Volaða land, horsælu hérvistar slóðir!

Ég fór allt í einu að velta fyrir mér hvenær sautjándi júní yrði. Þá mundi ég að hann er löngu liðinn. Það hefur bara ekki verið neitt til að minna á sumar hérna í ár svo ég pældi ekki mikið í því fyrr en núna.

Fór út að ljósmynda í dag og miðbærinn var steindauður. Svolítið eins og í kringum aldamót, nema nú voru þessar örfáu hræður allar erlendir ferðamenn. Flestir staðir lokaðir og fólk sat eins og illa gerðir hlutir í rigningunni, ekki alveg með á hreinu hvað væri hægt að gera í þessum undarlega bæ. Svarið er auðvitað það sama og það hefur alltaf verið: óskaplega fátt. Ungir grétu; aldnir gnístu tönnum. Fólk svo þjakað að það gat ekki beðið eftir að komast heim til Coventry.

Eldri karlmaður var vakinn upp af örvæntingu sinni, að hann hefði sólundað öllu sparifé sínu í þennan makalausa áfangastað, eins snauðan og hann er dýr, óvænt þegar hálfétið pylsubrauð ´féll af himnum ofan í höfuð mannsins, eins og sending, úr kjafti máfs. Maðurinn tók pjönkur sínar og gekk burt hægum skrefum, bugaður, og kvað svo lágt fyrir munni sér að ég varla greindi það:

Flúinn er dvergur, dáin hamratröll,
dauft er á himni, lítið norðurljósa …

Til allrar hamingju var bókabúð beint fyrir framan þar sem sumir leituðu skjóls í eins miklum skröksögum um menningu víkinga og þeir gátu í sig látið. Gæti ég endurgreitt ykkur öllum ykkar hörmungarför, kæru vinir, þá glaður gerði ég það. En ég er víst aðeins efnalítill kennari hér á þessari sömu eyju sem hrafnar fundu en máfar numu. Svona er nú lífið grimmt. En þetta fólk svindlar víst ekki á sér sjálft; það yrði aðeins einhver annar til þess ef við yrðum ekki fyrri til.

Fólk álpast hingað líka í von um að sjá hvali synda í fallegum vöðum en er allt eins líklegt til að sjá ríflega áttræðan karl taka þá í sundur með skutlinum sínum. Ekki veit ég hvað þessi hveli hafa gert honum, ef til vill drepið pabba hans sem lét hann lesa Moby Dick aðeins of oft, en stundum held ég að þessi gamli maður sé ef til vill langreyður (þarna sjáið þið að y skiptir máli, sama hvað sumir segja).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *