Mann setur hljóðan þegar Perlan í samkrulli við Samtök ferðaþjónustunnar kvartar til samkeppnisyfirlitsins undan því að Náttúruminjasafn Íslands ætli að setja upp sýningu á náttúruminjum „í beinni samkeppni við sig“. Er mönnum ekki sjálfrátt eða ultu þeir kannski á hausinn? Þarf einu sinni að útskýra fyrir fólki hve mikið eip þetta er? Jú, greinilega. Því þetta er álíka vitrænt eins og ef Víkingasögusafnið færi í mál við Þjóðminjasafn Íslands vegna „beinnar samkeppni“; ef einhverjum jólasveini áskotnaðist sautjándu aldar pappírssnifsi og færi í mál við Árnastofnun.
Íslenskar ríkisstofnanir hafa lagalegar skuldbindingar um miðlun upplýsinga til almennings. Það þó að einhver fígúra úti í bæ stofni fyrirtæki um sams konar fræðslu kemur hinu opinbera ekkert við, enda er sá rekstur alfarið á ábyrgð viðkomandi.
Fleirum virðist óskiljanlegt hvernig samspil ríkis- og einkarekstrar virkar. Til að mynda virðist ráðherra vísinda, nýsköpunar og iðnaðar telja að ríkið eigi að lágmarka kostnað af rekstri opinberra stofnana, til dæmis Háskóla Íslands, en verja þeim mun meiri fjármunum til stofnana í einkaeigu, til dæmis Háskólans á Bifröst (sjá t.d. hér og hér). Það hvarflar ekki að ráðherranum að hlutverk hennar er að halda úti opinberu menntakerfi fyrir alla og að aðrir rekstraraðilar á sama „markaði“ verði að sjá um eigin rekstur á eigin kostnað. Þannig virkar þessi kapítalismi sem ráðherrann þykist trúa á en gerir greinilega ekki. Auðvitað er jákvætt að framboð á háskólamenntun sé sem allra mest en ríkið ber aðeins skyldu gagnvart sínum eigin stofnunum. Það skýtur því skökku við þegar opinberar stofnanir sæta niðurskurði svo hægt sé að veita hærri styrkjum til einkaaðila.
Á Íslandi virðast sömuleiðis margir aðhyllast þau trúarbrögð að ríkið eigi alls ekki að reka sinn eigin fjölmiðil, en í nafni lýðræðis sé annað ómögulegt en að ríkið haldi einkareknum fjölmiðlum á lífi enda gætu þeir annars ekki rekið sig í svo smáu samfélagi, ekki síst sakir þess að rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur gjörbreyst á internetöld. Á Íslandi er fyrirkomulagið nefnilega þannig að hver sá sem stofnar fjölmiðil virðist eiga heimtingu á opinberu fé til að halda rekstrinum úti ef fyrirtækið rekur sig ekki — og jafnvel þó það ræki sig með hagnaði. Það var lengi trú mín að kapítalismi snerist ekki síður um að fyrirtæki mættu fara á hausinn en ég hef greinilega haft rangt fyrir mér. Kapítalismi virðist fremur ganga út á að leggja niður ríkismiðilinn og verja sömu fjármunum í einkarekna fjölmiðla því enginn vill kaupa áskrift hjá þeim á hvorn veginn sem er.
Þá er einnig kvartað undan því að ríkisútvarpið sé „á auglýsingamarkaði“, sem eru merkingarlaus orð enda er sá markaður botnlaus hít. Ríkisútvarpið getur ekki hirt auglýsingatekjur af einkareknum miðlum vegna þess einfaldlega að ríkisútvarpið er hrein viðbót á auglýsingamarkaði. Fari RÚV út þá breytist ekkert fyrir hina sem eru eftir. Eins og svo margt annað er innihaldslaust sífrið um „samkeppni“ ríkisútvarpsins við aðra fjölmiðla ekki annað en einmitt það.
Bankar mega heldur ekki fara á hausinn, en því síður má ríkið reka banka; svo þegar bankar fara á hausinn neyðist ríkið til að kaupa bankana frá gjaldþroti til þess eins að selja þá aftur. Þessi lógík gengur bersýnilega upp í hausnum á ýmsu fólki á alþingi, þó að ýmislegt megi út á hana setja.
Hið opinbera hefur margvíslegum skyldum að gegna gagnvart íbúum ríkisins, til að mynda að halda úti grundvallaralmannaþjónustu. Undir það hlutverk fellur meðal annars rekstur safna, menntastofnana, heilbrigðisstofnana og ríkismiðils í almannaþágu. Þetta er gert af ótal ástæðum en ekki síst til þess að tryggja að óháð því hvernig fyrirtækjum reiðir af á almennum markaði, þá sé sú þjónusta alltaf til staðar fyrir alla sem hafa á henni þörf. Hlutverk hins opinbera er ekki að halda uppi fjárhagslega óburðugum einkafyrirtækjum sem sækja inn á svið almannaþjónustunnar, til að mynda með stofnun fjölmiðla, einkaskóla eða fræðslusýninga.
Gangi þeim aðilum sem allra best sem stofna fyrirtæki í samkeppni við almannaþjónustuna, en þeir verða að átta sig á að það er úr þeirra eigin ranni sem samkeppnin kemur, ekki af hálfu ríkisins. Hið opinbera ber því eðlilega enga ábyrgð á því hvernig þeim reiðir af. Ef þeirra er ágóðinn þá er áhættan þeirra sömuleiðis.