Af skrýtnum tilboðum

Ég hef líkt og flestir fengið minn skerf af undarlegum tilboðum sem fela í sér að ég vinni tiltekið verkefni fyrir aðila sem skilur ekki að fólk nenni ekki að sjálfboðaliðast kringum alla hans tilveru.

Eitt slíkt dæmi sem rifjast reglulega upp fyrir mér er þegar falast var eftir því að ég mætti á alþjóðlega kvikmyndahátíð og stýrði umræðum við tiltekinn leikstjóra eftir sýningu á nýjustu mynd hans. Nú eru slík verkefni alveg á mínu færi og sérsviði en ég hafði hvorki séð eina einustu mynd eftir umræddan leikstjóra né heyrt um viðkomandi fyrr.

Kjáni sem ég var að reikna með því að haft hefði verið samband við mig vegna fræðilegrar þekkingar á bókmenntum og kvikmyndum fór ég að telja upp hvers konar vinnu þetta myndi útheimta af minni hálfu:

  1. Ég myndi þurfa að kynna mér verk viðkomandi leikstjóra í það minnsta sæmilega, svo ég yrði samræðuhæfur um fleiri myndir en þessa einu og gæti þar með dregið upp sameiginlega þræði í höfundarverkinu og greint í samræðu við leikstjórann.
  2. Vitanlega þyrfti ég að eiga þess kost að sjá nýju myndina ekki sjaldnar en tvisvar og jafnvel oftar, því einkanlega yrði ég að hafa þokkalegt vit á henni.
  3. Allt tæki þetta töluverðan tíma frá öðrum störfum mínum (mikilvægum, að mér fannst, en ekki verkbeiðanda), fyrir utan svo kvöldið sjálft í bíóhúsinu.

Svo ég spurði, eftir að hafa útlistað þetta allt saman, hvort það væri ekki þóknun fyrir viðvikið. Hvort það nú væri, maður: heill frípassi á kvikmyndahátíðina sjálfa. Umbunin fyrir verkefni sem tæki mig minnst þrjá heila vinnudaga var semsagt að fá mér að kostnaðarlausu að verja ennþá meiri tíma launalaust frá vinnu.

Höfum það alveg á hreinu að kvikmyndahátíð er ekkert annað en ráðstefna. Kvikmyndirnar sjálfar eru erindin og umræðurnar á eftir eiga að snúa um erindin og samhengi þeirra í listinni. Það er ábyggilega hægt að bjóða hvaða jólasveini sem er að stýra einhverjum yfirborðskenndum umræðum eftir bíósýningu, en ef þú biður fræðimann um að gera það þá gengur ekki að láta eins og kvikmyndahátíðin sjálf sé ekki vinna fyrir viðkomandi, hann mun alltaf nálgast þetta eins og ráðstefnu.

Maður mætir fjandakornið ekki á ráðstefnu, þó það heiti kvikmyndahátíð, til að blaðra innihaldslaust eins og Kolbrún Bergþórsdóttir í sjónvarpssetti, hvað þá að mæta nálega fyrirvaralaust á ráðstefnu sem maður hefur ekki sýnt nokkurn próaktífan áhuga á, til að þykjast hafa hundsvit á listamanni sem maður fær ekkert svigrúm til að yfirleitt kynna sér, til þess eins að fá ráðstefnugjöldin niðurfelld. Gjöldin á ráðstefnuna sem maður ætlaði sér ekki yfirleitt að mæta á, ekki síst vegna annarra verkefna (sem svo vill til að maður er í launaðri vinnu annars staðar við að sinna).

Það er ekki það, ég hefði svosem alveg þekkst boðið fyrir einhverja málamyndagreiðslu. En þessi aumingjans leikstjóri var tæpast kominn alla leið til Íslands til þess eins að vera afgreiddur svona billega eða af svo lítilli virðingu fyrir verkum hans. Sama þó svona hátíðir séu illa fjármagnaðar þá verður að vera einhver standard annar en sá að véla B.A.-nema í hinum ýmsu menningarfræðum til að kollast á sviðinu, um leið og það verður að vera kristaltært að fræðimenn hafa engan áhuga á því að taka kauplaust að sér störf annarra.

Svo eðlilega afþakkaði ég. Mér fannst ég heyra furðuna í þöglu innhólfinu hinum megin. Var auðvitað aldrei beðinn aftur og hef ekki saknað þess. Svo vegur enn salt innra með mér öllum þessum árum síðar, hvort ég eigi að vona að einhver góður hafi fengist í þetta launalausa verkefni leikstjórans vegna, eða að enginn hæfur hafi fengist prinsípsins vegna.

Mér hefur virst að almenna stemningin í þjóðfélaginu sé sú að fólki leiðast prinsípmenn og ítrekað rekið mig á það, svo kannski er það ég sem er fíflið í þessari sögu.

2 thoughts on “Af skrýtnum tilboðum”

  1. Ég tek fram að ég styð sannarlega sanngjarna borgun í menningarharkinu, hvort sem er fyrir lítil eða stór verkefni.

    En hafandi séð um slæðing af S&S sýningum og horft á miklu fleiri leyfi ég mér að fullyrða að það er fátt verra en of-undirbúin stjórnandi. Þú ert ekki að taka viðtal, þetta er ekki masterclass eða fræðileg greining – þú ert að stýra spurt og svarað sýningu sem hugmyndin er að áhorfendur taki þátt í.

    Persónulega neita ég oftast fyrirspurnum um mynd sem ég hef þegar séð, nema mig langi extra mikið að hitta leikstjórann – annars mæti ég bara og horfi með öllum, hugsa upp 2-4 spurningar á meðan og vona að ég þurfi ekki að nota þær allar, því ídealið í þessu er einhvern veginn svona: spyrill spyr 1-2 spurninga, gefur svo salnum færi á að spyrja, er með eins og eina aukaspurningu tilbúna ef salurinn er feiminn og þarf að brúa bil, og svo aðra til að spyrja ef maður biður um eina lokaspurningu og enginn gefur sig fram. Maður þarf fyrst og fremst ákveðna reynslu til að púlla þetta – af fyrirlestrum, blaðamennsku eða öðru skyldu, já, eða mögulega bara S&S sýningum þar sem maður mætti alltof vel undirbúinn fyrstu skiptin.

    1. Ég skil hvað þú meinar og get tekið undir það að mestu; nema mér dytti ekki í hug að eiga í svona sessjóni með leikstjóra sem ég veit ekkert um, hvort sem það síðan kemur upp í spjallinu eitthvað um fyrri verk eða ekki. Ef ég veit ekkert, þá á ég ekki að vera þarna. Til að byrja samtalið og brúa téð bil þá þarf ég að hafa einhverja hugmynd um hvern ég er að tala við.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *