Maðurinn sem ég forðast

Það er náungi sem vinnur í Háskólanum, í sömu byggingu og ég, sem ég forðast eins og ég get. Þegar ég byrjaði að vinna í Gimli mætti ég honum dag einn á ganginum og við heilsuðumst. Við könnuðumst hvor við annan síðan í MR forðum daga. En ég mundi engan veginn hvað hann heitir, var ekki viss hvort ég hefði nokkru sinni vitað það; né gat ég rifjað upp fyrir sjálfum mér hvernig við höfðum verið kynntir eða í gegnum hvern.

Ljóst var að við hefðum aldrei verið vinir, en nú í haust eru liðin fimmtán ár síðan við urðum hæ-félagar, það er að segja: menn sem heilsast á förnum vegi en segja aldrei neitt meira. Það er ekki alltaf slæmt að eiga sér hæ-félaga þótt það sé auðvitað ekkert fyrirmyndarform af kunningsskap. Maður verður líka að gæta sín að brjóta ekki reglurnar með því að brydda upp á einhverju umræðuefni. Þess vegna forðast ég hann.

Það rann nefnilega fljótlega upp fyrir mér eftir að ég hóf störf að það voru mistök að endurnýja hæ-félagsskap okkar á þessum nýja vettvangi. Hann hefði átt að leysast upp smátt og smátt eftir því sem menntaskólaárin hurfu í mistur fortíðarinnar, en þess í stað heilsuðumst við. Við fundum það ekki strax, en uppvakinn félagsskapur okkar átti eftir að umturnast í ófreskju, óskapnað, eins og aðrar siðlausar mannlegar tilraunir sem best hefðu áfram verið óreyndar.

Við fundumst dag hvern á göngunum, oftar en þrisvar og oftar en fimm sinnum suma daga, og stirðnuð bros okkar urðu innspýting beiskju í sálir okkar. Suma daga þóttumst við ekki sjá hvor annan, jafnvel þótt við vissum báðir að augu okkar höfðu mæst á ganginum litum við hvor í hina áttina eins og gripnir skyndilegri andakt. Mörg urðu slík Evrekumóment á göngum Háskólans. „Þarna er helvítis fíflið. Evreka!“ og litið upp í loftið. Eitt sinn gekk hann óvart inn í lesstofu grunnnema til að forðast mig. Ég hló nöturlega að mistökum hans.

Nú þegar kveðjuhót okkar eru dauð getum við umfram allt ekki talast við. Ég bölvaði honum í sand og ösku þegar hann tók lyftuna í dag, upp á næstu hæð! Ég þurfti lengra upp en hann, en sakir þess að hann náði lyftunni fyrst gat ég ómögulega hætt á þær félagslegu hamfarir sem það hefði haft í för með sér að verða honum samferða. Hvernig tekur maður lyftu með manni sem ekki má ná augnsambandi við? Ég klöngraðist upp stigann, og aðeins fullvissan um að dag einn næði ég lyftunni á undan honum fékk sefað beiskjuna í hjarta mér. Dag einn!

Með tímanum höfum við tekið að njóta þess svo mjög að viðurkenna ekki tilvist hvors annars að við óskum þess næstum því að við gætum spjallað um það í lyftunni. Næstum því.

2 thoughts on “Maðurinn sem ég forðast”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *