í Rómaveldi, eða hvað veit maður svosem. Ég vænti þess svosem aldrei að höfundurinn væri einhver Arnaldur.

Nóg er nú annað á leslistanum kræsilegra en þetta, til að mynda ný útgáfa Morkinskinnu (sem fyrst íslenskra fornrita mér vitandi fékk tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna, sem þjónaði kannski þeim tilgangi svona eftir á að hyggja að leiða manni það fyrir sjónir að auðvitað hefði átt að tilnefna þau öll) og svo Saga Hamborgarbiskupa hans Adams frá Brimum sem ég hef beðið alltof lengi með að lesa.

Annars er lífið óttalega mikið púsl þessa dagana auk latínustíla og fundasetu. Sem er ágætt svo langt sem það nær, en ég verst ekki þeirri tilhugsun að allt yrði þetta smurðara ef ég bara væri kominn með vinnuaðstöðuna mína, deus ex academia.