Halinn og innrætið: Jöðrun og afmennskun í Tralla og Láka jarðálfi

Tralli er geysilega merkileg bók, einkum merkileg fyrir þær sakir að höfundi hennar Viktor Mall fannst hún eiga erindi við börn. Það fannst Vilbergi Júlíussyni þýðanda bókarinnar greinilega líka, en hann gerði sitt besta til að milda efnivið bókarinnar sem er heldur lítt dulbúinn rasismi. Þannig hefur Vilbergur til dæmis ákveðið að Tralli sé jarðálfur (hvað sem það er), en bókin heitir á frummálinu Historien om eskimotrolden Figge sem afhjúpar hvað Tralli á í rauninni að vera: einhvers konar skáeygt eskimóaskrímsl með hala sem býr á svo framandi slóðum að sólin sest aldrei. Það er erfitt að halda áfram bara eftir þessa setningu en við verðum að láta okkur hafa það; þetta er jú bók sem geymd er í barnadeildum allra bókasafna og við viljum vita hverju við otum að börnunum okkar.

Tralli býr semsagt þar sem sólin aldrei sest og þarf því aldrei að fara í rúmið. Þess í stað stendur hann aleinn á pínulitlum ísjaka og gerir ekki neitt að því er virðist, allan daginn. Hvað er enda hægt að gera á ísjaka sem er varla sex sinnum stærri en maður sjálfur? Þessi ísjaki á að heita land eskimóanna, en það eru engir aðrir eskimóar (eða „eskimóatröll“) á þessum ísjaka og ekkert minnst á neina aðra eskimóa. Tralla leiðist sýnilega enda sofnar hann dag einn og verður þess ekki var að ísjakinn er flotinn suður á bóginn og farinn að bráðna. Að lokum bráðnar ísjakinn alveg undan honum og Tralli sekkur í hafið, og samt vaknar hann ekki. Hér er hann í hlutverki velþekktrar erkitýpu sakleysingjans sem óafvitandi flækist inn í alls konar ævintýr og hefur síðast verið gerð ódauðleg í persónunni Forrest Gump. Þannig gleypir hvalur Tralla en hann verður einskis var og sefur bara og hrýtur í maga hvalsins. Hvalurinn þolir ekki þessar hrotur og skyrpir Tralla upp á ónefnda Suðurhafseyju.

23262191_10155922024651584_1954124131_o

Og hverja skyldi Tralli vekja með hrotum sínum nema einmitt „negrana á eyjunni“. Sjón er sögu ríkari:

19250067_10155922024661584_105519977_o

23360817_10155922023481584_1427169109_n

Hvað er hægt að segja um þetta? Sjáið varirnar á „negraprinsessunni“, sjáið hárið á henni, sjáið að hún er klædd í einhverja stráskýlu og með leireyrnalokka. Það vantar bara bein í nefið á henni (enda þótt allajafna þyki jákvætt „að hafa bein í nefinu“ þá gildir það svo sannarlega ekki um einhverja ósiðmenntaða svertingja). Nei, fjandakornið, hvað gerir negrapsinessan næst? Hún tosar í rófuna á Tralla af því henni finnst hún svo framandi. Og þá loksins vaknar eskimóatröllið Tralli, þegar negrarnir toga í rófuna á honum. Mér finnst mjög erfitt að skrifa allar þessar setningar, ég sver það.

Hér tekur sagan á sig sígilda ævintýraformgerð þrítekningar, en hennar þekktasti fulltrúi er án efa sagan af Gullbrá og björnunum þrem og þeirra mismátulegu eigum (ég mun fjalla um þá sögu síðar). Fyrst togar negraprinsessan í skottið á Tralla og vekur hann, næst togar negradrottningin í skottið á Tralla, sem honum líkar alls ekki, og loks togar negrakóngurinn í skottið á Tralla og þá verður hann vondur.

23313061_10155922024646584_1348310249_o

Svo hrædd verða þau hjón að kóngurinn stekkur bakvið hól flassandi berum bossanum undir náttserk sínum og drottningin æðir burt með sólhlífina á lofti undan ómennskum ópum eskimóatröllsins: Íja–úa–tra. Hvaða eiginlega Mordormállýska þetta á að vera er óljóst. En ljóst er af frásögninni að eskimóatröllið er framandi vera jafnvel hinu mest framandi fólki (og höfum hér í huga að höfundur bókarinnar er danskur, það hjálpar heilmikið). En nú bregður svo við að negraprinsessan er ekkert hrædd við óskiljanleg gól Tralla, en hún er agalega forvitin um halann á honum.

23335785_10155922024551584_1589668974_o

Jahérna, hvað höfum við hér? Tralli hefur gert hana að halanegra. Og hvað er nú það, nákvæmlega? Við þekkjum það sem niðrandi orð yfir svart fólk, en í Norður-Evrópu á 19. öld þá var talið að til væri tiltekin manngerð sem væri halanegri, þ.e. bókstaflega svart fólk með hala. Ein heimild um slíkar hugmyndir er alfræðirit Jóns Bjarnasonar Ritgjörð tilheyrandi spendýrafræði (ÍBR 67-73 4to, hér 69 4to) frá miðri 19. öld sem byggð var á evrópskum alfræðiritum og hefur að hluta verið gefin út af Árna H. Kristjánssyni.

Halanegri, meðal annarra manngerða
Halanegri, meðal annarra manngerða

Síðan dansa eskimóatröllið og halanegrinn samba (nema hvað?) og lifa hamingjusöm til æviloka. Tralli er með öðrum orðum bók sem fjallar um tröll sem mætir negra og þau reynast á sama kúltúrplani, afmynduð með sinn hala, dansandi sína frumstæðu dansa. Sennilega hefur bókinni verið ætlað að fagna fjölbreytileikanum en í rauninni gerir hún fátt nema afhjúpa rasískar hugmyndir höfundarins um fólk sem er ekki H.C. Andersen hvítt.

Ef einhverjar efasemdir vakna í brjósti lesandans um að halar séu einlæglega svona demóníserandi (fyrir utan kynþáttabundna karíkatúrinn sem annars birtist í myndskreytingum Tralla) má benda á bókina um Láka jarðálf til samanburðar. Að vísu er hún eftir annan höfund en myndlýsandinn er álíka lélegur og haldinn álíka fordómum. Bók þessi fjallar um Láka, sem er jarðálfur, og hann býr ofan í jörðinni þar sem jarðálfar búa.

No shit.
No shit.

Foreldrar Láka heita Snjáki og Snjáka og þau voru fædd fyrir tíma Mannanafna-
og Barnaverndarnefnda. „Á hverjum degi, þegar Snjáki og Snjáka vöknuðu, sögðu þau: „Við ætlum bara að gera það, sem er ljótt!“ Svo kysstu þau Láka litla og sögðu: „Þú átt bara að gera það, sem er ljótt. Þá verður þú reglulega stór og ljótur jarðálfur, alveg eins og pabbi þinn.““ Foreldrar Láka eru semsagt frekar brengluð eintök og andfeminísk í ofanálag.

Samt nógu síviliseruð til að halda kaktus, þótt það segi kannski ekki mikið. Ekki nógu klár til að fatta að það gagnast ekki að hafa glugga fyrir hann ofan í jörðinni þar sem sólin skín ekki.
Samt nógu síviliseruð til að halda kaktus, þótt það segi kannski ekki mikið. Ekki nógu klár til að fatta að það gagnast ekki að hafa glugga fyrir hann ofan í jörðinni þar sem sólin skín ekki.

Láki ákveður dag einn að hann vill iðka sín illvirki ofanjarðar frekar en neðanjarðar, og fljótlega finnur hann heimili Elsu og Ívars sem eru í mömmuleik (og miðað við að bókin er gefin út árið 1956 hlýtur það að vera verulegur áfellisdómur yfir persónu Ívars). Láki felur dúkkurnar þeirra svo Elsa og Ívar fara að gráta. „En Láki faldi sig á bak við tré. Hann sló á magann og sagði: „En hvað það er gaman að gera öðrum illt!““ Þetta skottlanga skrímsl heldur áfram illkvittni sinni, hellir rødgrød med fløde yfir hvítan kött og fer þannig bæði illa með feldinn og eyðileggur hádegismat fjölskyldunnar í senn. Svo setur hann púður í tóbak föðurins svo pípan hans springur og sprautar vatni yfir póstburðarmanninn.

Og kúkar sennilega í skorsteininn, þótt það sé ekki tekið fram
Og kúkar sennilega í skorsteininn, þótt það sé ekki tekið fram.

Láki er vondur sjöhundruðututtuguogeinu sinni, sem er frekar mikið má reikna með. Og hann finnur ekki lengur gleði í illvirkjum sínum, svo hann ákveður að prófa að vera góður einu sinni. En góðverkin eru smitandi, hann getur ekki hætt. Og hér birtist svo boðskapur sögunnar:

„En í hvert skipti, sem hann gerði eitthvað gott, varð hann líkari venjulegu barni.“
„En í hvert skipti, sem hann gerði eitthvað gott, varð hann líkari venjulegu barni.“

Og umbreytingin heldur áfram:

„Þegar hann gerði góðverk í næsta skipti, urðu álfsklærnar hans að venjulegum drengs-höndum. Og þegar hann gerði góðverk í þriðja skipti, varð álfs-strýið hans að venjulegu drengs-hári. Að lokum datt álfs-skottið af honum, og þá var Láki loks orðinn að venjulegum dreng.“

23313092_10155922023491584_1481591396_o

Og þá fyrst, eftir alls konar góðverk á heimilinu, segir pabbi Ívars og Elsu að hann megi nú koma og eiga heima hjá þeim alltaf, „því að nú ert þú orðinn eins og venjulegur drengur.“ Heyr á fokkíng endemi! „Nei, hjá þvílíkum kynþáttahöturum vil ég aldrei búa,“ hefði Láki svarað ef þetta væri barnabók með almennilegan boðskap, en því er aldeilis ekki að heilsa. Láki fær „lítið rúm til að sofa í og lítinn stól til að sitja í,“ rúmið reyndar þrefalt minna en hann sjálfur. Jafnvel án halans er hann ekki nema þriðja flokks mannvera, og aðeins þegar hann er laus við hin skrímslislegu ytri einkenni fær hann viðurkenningu sem alvöru manneskja. Þá er ekki einu sinni spurt að uppruna, hvort hann eigi foreldra. Nei, þau bara taka hann í algjöru ábyrgðarleysi; aðeins af því hann er gott vinnudýr og lítur ekki út eins og einhver fokkíng jarðálfur.

Nú máttu reyna að troða þér í þetta dúkkurúm, hahahaha!
Nú máttu reyna að troða þér í þetta dúkkurúm, hahahaha!

Þannig er Láki eftirnýlendusaga að hún undirstrikar hversu dýru verði mennskan er keypt í samfélagi hinna hvítu, halalausu yfirboðara sinna. Afmennskun og jaðarsetning hins framandlega er algjör í Láka rétt eins og í Tralla. Þannig orka þessar bækur saman eins og bónusútgáfan af Litla, ljóta andarunganum sem fjallar um það að eina leiðin til að sleppa frá afmennskun annarra er að gerast rasisti sjálfur við fyrsta tækifæri. Tralli er sagan af villimönnum sem ekki eru þóknanleg manntegund, en Láki fjallar um það hvernig slíkar manntegundir gætu mögulega aðlagast vestrænu samfélagi. Báðar bækur eru viðurstyggð og skulu hvergi lesnar nálægt börnum, ekki einu sinni í hljóði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *