Happaþrennan

Happaþrennan góða
Sumum hlutum gleymir maður aldrei, nema um stundarsakir. Eða öllu heldur rifjast þeir ekki upp fyrir manni nema endrum og sinnum, einu sinni á ári eða á nokkurra fresti; eða yfirhöfuð alls ekki nema eitthvað minni mann sérstaklega á þá. Ég er þegar búinn að gleyma því hvað rifjaði upp fyrir mér eftirfarandi sögu, en hún telst til þeirra sem ég „mun aldrei gleyma“.

Mér finnst sennilegra að árið hafi verið 1990 en 1988. Í öllu falli bjuggum við í Gnoðarvogi og Þórður bróðir hafði plokkað aura af mömmu og pabba handa okkur sem við gætum eytt í Vogaturninum (sem enn er starfræktur). Og hér blandast tvær minningar saman í eina en ég mun aðeins fylgja annarri þeirra eftir: önnur þeirra snerist um skilningsleysi mitt um það hvað „bland í poka“ var, en sú sem ég vil segja fjallar um happaþrennur (og nú man ég hvað rifjaði upp fyrir mér þessa sögu, það voru orðin „bland í poka“ inni í bók).

Við stóðum inni í svefnherberginu sem við deildum í Gnoðarvogi og bróðir minn sagðist vilja kaupa sér happaþrennu fyrir sinn hluta af peningunum (sennilega fengum við fimmtíukall hvor í einum hundraðkrónuseðli). Ég spurði hann spenntur hvað happaþrenna væri, og hann útskýrði það þannig – eða þannig skildi ég það – að þetta snerist um að fá þrjár myndir eins og þá ynni maður peninga. Og ég sá undir eins fyrir mér nákvæmlega þá græju sem sést á meðfylgjandi mynd, og ég meina nákvæmlega sömu græju að því undanskildu að hún var lítil og meðfærileg og á þeirri sem ég ímyndaði mér var skúffa við hliðina á sveifinni neðst. Þar í lægju peningarnir sem hægt væri að vinna.

Sá hængur var þó á happaþrennunni að aðeins var hægt að nota hana einu sinni, en væri maður heppinn þá ynni maður peninga, jafnvel marga hundraðkalla. „En ef maður vinnur ekki, má maður þá samt eiga happaþrennuna?“ spurði ég, og Þórður sagði að það mætti maður vissulega, en hann skildi þó ekki til hvers eiginlega nokkur myndi vilja það. Maður henti þeim bara. Ég sagðist vilja eiga mína happaþrennu samt. Ég hélt að peningarnir hlytu að vera áfram inni í henni jafnvel þótt maður tapaði og að kannski næði maður þeim út að lokum með nægilegri seiglu.

Bróðir minn skildi ekki hvað ég var að fara, en út í sjoppu fórum við yfir stóra hringtorgið (sem ekki er lengur þar) og í stað blands í poka (kannski er þetta sama minningin eftir allt saman) fékk ég mér happaþrennu líka, spenntur. Og fékk einhvern miða, sem bróðir minn kenndi mér að skafa. Hvorugur okkar vann neitt, og þegar hann henti sinni í ruslið þá hikaði ég eitt andartak, leit svo á miðann aftur og sá að ég fengi ekki neina peninga úr þessu þaðan af, ólíkt happaþrennunni sem ég hafði ímyndað mér, og lét mína falla í ruslið á eftir hinni. Og ég man að mér fannst þetta helst til tilgangslaust þegar allt kom til alls.

Hvers virði ætli fimmtíu krónur hafi verið í lok níunda áratugarins?