Þegar ég fór í sjónvarpið

Sum augnablik gleymast aldrei. Allir kannast við að heyra sjálfa sig á segulbandi í fyrsta skipti, en öllu verra getur verið að sjá sjálfan sig í sjónvarpi.

Ég var í sjöunda bekk þegar sá afleiti sjónvarpsþáttur Pílan hóf stutta göngu sína (í minningunni var það bara þessi eini þáttur). Þetta var spurningakeppni milli grunnskóla og okkar bekkur átti að keppa í allra fyrsta þættinum. Fyrir okkar bekk kepptu Reynir, Björk og Siggi Hólm. Ég var fúll að hafa ekki verið valinn, en það reyndist mér heilladrjúgt miðað við það sem síðan gerðist.

Í þennan plebbalega þátt bárust uppdiktuð bréf frá börnum í vandræðum (svipað og lesendabréf „einnar í klandri“ til Æskunnar), og áhorfendur gátu gefið ráð. Þáttarstjórnandinn las fyrir okkur bréf frá stúlku sem þorði ekki að nota hjólabrettið sitt af ótta við stríðni. Auðvitað vildu allir sjást í sjónvarpi. Líka ég. Svo ég var einn þeirra sem rétti upp hönd til að peppa upp hjólabrettastelpuna. Ég man að ég labbaði heim úr Sjónvarpshúsinu við Laugaveginn bara nokkuð ánægður með kvöldið.

Þegar þættinum var sjónvarpað viku síðar fékk ég áfall. Ég er með nokkuð áberandi framstæðan kjálka og var örlítið viðkvæmur fyrir því á þessum tíma. Ég var líka með gríðarlegan varaþurrk og var með hvítan varasalva einsog fjallamenn nota. Og ég hafði hrikalegan talgalla. Í ofanálag hafði ég ekkert að segja í hljóðnemann. Svo þarna sat ég og fyllti út í sjónvarpsskjái velflestra landsmanna og leit út og hljómaði einsog fífl.

Það þýddi ekkert að reyna að ljúga því að mér að svarið mitt hefði verið best, eða að ég hefði litið vel út á skjánum. Það er hrein og klár staðreynd að ég virtist hvorki búa yfir hálfri hugsun né virtist ég vera almennilega fær um að tala, með asnalega rödd og var auk þess einsog trúður í framan. Ég varð sjálfum mér reiður fyrir að hafa ekki áttað mig á því að ég hefði ekki átt neitt erindi í þetta.

Mér var aldrei strítt á þessu. En ég varð staðráðinn í því að sama hversu fíflalega ég kynni að líta út eða koma fyrir (þrátt fyrir að vera nær aldrei strítt var ég töluvert viss um að öllum þætti ég vera asnalegur fæðingarhálfviti) þá skyldi ég laga það sem ég þó gæti haft stjórn á. Og þegar voraði hafði ég losað mig við talgallann.

Ég er enn að kljást við hann. Fólk segist ekki taka eftir neinu þegar ég tala, en ég tek eftir því. Ég kími þegar ég heyri útvarpsviðtöl við sjálfan mig. Þar heyri ég í tólf ára mér gegnum yfirvarpið. Mér líður ennþá einsog ég sé bara að feika þetta, að allir hljóti að sjá mig einsog ég sá sjálfan mig í sjónvarpinu. Það er stundum auðvelt að gleyma því að geti maður tólf ára umvent talfærum sínum á þrjóskunni einni, þá getur maður ýmislegt.

Ég er því á vissan hátt þakklátur þessu hörmungarprógrammi Pílunni fyrir þessa óbærilegu spegilmynd af mér og þætti bara gaman ef einhver græfi þetta upp núna og setti á YouTube, en á sama tíma velti ég fyrir mér hvaðan eiginlega þessi lélega sjálfsmynd mín var sprottin.

One thought on “Þegar ég fór í sjónvarpið”

  1. Ég er ansi hrædd um að margir geti speglað sig í þessari reynslusögu. Sjónvarp/útvarp eða ekki. Við erum svo brothætt….Erum það alla æfi en langmest á þessum aldri og svo lifir þessi fjárand neisti í manni lengi, lengi, lengi, lengi.
    Hendum þessari vitleysu samt. Við vitum nefnilega betur. Við höfum alltaf verið flott <3

Skildu eftir svar við Anna María Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *