Iðunn Soffía er barn engu öðru líkt. Í morgun spurði hún mömmu sína, sem brást forviða við, klukkan hvað hún færi til tannlæknis. Því hafði Eyja alveg gleymt en Iðunn var alveg með þetta á hreinu og vildi ekki fyrir nokkra muni verða of sein til tannlæknisins (ólíkt til dæmis stjúpföður hennar sem á hennar aldri hefði þagað einsog dauðinn í von um að tannlæknatíminn gleymdist). Hún á líka sitt eigið dagatal sem hún notar til að strika út dagana sem eru liðnir af árinu og það hjálpar.
Það var ofboðslega gaman hjá okkur Iðunni í gær. Eftir kvöldmat á Stúdentakjallaranum með Eyju, Gelsu, Hildi og Stínu frænku fórum við Iðunn heim með viðkomu í Sunnubúðinni þar sem við fengum kókómalt og popp og horfðum á Simpsonsmyndina. Aldrei hefði mér dottið í hug að horfa á hana með íslensku tali nema af því Iðunn stakk upp á því, og hún reyndist vera ágæt þannig líka. Ekki man ég hvort Davíð Þór þýddi eða hvort hann talsetti líka, en ég þekkti að minnsta kosti ekki röddina ef hún var til staðar. Örn Árnason var ágætur Hómer og bar raunar af leikurunum. Svo lásum við saman fyrir svefninn.
Ég blogga ósköp lítið um fjölskyldumál en ég fyrst ég er byrjaður læt ég það flakka í leiðinni það sem Iðunn sagði við mig síðast þegar ég las fyrir hana: „Þú ert nógu góður til að vera gullið hennar mömmu.“ Henni tókst svo ágætlega að sofna í klessunni sem stjúppabbi hennar hafði bráðnað í yfir allt rúmið. Það er varla hægt að hugsa sér fallegri hlut til að segja við stjúppabba sinn.
Ýmsu snatti tókst mér að sinna í dag. Fór í Lánasjóðinn þar sem alltaf er gaman að grínast með heimabankanotkun mína („Heimabanki, hvað er það?“), í Elkó að kvarta undan vídeótækinu sem ég keypti þar sem ég komst að því að Smáís bannar verslunum að selja tæki sem spila bæði ameríska og evrópska diska, og loks í Góða Hirðinn þar sem ég fann bókahillu ofan á skrifborðið mitt. Þá hef ég samtals fjórar hillur í vinnunni og get ferjað fleiri bækur hingað. Sumir ormar sitja á gulli en vér bókaormar hegðum okkur ögn öðruvísi. Núna hef ég pláss fyrir Flateyjarbók. Ég er því alsæll í bili uns aftur þrengir að.
Ó, hvað þetta er sææææætttt.
Heldur betur. Á þessu heimili búa aðeins hin mestu krútt 🙂