Að lýsa tilfinningu

Sumir dagar renna næsta sjálfkrafa saman við aðra, og það getur gerst jafnvel þótt róttækar breytingar eigi sér stað á milli þeirra. Það virkar einsog þversögn, segjum að ef áfall hendir, að upplifa daginn eftir það alveg einsog daginn á undan, og jafnvel vikurnar á eftir.

En kannski renna dagar saman einmitt helst við mjög afdrifarík tímamót. Þeir verða þá að eins konar úrvinnsluferli sem maður gengst á vald, og þótt það skili manni ef til vill mjög breyttum aftur þá verður maður ekki endilega var við að neitt ferli hafi átt sér stað. Það er einsog hugurinn dragi úr högginu með því að teygja á tímanum nógu lengi fyrir hann að vinna úr upplýsingunum, og þegar hann sleppir takinu hefur langur tími liðið án þess að maður endilega átti sig á því; maður hefur ferðast frá A til B án ferðalagsins á milli. Quantumtilfinningar.

Orð verða eitthvað svo forgengileg þegar maður reynir að lýsa tilfinningum, en kannski skilur einhver hvað ég á við. Mér varð hugsað til þessa gegnum merkilegan miðil sem verður til þegar manneskja manni ókunnug deyr, í þessu tilviki Þorvaldur Þorsteinsson. Ég hlustaði í gær á fyrirlestur sem hann hélt hjá BÍL fyrir aðeins tæpum þrem vikum að ég held, og þar orðar hann svo skemmtilega fræðavæðingu listanna, hann talar um að „fjölga inniskónum“. Og þar sem ég hlustaði af YouTube, á inniskónum við skrifborðið mitt í Háskólanum, rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fyrst öðlaðist þann metnað að verða fræðimaður og starfa við Háskólann (ég hafði raunar einnig þann metnað að verða fremstur íslenskra rithöfunda en samt aldrei akkúrat á sama tíma).

Á einhverjum svona ógeðisdegi einsog í dag, þegar ég var í menntaskóla, sat ég og skrifaði fyrstu málfræðiritgerðina mína, sem mér þykir raunar enn merkilega góð miðað við forsendur. En það sem helst háði mér þá er það sem helst háir mér enn, en það er að mér finnst ég ekki nógu duglegur við lesturinn, og allt í einu myndaðist brú milli gamla mín og nýja mín þegar ég leit út um gluggann í ógeðslegt veðrið og uppgötvaði að ég hafði á einhvern dularfullan hátt einsog ferðast í tíma frá því andartaki og komist þangað sem ég vildi.

En þetta gerðist ekki í gær þegar ég hlustaði á Þorvald, heldur í dag. Í millitíðinni gerðist nokkuð annað sem ætti að gera daginn í dag svo frábrugðinn deginum í gær að það er með ólíkindum að ég upplifi ekki skýr skil á milli þeirra. Dagarnir renna saman, ég sit hérna á inniskónum, alveg jafnmikið óklárað af verkefnum í vinnunni í dag einsog í gær, nokkuð sem ég hef oft upplifað áður en aldrei komið orðum að. Kannski kannast fleiri við þessa tilfinningu. Þótt orðin lýsi henni ekki vel þá sakaði ekki að reyna.