Íslenskar bókmenntir eru dauðar

Nú þegar Páll Baldvin lætur af störfum í Kiljunni og á Fréttatímanum, þar sem hann gagnrýndi jafnan sömu bækur fyrir báða miðla, segist hann vera alveg gáttaður á því að rithöfundar hafi ekki kvartað undan meðferðinni sem þeir hafa fengið í fjölmiðlum, meðal annars hjá honum sjálfum. Bíðum nú hæg. Við höfum bara víst kvartað og það í áraraðir og okkur hefur jafnan verið sagt að við megum bara þakka fyrir það sem við þó fáum. Hvorki í störfum sínum í Kiljunni eða í Fréttatímanum sýndi hann mínum bókum til dæmis neinn áhuga. Þess heldur samnýtti hann Fréttatímann til að endurtaka sömu gagnrýnina og úr Kiljunni. Átti ég að hringja í hann og kvarta?

Ekki eru hinir miðlarnir skárri; raunar eru þeir langtum verri ef eitthvað er. Þetta eru miðlar sem taka innsendar ljóðabækur og kasta beint í ruslið, nema í þeim undantekningatilvikum að viðtal er tekið við ljóðskáld (nær aldrei undir fertugu), en þá aldrei án þess að spyrja stríðnislega hvort ljóðið sé ekki dautt. Ljóðið er auðvitað steinfokkíngdautt, bara rétt einsog íslenskar bókmenntir og bókmenning yfirhöfuð. Hafði ég ekki lesið bókina gat ég í 90% tilvika giskað á hvaða dóm hún fengi hjá Páli Baldvin í Kiljunni/Fréttatímanum – 100% ef ég hafði lesið bókina. Það er algerlega fyrirsjáanlegt hvaða bókum verður hampað og að fólk muni almennt vilja lesa það sem Páll Baldvin og Kolbrún vilja að það lesi. Fjölmiðlar skammta gagnrýnendum sínum rúmi og gagnrýnendur verða tól þeirra til eyðileggingar. Þetta er tilræði við bókmenntirnar og enginn þorir að horfast í augu við það.

Og Páll er gáttaður á hverju, nákvæmlega? Að rithöfundar rísi ekki upp og mótmæli þessu? Hann gat bara mótmælt þessu sjálfur, því þeim rithöfundum sem gera það er sagt að þegja. Restin skrifar sig viljandi inn í markaðinn sem Páll Baldvin hafði að atvinnu þar til fyrir skemmstu. Ég hef ekki áhuga á að skrifa fyrir markað sem viðurkennir ekki að yngstu höfundar sínir séu til nema þeir skrifi inn í Kiljulaga skapalónið sem einokar íslenska umræðu um bókmenntir. Ég ætla því ekki að mótmæla neinu. Hinsvegar mun ég fagna því í hvert sinn sem hundraðorðagagnrýnandi hættir. Ég mun fagna því þegar Kolbrún hættir og Kiljan vonandi með henni. Og ég mun fagna því þegar dagblöð endanlega gefast upp á að eyða orðum í íslenskar bókmenntir. Engin umræða er illskárri en þetta yfirborðskennda vinsældablaður sem nú er.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *