Ég held að við séum öll sammála um að knattspyrna eins og hún hefur verið iðkuð frá miðri nítjándu öld er á endastöð. Þetta er stöðnuð íþrótt, ekkert sérstaklega skemmtileg, heldur einhæf. Snýst í rauninni mest um fjárráð, það er að segja: hver getur keypt upp sem best sett af leikmönnum annars staðar frá og búið til sinn litla málaliðaher. Mestur tími í karlaboltanum fer í að hjálpa grenjandi piltum aftur á lappir eftir að þeir ímynduðu sér að einhver hefði stuggað við þeim. Við þetta verður ekki lengur unað.
Blessunarlega hef ég ráð undir rifi hverju og hér fylgja mín fyrstu drög að uppfærðum reglum um knattspyrnu. Fyrir þessu eru ýmis fordæmi í íþróttum, til að mynda þegar Bobby Fisher bjó til sínar eigin skákreglur, eða þegar fyrsti málfræðingurinn skóp Íslendingum sitt eigið stafróf sem síðan enginn notaði (höfum hér í huga hina fornu merkingu orðsins íþrótt).
Nú hef ég brotið odd af oflæti mínu og legg til eftirfarandi drög að endurbótum á knattspyrnu. Ég læt þetta liggja hér í bili því ég sé ekki betur en forseti FIFA sé á línunni.
- Nafn íþróttarinnar skal vera knattleikur.
- Boltinn er alltaf í leik, jafnvel þótt hann hafni uppi í stúku eða fyrir utan leikvang.
- Af þeim sökum má dómari aldrei stöðva leik. Ef leikmaður gerist brotlegur að mati dómara skal aðeins sá leikmaður hætta leik. Leikurinn áfram meðan dómari útdeilir refsingu sinni.
- Dómari má fara út fyrir allt meðalhóf í refsigleði sinni ef honum svo sýnist.
- Af 2) leiðir einnig að leiktími er og verður nákvæmlega 90 mínútur frá því að dómari flautar upphaf leiks.
- Ef bolti er sendur í átt til dómara má dómari skerast í leikinn og reyna að skora hjá því liði sem honum sýnist. Takist dómara að skora ber honum að reyna að skora hjá andstæðu liði fái hann boltann aftur (um brot á þessu sjá lið 10).
- Rangstaða er ekki til.
- Ekki skal dæmt fyrir hendi nema vísvitandi sé beitt og skal mat á því byggjast á geðþótta dómara.
- Ekkert eftirlit skal haft með því hvernig mörk eru skoruð. Ef mark er skorað þá skal það talist skorað þótt ólöglega hafi verið að staðið. Dómari hefur eftir sem áður heimild til að refsa fyrir slík brot eftir geðþótta.
- Nú þykir dómari sérlega vilhallur öðru liðinu enda megi færa sönnur á þrjú skýr dæmi um slíkt og skal fulltrúi ásakandi liðs færa fyrir því rök í heyranda hljóði. Almennir áhorfendur greiða um það atkvæði rafrænt og hafa til þess 5 sekúndur að málflutningi loknum. Ekkert leikhlé á sér stað meðan á þessu stendur svo málflutningi fylgir nokkur áhætta. Þeirri áhættu fylgja þau laun að falli dómur ásakanda í vil skal dómari spila með því liði til leiksloka og hvergi draga af sér nema komi til meiðsla, en skal dómari hafa sjálfdæmi um mat á eigin meiðslum. Sé dómari á móti fundinn saklaus dæmist refsistig á ásakanda.
- Áður en leikmaður tekur vítaspyrnu skal sá leikmaður flytja frumort dróttkvæði um vígfimi sína í heyranda hljóði. Sérstök dómnefnd sker úr um ágæti kvæðisins og skiptist í þrjá flokka:
- Sé kvæðið vel ort og leikmaður skorar, hlýtur lið hans tvö stig í stað eins.
- Sé kvæðið illa ort og leikmaður missir marks, hlýtur lið hans eitt refsistig.
- Sé kvæðið lélegt en skorað er, ellegar að leikmaður missir marks en hefur ort vel, þá fellur mál niður.
- Ef markmaður hefur þrótt og anda til eftir gilda markvörslu gefst honum færi á að svara með sinni eigin frumortu dróttkvæðu hendingu. Ef dómnefnd þykir svíða undan svari markvarðar, svo sem með háði eða niðurlægingu, þá hlýtur lið hans eitt stig.
- Leikhlé skal haldið þá og því aðeins meðan kveðið er og skal truflun á löghelgi þess varða skóggang (úr íþróttinni) að fornum sið. Tíminn sem flutningur kvæða tekur dregst af leiktíma þótt leikhlé sé á meðan.
- Nú hlýtir leikmaður ekki dómi og spilar í fullri sekt og skal hann óhelgur verða og skriðtæklaður griðlaus hvar sem til hans næst.
- Sé leikmaður saklaus skriðtæklaður fær sá og aðeins sá leikmaður að taka vítaspyrnu, hafi hann heilsu og þrek til eftir tæklingu. Bandamönnum þess leikmanns er heimilt að hefna með sæmdartæklingu án þess að það hafi afleiðingar fyrir leikmanninn, en með þeirri áhættu að leikurinn kunni að leysast upp í linnulausar sæmdartæklingar á víxl, eða svonefnd tæklingavíg. Tæklingavíg getur dómari stöðvað eða látið afskiptalaus að geðþótta.
- Leikmönnum skal gert ljóst fyrir sérhvern leik að utan vallar gilda landslög sem ekki endilega samræmast því sem gott þykir og gilt innan vallar. Um þetta geta gilt ólík lög í ólíkum löndum.
- Ekki er heimilt að leikmenn gangi kaupum og sölum. Leikmenn skulu haldnir sömu óbilandi tryggð gagnvart sínu liði og fylgismenn liðsins.
- Nú kýs leikmaður að skipta um lið enda hafi hann lýst yfir að hann hafi leikið tveim skjöldum fram að því. Skal hann uppfrá því teljast yfirlýstur svikahrappur og hvers manns níðingur og fær hann ekki aftur að skipta um lið.
- Sé leikmaður dæmdur af velli kemur maður í manns stað.
- Fari svo að lið þrjóti varamenn sakir fjöldadóma má sækja varamenn í raðir áhorfenda svo lengi sem þá ekki skortir.