***Ekki er um að villast að hér á eftir fer efni sem spillt gæti Færeyinga sögu og The Wire fyrir fólki***
Skammt er síðan ég horfði á The Wire (ísl. Í heyranda holti) frá upphafi til enda og hafði ekki áður séð. Eins og svo oft fannst mér margt minna á Íslendingasögu í nútímanum. Það er sennilega ekkert frumlegt en ég fór að velta fyrir mér hvort það væri, einhvers staðar þarna í þessum mikla efniviði, einhver þráður fyrir mig að elta og ef til vill skrifa um. Kræsilegustu persónurnar til að líta til væru sennilegast Omar Little, Stringer Bell, Snoop (sýkópatastelpan með naglabyssuna; ég held að Stephen King hafi kallað hana óhugnanlegasta illkvendi allra tíma), og svo náttúrlega löggurnar sem jaðra stundum við að vera hálfu verri en krimmarnir (vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti, eins og þar segir).
Í fimmtu og síðustu þáttaröð fannst mér þessi pæling byrja að ljúkast upp fyrir mér og það er enn margt fyrir mig að melta og ígrunda, og síðan þarf ég auðvitað að horfa aftur. En svona til gamans hér langar mig aðeins að bera saman Omar Little og Sigmund Brestisson. Meira skilur þá að en sameinar, en þetta síðarnefnda er samt að mér finnst skemmtilega hliðstætt.
Nálega frá upphafi sinnar sögu er Sigmundur í nokkurs konar útlegð ásamt Þóri bróður sínum, rétt eins og Omar Little stendur utan við valdastrúktúr undirheimanna, er sjálfs sín herra. Faðir þeirra og föðurbróðir höfðu þá verið vegnir af Hafgrími og handbendum hans, en meðal þeirra var Þrándur í Götu þótt hann aðhefðist ekkert sjálfur annað en að eggja til atlögu (hann kallar Hafgrím skauð, sem fyrir forvitna merkir allt í senn: forhúð á hestsgöndli, kvensköp, sverðsslíður, bleyða), og féll Hafgrímur sjálfur. Þrándur vill næst láta drepa drengina en þykist hafa verið að gantast þegar viðtökurnar verða dræmar og fóstrar drengina þess í stað. Nema hvað, hann sendir þá síðan á laun til Noregs svo þeir muni aldrei snúa aftur til Færeyja (með hvaða hætti sem það er gert, tekur hann fram, og við skiljum þegar) og greiðir silfur fyrir (kunnuglegt stef).
En aldrei skal láta annan fremja sín eigin ódæði og þiggjandinn er enginn Júdas, hann er meiri skógarhöggsmaður. Margt hefði Þrándur getað lært af Disneymyndinni um Mjallhvíti. Þrándur áttar sig heldur ekki á því að hann er persóna í sögu og því sé augljóst að bræðurnir snúi aftur og leiti hefnda. En það mun ekki fara eins og nútímalesanda er vant að búast við. Þetta er ekki Hrafninn flýgur (sem hefst á þeim spakmælum að vopn séu bitlaus gagnvart orðum, en snýst síðan mest um að halda kjafti og drepa sem mest).
Hvað um það, sagan segir síðan af ævintýrum Sigmundar Brestissonar í Noregi og víðar, sem bersýnilega er hið allra mesta hreystimenni sem nokkru sinni hefur komið úr Færeyjum og þó víðar sé leitað, öllum fremri í sérhverri íþrótt að undanskildum Ólafi Tryggvasyni Noregskonungi. Eftir heilmikinn hernað, sem af fara miklar frægðarsögur sem berast á undan Sigmundi heim, snýr hann loks sjálfur aftur, þreyttur á því að sér sé brigslað fyrir að hefna ekki föður síns. Omar mættur með haglarann út í Skúfey. Haglarinn í þessu tilviki er nýfundinn átrúnaður á Þorgerði Hörðabrúði, sem í ýmsum frásögnum er einhvers konar magísk tröllskessa eða vættur, og vernd Hörðabrúðarinnar er bundin í hring sem hann skyldi aldrei lóga. Hringurinn er haglarinn, en fram að þessu hafði Sigmundur aðeins trúað á mátt sinn og megin, eins og fleiri sagnahetjur fyrir kristnitöku. Omar trúir mest á sjálfan sig; haglarinn er bara verkfæri.
Sigmundur tekur til óspilltra málanna að brytja þá niður sem myrtu föður sinn og frænda og hefðu jafnvel drepið þá bræður einnig, hefði einn maður ekki staðið í vegi fyrir því. Þránd ætlar Sigmundur síðan að leiða til Hákons jarls til sættagerðar, sem Þrándi lýst vitanlega ekkert á því hvað veit hann hvað hans bíður þar. Munurinn á Sigmundi og Omar er að fyrrnefndi er heiðursmaður og ekki sérlega slyngur, en þó að Omar láti plata sig tvisvar svífst hann einskis og er iðulega mörgum skrefum á undan andstæðingum sínum. Fer svo á endum að Sigmundur eignast forræði yfir eyjum öllum og þjarmar nú mjög að Þrándi. Gerist síðan kristinn fyrir tilstilli Ólafs Tryggvasonar, heldur samt haglaranum og reynir að kristna Færeyjar en fær alla upp á móti sér fyrir tilstilli Þrándar. Fer svo í skjóli nætur með lið og lætur skíra Þránd með valdi og alla hans menn, en gætir hvorki að varnaðarorðum þess efnis að lifi Þrándur verði það hans bani, og að lógi hann ekki haglaranum verði það einnig hans bani.
Nú sér lesandi að það er fátt beinlínis sameiginlegt með Omar Little og Sigmundi Brestissyni, utan að þeir eru í andstöðu við gamla valdið og leita hefnda eftir sína. Að lokum hallar svo undan fæti hjá báðum og örlög þeirra beggja eru ekki einasta sjokkerandi og óvænt, heldur furðu lík. Að ýmsu öðru leyti minnir Sigmundur meira á Stringer Bell, sem telur sig réttan arftaka valdsins og unir engum mótbárum gegn fyrirætlunum sínum. Stringer trompast þegar undirmenn hans skilja ekki hvers vegna stjórn yfir götuhornum skiptir ekki í sjálfu sér máli þegar hann mætir með viðskiptafræðimódelið sitt á gangsterafund, eipsjittar síðan á Avon Barksdale með játningu á morði frænda hans til að virðast stærri maður, og þar með eru örlög hans ráðin. Sigmundur neitar að bæta morðið á Leifi Össurarsyni, sem framið var í hefndarskyni, enda hafi nú dauður jarl fyrir löngu ákveðið að hann skyldi óbættur — og þar ráðast örlög Sigmundar að endingu.
En víkur nú sögu aftur að gildrunni sem lögð er fyrir Omar og Sigmund. Omar hefur verið duglegur að hreinsa út greni andstæðinga sinna með haglarann á lofti og ber nú svo til að hann, ásamt föruneyti, brýst inn í blokkaríbúð á að giska á tíundu hæð eða svo, og situr þar lið fyrir þeim. Förunautar Omars eru vegnir við litla viðhöfn og Omar sjálfur er króaður af á bakvið sófa, kemur engum vörnum við, haglarinn hvergi í seilingarfjarlægð, og á um tvo kosti að velja: falla þar eða kasta sér út um glugga upp á von og óvon um að lifa af fallið. Þetta er dautt val, eins og kennari minn Róbert Haraldsson kallaði það í fílunni forðum daga. Óvinir hans hlaupa þegar að glugganum og sjá að Omar er horfinn, hvernig sem á því stendur.
Þrándur á hinn bóginn mætir með lið og brennir hús Sigmundar, en Sigmundur og Þórir bróðir hans hafa séð við þeim og eru ekki á staðnum. Sigmundur vegur einn úr launsátri en er á flótta og stendur loks, haglaralaus, við þverhnípi og getur sig hvergi varið. Þeir bræður kasta sér fram af hamrinum út í sjó og ætla sér að synda í burt. „Þar fóru þeir nú,“ segir Þrándur og er þeir leita Sigmundar og Þóris, þá finnast þeir hvergi.
Omar skakklappast enn um Baldinnamæri með sinn haglara eins og göngustaf („eigi skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir“, sagði Omar, er manna vígfimastur var þeirra er þá voru einfættir) og murkar enn lífið úr fólki. Fer síðan inn í sjoppuna sína gamalkunnu að kaupa sígó og prins póló, þegar drengur sem lítt hefur komið við sögu fyrr álpast inn í sjoppuna og ber á hann kennsl. Omar sér litla ógn í drengnum og ætlar sér að greiða fyrir góssið, en veit ekki fyrr en hann hefur verið skotinn af skömmu færi í höfuðið. Er þá Omar Little úr sögunni. Munið krakkar, að reykingar drepa.
Er þá að segja frá Sigmundi að honum skolar einum l´ífs á land í Suðurey eftir mikið volk í illskeyttu hafi, „og var þá svo máttfarinn að hann mátti eigi ganga og skreið upp í fjöruna.“ Af hendingu býr þar skammt frá einn af nótum Þrándar að nafni Þorgrímur illi (með svona viðurnefni þarf maður enga óvini) og synir hans tveir. Þeir drepa Sigmund varnarlausan þar í fjörunni, ræna líkið og fela.
Hér lýkur þessum samlestri að sinni. Það sem án vafa er óvæntast í Færeyinga sögu er að Þrándi þykir illt hvernig farið er fyrir frænda sínum sem hann þó sjálfur ætlaði að myrða, og beitir fjölkynngi til að komast að því hver muni hafa komið Sigmundi fyrir kattarnef. Í báðum sögum heldur pólitíkin áfram með sínum skærum í undirheimum Færeyja/Baltimore. Sæmdarvíg ganga áfram á báða bóga og að endingu er Þrándi steypt af stóli og nýtt fólk tekur við Götuhornunum.
Viðtakendur beggja sagna átta sig á því að það skiptir engu máli þó að einhverjum einum eða tveim skúrkum sé kálað, þeir spretta upp eins og gorkúlur eftir sem áður, og hið sama gildir um stjórnmálastéttina sem kynslóð eftir kynslóð lofar öllu fögru, vill útrýma skærum og glæpum en stendur svo valdalaus gagnvart sjálfri sér og kerfinu meðan samfélagið brennur. Starf hennar er tilgangslaust. Starf löggunnar er tilgangslaust. Það eina sem hefur tilgang er hver hefur töglin og hagldirnar á götunni eða í Götu. Það er eina fólkið sem kemst áfram í lífinu og hefur að einhverju að stefna, enda þótt lífið sé gjarnan stutt og dauðsmátinn ferlegur.
Síðast en ekki síst þá er enginn góður kall og enginn vondur kall, þetta er allt bara spurning um samhengi og hagsmuni. Það er nefnilega alveg rétt sem Hákon jarl varar Sigmund við þegar síðarnefndi kveðst vilja til Færeyja, að „hafið er torsóttlegt til eyjanna og brim mikið“; bara ekki í þeirri merkingu sem augljósust er. Ofbeldi getur af sér ofbeldi og Færeyjum verður ekki bjargað frekar en Baltimore. Þar stendur til þessa dags stytta af Þrándi í Götu, standandi keik á einhverjum illskiljanlegum ás sem kannski heimamenn einir skilja.