Deus ex academia

Fyrsta lögmál framhaldsnemans er: Ef ég aðeins hefði X, þá kæmi ég öllu í verk. Ef þetta gengi upp í raun og veru væri um að ræða einhvers konar deus ex academia. Annað lögmál framhaldsnemans er því: Um leið og X fæst, þá hættir það að vera X. Sú ímyndaða lausn sem fólgin er í X er aldrei í samræmi við veruleika þarfarinnar.

Með öðrum orðum bíð ég eftir vinnuaðstöðu í Háskólanum og hef talið sjálfum mér trú um að þá fyrst finnist hið mikla skipulag, að þá verði allt fullkomið, að þá komi ég öllu í verk. Að þar muni ég frekar finna tíma til að lesa allar nýju bækurnar mínar en heima hjá mér, enda þótt staðreyndin sé sú að ég hef meira eða minna vinnufrið heima frá átta til fimm og að bókaskápurinn sem ég fæ á skrifstofunni verður minni en sá sem ég kveinka mér undan að sé löngu sprunginn, og síst skánar ástandið þegar ég bæti við bókum nærri vikulega.

En ég hef semsagt talið mér trú um að vinnuaðstaða á skrifstofu muni breyta lífi mínu til hins betra, og það verður að játast að mér finnst ágætt að standa í þeirri trú. Þangað til kenni ég skrifstofuleysinu um hvað mér verður lítið úr verki. Ég prentaði út fimm greinar í gær eða fyrradag sem ég vonandi kemst í að lesa fyrir mánaðamót, og vonandi verð ég ekki fyrir jafnmiklum vonbrigðum með þær einsog með greinina hverrar höfundur virtist telja það vera merkilega uppljóstrun að líklega hefði Sæmundur fróði numið þríveginn á skólaárum sínum í Evrópu. Líklega tók Caesar sér einræðisvald í Rómaveldi, eða hvað veit maður svosem. Ég vænti þess svosem aldrei að höfundurinn væri einhver Arnaldur.

Nóg er nú annað á leslistanum kræsilegra en þetta, til að mynda ný útgáfa Morkinskinnu (sem fyrst íslenskra fornrita mér vitandi fékk tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna, sem þjónaði kannski þeim tilgangi svona eftir á að hyggja að leiða manni það fyrir sjónir að auðvitað hefði átt að tilnefna þau öll) og svo Saga Hamborgarbiskupa hans Adams frá Brimum sem ég hef beðið alltof lengi með að lesa.

Annars er lífið óttalega mikið púsl þessa dagana auk latínustíla og fundasetu. Sem er ágætt svo langt sem það nær, en ég verst ekki þeirri tilhugsun að allt yrði þetta smurðara ef ég bara væri kominn með vinnuaðstöðuna mína, deus ex academia.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *