Galdrafár og djöfulótti

Nýja England er draumasvæði fyrir áhugafólk um hið yfirskilvitlega. Hér eru heimaslóðir Edgars Allans Poe í Boston. Og Providence, þar sem Lovecraft óf sínar sögur, er þriðja stærsta borgin í Nýja Englandi. Það er kannski ekki að undra þótt þessir tveir rithöfundar, sem sitthvað áttu sameiginlegt, skuli koma fram á þessu svæði sem numið var af púritönum á fyrsta fjórðungi sautjándu aldar.

Undir lok sömu aldar átti sér stað eitt hræðilegasta tilfelli af múgsefjun sem um getur í sögunni milli febrúar 1692 og maí 1693, nornafárið í Salem sem náði til Salem Village (Danvers), Salem Town (Salem og Beverly), Ipswich og Andover. Tuttugu voru teknir af lífi, þar af fjórtán konur, allir hengdir utan einn sem kraminn var til dauða.

Ég hef þegar keypt þrjár bækur um málið og á áreiðanlega eftir að kaupa fleiri. Ein þeirra er ritgerð samtímamannsins, séra Johns Hale, sem ber hinn skorinorða titil A modest enquiry into the nature of witchcraft, and how persons guilty of that crime may be convicted: and the means used for their discovery discussed, both negatively and affimatively, according to Scripture and experience. Hale sér eftir þátttöku sinni í réttarhöldum yfir nornum og rökstyður í gegnum alla bókina að í raun hafi nornirnar ekki gert neitt með vilja, heldur hafi djöfullinn stýrt gerðum þeirra.

 

Myndverk sem sýnir sögu Ipswich, MA. Aðrir hlutar af verkinu sjást ekki á myndinni.
Myndverk sem sýnir sögu Ipswich, MA. Aðrir hlutar af verkinu sjást ekki á myndinni.

 

Það er mikið mál að vinda ofan af allri þessari sögu fyrir mig og það þótt ég búi í Ipswich. Ég á áreiðanlega eftir að fara ítarlega ofan í saumana á þessu við tækifæri og birta eitthvað þar að lútandi. Það vakti þó athygli mína nýskeð að ég rambaði á veggmynd við ána ofan í bænum. Hún sýnir sögu bæjarins í blíðu og stríðu, sem er heilmikil, en mér fannst undarlegt að djöfullinn væri sýndur í turnspíru First Church in Ipswich. Það hlaut að búa þjóðsaga þar að baki og ég var fljótur að finna hana.

 

Djöfullinn í turnspíru First Church in Ipswich
Djöfullinn í turnspíru First Church in Ipswich

 

Sagan segir að enski presturinn George Whitefield hafi árið 1740 verið á túr um Nýja England (þú last það rétt, hann var eins og Justin Bieber með prestskraga) og kom við í Ipswich. Þar hélt hann þvílíka stólræðu að djöfullinn sjálfur – sem sagan segir að hafi á sunnudögum falið sig bak við spegil sem stóð að stólbaki – hafi hrökklast úr fylgsni sínu og átt í handalögmálum við prestinn, allt þar til hann flýði upp í turnspíruna hvaðan prestur loks hrinti kölska sem lenti á öðrum fæti á berginu neðan við kirkjuna. Síðan þá hefur skrattinn víst ekki látið sjá sig í bænum en spor hans er enn í berginu, og það fór ég að skoða áðan.

14331547_10154572378761584_521064599_n
Fótspor djöfulsins í Ipswich, MA.

 

Við fótspor djöfulsins að chilla á góðri stundu.
Við fótspor djöfulsins að chilla á góðri stundu.

 

Því miður hefur kirkjan ekki lifað af aldirnar; sú kirkja sem nú stendur á berginu er sú fimmta í röðinni (sú síðasta brann árið 1965 þegar elding laust hana), og turn hennar er ekki þannig staðsettur nú að hægt væri að stökkva úr honum og lenda í spori skrattans. En það vantar að minnsta kosti ekki spennandi hluti til að skoða hérna.

First Church in Ipswich. Spor djöfulsins er í berginu í forgrunni myndarinnar.
First Church in Ipswich. Spor djöfulsins er í berginu í forgrunni myndarinnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *