Langljórarnir

Gneistinn bloggar skemmtilega um Stephen King sjónvarpsmyndina The Langoliers (hvað í fjandanum sem það orð á nú að merkja), sem hann hefur ekki séð og vill ekki sjá, og tilraunaútgáfu af sömu mynd sem er sérlega áhugaverð. En hann hefur lesið nóvelluna sem er meira en ég hef gert.

Ég sá The Langoliers á Stöð 2 forðum daga þegar hún var ný, nema hún var sýnd í tveim hlutum eins og þá var algengt. Nútildags þykir hins vegar ekkert tiltökumál að gera mynd eins og Oppenheimer sem er töluvert lengri en báðir helmingar The Langoliers samanlagðir. En ég sá aðeins fyrri hlutann. Það liðu mörg ár áður en ég náði að klára myndina, og seinni hlutinn olli mér töluverðum vonbrigðum.

Plottið í myndinni er eins flott og þau verða. Flugfarþegar ranka við sér af værum blundi og allt fólkið sem ekki svaf er horfið úr vélinni. Flugstjórinn sömuleiðis og varaflugstjórinn, en til allrar lukku er annar flugstjóri meðal farþega sem ekki hvarf svo hann getur lent vélinni, að sjálfsögðu á flugvellinum í Bangor í Maine þar sem höfundur sögunnar sjálfur bjó, þó að vélinni hafi upphaflega verið stefnt til Boston. Skýringin á því meikar núll sens fyrir okkur sem erum ögn kunnug landafræði austurstrandarinnar og skiljum þá staðreynd að það breytir engu á hvorum vellinum er lent þegar það er ekkert fólk til á jörðinni. Sagan hummar alveg yfir þessa ákvörðun flugstjórans og veitir engar skýringar á því, enda er þetta fyrst og síðast til að keyra áfram þann hluta plottsins sem snýr að leiðinlegum kaupahéðni sem er á leið til Boston til að fremja bisnessseppuku. Hann auðvitað eipsjittar yfir því að eiga að lenda í Bangor frekar en Boston. Það að einhver vilji alls ekki fara til Bangor er sennilega raunsannasti hluti sögunnar. Þessi kaupahéðinn er vel að merkja leiðinlegasta persóna myndarinnar og alveg ferlega illa leikin, af sama gaur og lék kókaínfíkna lögmanninn í True Romance (þar stóð hann sig betur, og hann deyr líka í þeirri mynd ef einhver var forvitinn).

Þau lenda í Bangor og átta sig fljótt á því að ekkert virkar. Samlokurnar í fríhöfninni bragðast eins og pappír, bjórinn er flatur, og þá rennur upp fyrir þeim að ef þetta sé tilfellið, þá muni flugvélabensín ekki brenna heldur. Þau eru föst, og það eru hrikaleg hljóð í bakgrunninum. Einhverjar verur, ábyggilega ekki ljúfar sem kanínur, eru að nálgast. Þarna endar fyrri helmingur myndarinnar og mér fannst þetta geðveikt, alveg fullkomið nánast. Kannski hefði þetta bara átt að enda þarna því seinni helmingurinn er eins leiðinlegur og hann er tilgangslaus. Allur seinni helmingurinn er rifrildi á flugvellinum meðan Langolierarnir nálgast, en svo fatta þau að þessi tímalausi dauði staður er öðruvísi inni í flugvélinni, þar sem er ennþá tími, og þar af leiðandi getur vélin enn brennt eldsneyti. Svo þau ákveða að fljúga af stað aftur og reyna að finna þetta tímahlið sem þau óvart flugu í gegnum.

Það sem er óþolandi er að þetta tekst þeim og allt endar vel. Nema þrír farþeganna drepast í tímalausa flugvellinum í Bangor. Áhorfandanum gæti ekki verið meira drull. Þetta eru illa skrifaðar persónur, sem er óvanalegt fyrir King. Eða kannski eru leikararnir bara svona ósjarmerandi og lélegir.

Tilraunaútgáfan af myndinni sem Gneistinn talar um er allt annað fyrirbæri. Hver einasti rammi í myndinni, og nú er ég ekki viss um hve marga ramma á sekúndu við erum að tala um hérna, er prentaður út í svarthvítu. Pappírinn næst krumpaður og krambúleraður á alls kyns vegu. Sagan er stytt umtalsvert svo hún er aðeins rúmur klukkutími, og síðan er tekin ljósmynd af hverjum ramma og þeim raðað saman eins og hreyfimynd. Stundum er pappírinn rifinn eða látinn krumpast til að tákna tilfinningar eða stemningu í myndinni, og allt bætir þetta töluverðri dýpt við upprunalegu myndina. Skyndilega verður þetta allt saman öllu áþreifanlegra, nauð persónanna raunverulegri um leið og öll áferð myndarinnar er óraunverulegri, draumkennd nánast.

Og það sem best er: endinum er breytt. Þau lifa ekki af flugið í gegnum tímahliðið, því þegar persóna Dean Stockwell (ó, Quantum Leap, hvað hétu þeir þættir aftur á íslensku?) áttar sig á því að aðeins fólkið sem svaf hvarf ekki síðast, þá fara hlutirnir öðruvísi en búast mætti við. Ef þau fljúga í gegn vakandi þá hverfa þau öll úr tilverunni, fattar hann og æpir yfir alla flugvélina. Ég man ekki hvernig þeim tókst öllum að lúlla sér í gegnum þetta í upprunalegu útgáfu myndarinnar, en í þessari gerð er of seint að afstýra slysinu og þau hverfa öll í óminni tímans. En af því að myndin var tekin eins og hún var tekin þá höldum við að allt muni bjargast, því allt stefnir að því. Svo nýi endirinn er ekki aðeins gjörbreyting, heldur hreinlega sjokkerandi. Svona eins og ef Tinni og félagar stæðu hlæjandi í lok þáttar og yrðu allt í einu plaffaðir niður af fjöldamorðingja. Þetta er það óvænt vending.

Allt í allt er The Langoliers mynd sem mér hefur þótt gaman að horfa á stundum, þrátt fyrir snubbóttan endinn og þá vanvirðingu við hina augljósu reglu að þegar skrímslið er of hræðilegt til að sýna það, þá skuli maður einmitt ekki sýna það. Þetta vígtennta kókópöffs í lokin fer alveg með myndina. En þessi furðuútgáfa af sömu mynd, The Timekeepers of Eternity, prentuð að því er virðist á laserprentara og síðan ljósmynduð, er stórkostlega merkilegt listaverk. Sagan verður ekkert betri þó hún sé stytt og allt það, nema fyrir endinn. Og þetta er mynd sem ég held að allir hryllingsunnendur ættu að bera sig eftir að sjá. Hin allra þolinmóðustu gætu svo viljað bera saman við upprunalegu myndina, en það er alger óþarfi held ég.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *