Sjá áður í syrpunni:
I. Backdraft er ennþá málið
II. Lilli klifurmús er sjálfselskur kúkalabbi.
Aftur svindla ég á reglunum þar sem aldrei hefur verið hægt að halda því fram að She’s All That sé meistaraverk þótt mér hafi þótt hún áhorfanleg þegar ég var á fyrsta ári í menntó, auk þess að menntaskólaárin teljast varla til æskuáranna. Þessi mynd fær að fljóta hérna með því ég fékk þá hugmynd á dögunum að kíkja á hana aftur, í fyrsta sinn síðan ég var sextán ára.
Hún hefur ekki elst vel. Raunar hefur aldur ekkert með það að gera; svona myndir eru aldrei í lagi.
She’s All That (1999) fjallar um átján ára hönkið Zack (Freddie Prinze Jr.) sem er eins nálægt því að vera guð og hægt er í skólanum sínum. Alla ævi hefur hann verið algjörlega vammlaus og heyrt til einhverjum æðri klassa af manneskju en skólafélagarnir, þar til daginn eftir vorfrí á lokaárinu í gaggmenntó (high school) að kærastan hans Taylor (Jodi Lyn O’Keefe) — sem er flottasta stelpan í skólanum, sem gert er skýrt í myndinni að er hlutverk en ekki hlutlægur veruleiki, þannig að hún er þrátt fyrir allt skörinni lægra sett en hann sem er fæddur fullkominn — segir honum upp fyrir framan allan skólann, svo að segja, því hún hefur tekið saman við Matthew Lillard af öllum mönnum.
Það að Zack og Taylor eru ekki jafningjar kemur þegar fram í því að hlutverk sætustu stelpunnar er að vera viðhengi sætasta stráksins. Þegar Taylor hefur dömpað Zack gerir hann veðmál við ungan Paul Walker (sem verður að segjast að átti eftir að verða myndarlegri með árunum) um að hann geti gert hvaða stelpu sem er að heimkvámudrottningu sinni á lokaballinu (því vitað er að hann verður kóngurinn, það er enginn annar eins og hann í skólanum). Og þetta tekst! Svona framan af að minnsta kosti. Taylor tapar öllum vinsældum sínum af því hún er ekki lengur viðloðandi Zack, hybris hennar er að telja sig standa honum jafnfætis á grundvelli fegurðar sinnar og vinsælda og því lætur hún hvarvetna eins og hún eigi staðinn, en tapar fyrir vikið vinsældum sínum og vinum. Hún verður drottning í lokin en svo er komið fyrir henni þá að þegar hún heldur bitra heimkvámuræðuna er slökkt á míkrófóninum svo enginn þurfi að hlusta á hana.
Stúlkan sem Zack á að umbreyta úr lúða í læðu er listabrautartýpan Laney (Rachael Leigh Cook), sem vill í fyrstu ekkert með hann hafa og sýnir honum fram á með vandlætingu sinni á honum að enn geti hann bætt um betur. Þó er það að mestu leyti hann sem mótar hana og gott betur en það, í mynd fyrrverandi kærustunnar (þetta sést á því þegar þær hittast í fyrsta skipti og hann hefur keypt á hana sams konar kjól og sú fyrrverandi er í), og öll þeirra samskipti fara fram meira eða minna á hans forsendum. Stundum með valdi (ekki líkamlegu, þó).
Ekki bætir úr skák að allir krakkarnir í myndinni eru ógeðslegt Kaliforníuyfirstéttarpakk. Þau eiga sér engin vandamál, sjást aldrei læra heima, hanga á ströndinni, halda partí í einbýlishúsum með innréttuðum neonljósum á fjórum hæðum, aka um á rándýrum bílum. Það er einmitt svona fólk sem elst upp í því að niðurlægja og ráðskast með fólk af sér lægri stigum, eins og Zack sést ítrekað gera í myndinni. Það eina sem hann þarf að hafa áhyggjur af er hvort stúlkan vilji samt elska hann þótt hann hafi gert hana að tilraunadýri í ógeðslegu veðmáli og það hvaða ivy league háskóla hann eigi að velja (Yale, Dartmouth, Harvard …) því þeir hafa allir tekið við honum áður en lokaprófin eru einu sinni hafin, af því efristéttarfólk þarf ekki að fá einkunnir.
Öll myndin gerir út á þessa sérstöðu Zacks. Aldrei verður hann fyrir neinum neikvæðum afleiðingum af hátterni sínu, nema því þegar Laney verður skúffuð út í hann í svona kortér fyrir að hafa veðjað útliti hennar og stéttarstöðu að henni forspurðri. Eina önnur konfrontasjónin er þegar pabbi hans segir honum að það sé misskilningur að hann ætli að stjórna því í hvaða háskóla hann fari (með öðrum orðum: „Þú ræður mér ekki pabbi!“ — „Uh, ég er ekkert að reyna að ráða þér.“ — „Ó, úps, sorrí!“), og þegar Paul Walker ákveður að reyna sjálfur við Laney, með þeim afleiðingum raunar að hún hrekst aftur í fangið á þeim sem minna úrþvættið er.
Það er ekkert gott við þessa mynd. Hún reynir að vera gagnrýnin á firringu en endar á því að upphefja dramb, ofneyslu, stéttskiptingu, andlegt ofbeldi og þá einkum og sér í lagi manipúlasjón og andlegt niðurbrot.
Í lok myndarinnar fara Laney og Zack í sleik eins og ekkert hafi í skorist (en þá er Paul Walker nýbúinn að reyna að nauðga henni í afviknu hótelherbergi) og Zack lýsir því yfir að kannski ætli hann bara að slaufa háskóla og gerast gjörningalistamaður (sbr. hin eftirminnilega hakkísekkssena, sem reynist vera grútléleg þegar maður sér myndina aftur). Þetta getur hann því skólinn er núna eiginlega búinn og að honum loknum er enginn eftir til að tilbiðja hann. Hann, sem er algjörlega hæfileikalaus á sviði lista, getur samt sem áður stigið niður á plan konunnar sem hefur ekki lagt stund á myndlist nema lungann úr stuttri ævi sinni. Nú eru þau jöfn, reynir myndin að segja okkur. Nei. Það eru þau ekki. Við vitum nefnilega að í raun ætti myndin að heita He’s All That.