Ég átti leið framhjá Sögu, leit í leiðinni ofan í grunn íslenskra fræða sem ég hlakka til að sjá verða að húsi. Af mynd arkitektsins að dæma, sem raunar gæti verið af sumarbústað frá því fyrir fáeinum árum, á að hafa feikistórt síki umhverfis húsið. Það verður mikil vatnaparadís þarna á melunum, með vindubrúrkastalann utan um menningararfinn og fræðibönker utan um þjóðmenninguna þar við hliðina. Það er líka komið dálítið stöðuvatn við Þjóðminjasafnið og svo við Erfðagreininguna og Hörpu, einhver tíska.
Ég skil að vísu ekki alveg af hverju Landspítalinn endurspeglast í húsinu eða hvers vegna það virðist standa eitt sér. Kannski felur myndin í sér fyrirheit um að þótt Reykjavík farist muni Hús íslenskra fræða standa af sér allan mótbyr; íslenska þjóðin, eða í öllu falli íslenskufræðingar, víki aldrei. Þeir muni sitja úti á palli í vatni að drekka bjór sama hvað um aðra verður.
Annað sem sennilega hefur farið fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum er að húsið verður alltaf hluti af íslenskri knattspyrnusögu. Enn eru til þeir sem eru haldnir slíkri nostalgíu að þeir vildu fá aftur Melavöllinn gamla svo veðurbarið fólk geti spilað þar fótbolta í óviðjafnanlegu roki. Nú þegar það er of seint að endurheimta melana geta þeir þó huggað sig við að Hús íslenskra fræða verður ekki einasta á sama reit heldur verður það líka sporöskjulega einsog Melavöllur. Það er sannarlega ein leið til að „viðhalda götumyndinni“, altént úr lofti séð.