Maðurinn sem ég forðast

Það er náungi sem vinnur í Háskólanum, í sömu byggingu og ég, sem ég forðast eins og ég get. Þegar ég byrjaði að vinna í Gimli mætti ég honum dag einn á ganginum og við heilsuðumst. Við könnuðumst hvor við annan síðan í MR forðum daga. En ég mundi engan veginn hvað hann heitir, var ekki viss hvort ég hefði nokkru sinni vitað það; né gat ég rifjað upp fyrir sjálfum mér hvernig við höfðum verið kynntir eða í gegnum hvern.

Ljóst var að við hefðum aldrei verið vinir, en nú í haust eru liðin fimmtán ár síðan við urðum hæ-félagar, það er að segja: menn sem heilsast á förnum vegi en segja aldrei neitt meira. Það er ekki alltaf slæmt að eiga sér hæ-félaga þótt það sé auðvitað ekkert fyrirmyndarform af kunningsskap. Maður verður líka að gæta sín að brjóta ekki reglurnar með því að brydda upp á einhverju umræðuefni. Þess vegna forðast ég hann.

Það rann nefnilega fljótlega upp fyrir mér eftir að ég hóf störf að það voru mistök að endurnýja hæ-félagsskap okkar á þessum nýja vettvangi. Hann hefði átt að leysast upp smátt og smátt eftir því sem menntaskólaárin hurfu í mistur fortíðarinnar, en þess í stað heilsuðumst við. Við fundum það ekki strax, en uppvakinn félagsskapur okkar átti eftir að umturnast í ófreskju, óskapnað, eins og aðrar siðlausar mannlegar tilraunir sem best hefðu áfram verið óreyndar.

Við fundumst dag hvern á göngunum, oftar en þrisvar og oftar en fimm sinnum suma daga, og stirðnuð bros okkar urðu innspýting beiskju í sálir okkar. Suma daga þóttumst við ekki sjá hvor annan, jafnvel þótt við vissum báðir að augu okkar höfðu mæst á ganginum litum við hvor í hina áttina eins og gripnir skyndilegri andakt. Mörg urðu slík Evrekumóment á göngum Háskólans. „Þarna er helvítis fíflið. Evreka!“ og litið upp í loftið. Eitt sinn gekk hann óvart inn í lesstofu grunnnema til að forðast mig. Ég hló nöturlega að mistökum hans.

Nú þegar kveðjuhót okkar eru dauð getum við umfram allt ekki talast við. Ég bölvaði honum í sand og ösku þegar hann tók lyftuna í dag, upp á næstu hæð! Ég þurfti lengra upp en hann, en sakir þess að hann náði lyftunni fyrst gat ég ómögulega hætt á þær félagslegu hamfarir sem það hefði haft í för með sér að verða honum samferða. Hvernig tekur maður lyftu með manni sem ekki má ná augnsambandi við? Ég klöngraðist upp stigann, og aðeins fullvissan um að dag einn næði ég lyftunni á undan honum fékk sefað beiskjuna í hjarta mér. Dag einn!

Með tímanum höfum við tekið að njóta þess svo mjög að viðurkenna ekki tilvist hvors annars að við óskum þess næstum því að við gætum spjallað um það í lyftunni. Næstum því.

Líf doktorsnemans og það sem helst er að Íslandi

Mér gengur ekkert að skrifa hér. Síðustu fimm færslur eða svo hafa allar endað í sorpinu því þær voru ýmist of fræðilegar, og þá getur maður eins skrifað fræðigrein, eða of illa skrifaðar, leiðinlegar eða á annan hátt óáhugaverðar.

Nú fer fram rektorskjör við HÍ. Það fær mig til að hugsa um líf doktorsnemans og hvernig það er, gagnvart því hvernig fólk hugsar sér að það sé. Ég hef reyndar verið svo lengi í þessu að ég man ekki hvernig seinni flokkurinn er. En reyndin er þannig að HÍ fær greitt fyrir hvern útskrifaðan doktor en sá hefur sjálfur þurft að afla sér tekna meðan á náminu stendur, ýmist með umsóknum í samkeppnissjóði eða með námslánum (ég hef gert hvort tveggja). Það er því mikill hvati fyrir háskólann að útskrifa sem flesta doktora.

Svo vita allir að háskólinn getur ekkert ráðið alla þessa doktora og það er ekki eins og atvinnulífið hafi neinn áhuga á þeim heldur, ef marka má SA og aðra talsmenn þess. Þeim finnst menntakerfið ekki koma til móts við þarfir atvinnulífsins; af því fyrir þeim skiptir engu máli hvaða hæfileika og menntun fólk hefur í raun og veru, heldur þarf að umbylta menntakerfinu á fimm ára fresti með hliðsjón af stundarhagsmunum hinna ríku.

Á Íslandi er líka löglegt, einhverra hluta vegna, að ráða ekki menntað fólk vegna þess að það sé „of hæft“. Raunveruleiki doktorsnemans er því sá að:

  1. Hann eyðir fjórum til tíu (stundum fleiri) árum í rannsóknir sem gagnast fræðasamfélaginu og almenningi
  2. Með ærnum tilkostnaði fyrir sjálfan sig
  3. Til að öðlast gráðu sem útilokar hann frá hér um bil öllum atvinnumöguleikum
  4. Nema í háskólum, sem geta reyndar ekki ráðið hann vegna fjárhagsörðugleika og plássleysis
  5. (Og svo eru á bilinu fimm til tvöhundruð manns sem sækja um hverja eina stöðu eftir því hvar í heiminum er borið niður)

Því er aftur á móti ekki að neita að þetta er gefandi starf, þó að andlegt álag geti raunar verið svo mikið að það er alþekkt um allan heim að nemendur brotna undan álaginu. Sjálfur get ég þó ekki kvartað.

Svo eru reyndar séríslensku aðstæðurnar ekki til að bæta geðheilsuna alltaf. Nú lætur trúðurinn í Stjórnarráðinu eins og hann geti bara afnumið gjaldeyrishöft í vikunni á meðan fjármálaráðherra situr á Flórída og spyr hví íslenskir launþegar geti ekki bara étið kökur, hvað þeir þurfi alltaf að vera að sífra þetta um að launin þeirra allavega haldi í við verðbólguna sem þeim kumpánum finnst svo gaman að fóðra með peningafórnum úr ríkissjóði.

Þessu lofar forsætisráðherra: að krónunni verði fleytt fyrir þinglok. Ég reikna með að flestir séu paníkerandi yfir því núna hvert í fokkanum þeir geti flúið áður en trúðurinn hleypir loftinu úr blöðrunni. Það verður kannski auðveldara að yfirgefa landið en ella nú þegar snjó hefur varla leyst nema í fimm mínútur í senn síðan í byrjun nóvember, og varla við öðru að búast en að veðurfar fari ekki bara versnandi héðan af ef satt er sem sagt er að golfstraumurinn sé á undanhaldi.

Ísland er ekki sérstaklega byggilegt land og hefur farið versnandi, bæði veðurfarslega og pólitískt séð. Stjórnvöld ráðast á grunnstoðir lýðveldisins: á lýðræðið, á lýðréttindi, á heilbrigðiskerfið, á menntakerfið, og allri gagnrýni á þetta niðurrif alls þess sem heilagt er hefur verið svarað þannig að nú svíði „vinstrisinnuðu menntaelítunni“ sárast þar sem skorið er og rétti höggstaðurinn fundinn. En þetta snýst ekkert um vinstrimennsku eða pólitík, heldur um að búa í manneskjulegu samfélagi. Einu sinni dugði orðið samfélag til að lýsa þeim gildum sem allir gátu sameinast um, en nú dugar það ekki lengur. Nú þarf að taka sérstaklega fram að samfélög séu fyrir fólk. Stjórnvöld hafna enda öllum samvirkni- og samfélagshugsjónum af því þau skilja þetta ekki. Fyrir þeim er menntun og spítalar og lýðræði bara eitthvert punt undir rassinn á kommúnistum og kennurum, svona fólki sem aldrei hefur átt gasgrill eða búið í Garðabæ.

Það er ekkert alltaf gaman að búa við þennan yfirgengilega valdhroka, þessa botnlausu heimsku sem kjörnir fulltrúar hafa tekið í misgripum fyrir hugsjón og lýðræði og flengja hver annan með og stæra sig af á flokksþingum og í fjölmiðlum. Ísland hefur aldrei staðið betur en einmitt nú, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Það var og.

Það var nú svo sem aldrei margt annað í stöðunni fyrir mig en að leita mér að vinnu erlendis eftir doktorsprófið, nema til komi óvænt staða eða nýdoktorsstyrkur fáist hér heima. Verst ef Kögunarbarnið og Vafningsfíflið verða búnir að sökkva landinu í millitíðinni. En maður getur þá kannski sent peninga heim til fjölskyldunnar eins og fólk gerði hér í eina tíð. Ef maður fær þá vinnu nokkurs staðar. En það eru áhyggjur síðari tíma. Ég hef tvö ár enn fram að því. Ef að verðbólgan étur ekki styrkinn minn.