Að stinga ofan í skúffu

Að stinga einhverju ofan í skúffu getur haft mjög neikvæða merkingu. Í dag stakk ég 22 prófritgerðum í námskeiði í miðaldabókmenntum ofan í skúffu. Svo þær lægju ekki á glámbekk. Þar með breyttist merkingin. Ég er þó ekki frá því að það sé jafnvel neikvæðara að stinga einhverju undir stól, hvernig svo sem það er hugsað; a.m.k. sting ég engu undir skrifborðsstólinn minn sem ég vil ekki að ræstinga- eða samstarfsfólk finni samdægurs. En það þarf raunar ekki til þar sem háskólafólk skilur sín viðkvæmustu gögn eftir í prentaranum (en nemendur í Skemmunni; sem raunar stundum eru sömu gögnin).

Á móti er ástæða fyrir því að samtök á borð við Wikileaks sitja ekki um ljósritunarherbergi háskólanna, og hún er sú að háskólafólk skrifar ekki texta sem fólk hefur áhuga á að lesa. Ef hugmynd verður til í einum háskóla er næsta víst að hún dagar þar uppi eða verður kennd við nokkra fleiri háskóla þar sem hún að lokum dagar uppi. Ég var að lesa grein um nýja ævisögu Derrida sem mér finnst undirstrika þessa tilfinningu mína. Í bókmenntafræði í HÍ er kennt sitthvað óljóst um Derrida en hann er sjálfur ekki lesinn (ég fékk meiraðsegja rangt fyrir prófspurningu forðum þegar ég var grunnnemi; hún snerist um að greina texta með aðferð Derrida en ég vitnaði í Derrida sjálfan og sagði „afbygging er ekki aðferð“, en nú er svosem þekkt að derrídaistar eru ekkert nauðsynlega sammála Derrida um eitt eða neitt). Derrida hefur haft mikil áhrif innan hugvísinda en hann er þó á engan hátt nauðsynlegur. Það er semsé ekki þannig að ekki sé lengur hægt að fjalla um t.d. bókmenntir án þess að taka tillit til Derrida, nema þá að tillit sé líka fólgið í að hunsa. Og hver hefur svosem áhuga á Derrida nema háskólafólk? Enginn. Samt er hann meðal áhrifamestu kenningasmiða (kenningar sem hann sjálfur segir að sé ekki kenning) hugvísinda á 20. öld. Þannig að nemendur þurfa ekki að hafa áhyggjur af því þótt einhver gleymi ritgerðinni þeirra í prentaranum. Það mun enginn lesa hana.

Í háskólunum er heldur enginn að leita að séníi, enda er enginn hörgull á þeim ef miða á við álit þeirra sjálfra; þvert á móti reyna flestir bara að þrauka daginn, gæta þess að kaffibletturinn í handarkrikanum verði ekki of stór áður en haldið er í kennslustofuna að kenna 50 ára gamla hugmynd um eitthvert atriði sem ekki skiptir neinu tilteknu máli í stærra samhengi hlutanna, einsog hvort köflótti jakkinn fáist úr hreinsun í dag eða hvort töf verði á því einsog vanalega. Og stafli af ritgerðum er það síðasta sem háskólafólk sækist í að skoða; það eitt að hafa slíkan stafla á borðinu sínu hefur álíka áhrif og gaddavírsgirðing og vélbyssuhreiður myndu gera, og einn þekktan heimspekiprófessor sá ég í dag snúast við á hæli í svitakasti þegar hann eygði staflann á mínu borði. En jafnvel þótt háskólafólk væri í eðli sínu hnýsnara um ritgerðir en raunin er þá þyrftu mínir nemendur ekki að örvænta, því ég sting ritgerðum ofan í skúffu, en ekki undir stól.