Ég man þegar bloggið var að byrja um aldamótin hvernig umræðan var. Nú væri fólk farið að skrifa opinberlega um sturtuferðir sínar, tíðahvörf og tíðindalausar ferðir á dekkjaverkstæði. Þetta þótti sprenghlægileg sjálfhverfa enda augljóst að enginn hefði áhuga á að lesa svoleiðis leiðindi.
Auðvitað var margt misjafnlega skemmtilegt skrifað á bloggsíður þá eins og nú, rétt eins og alstaðar annarsstaðar þar sem fólk tjáir sig. Kannski fólk ætti bara að halda kjafti og vera filtersætt á Instagram frekar en að taka af allan vafa um innihaldsleysi lífsins, taka nokkur góð dökkfeis við Dynjanda?
Mér varð hugsað til þessarar kröfu sem þá heyrðist, fyrir um 23 árum, að það sem bloggið helst skorti væri innihald. Það þyrfti eitthvað meira, kannski ekki djúpar akademískar pælingar en í það minnsta eitthvað meira krassandi en óumbeðnar fréttir úr snittuboðum og tæknisögulegar skemmtisögur af muninum á túr- og retúrofnum, og helst eitthvað sem samræmst gæti stílfagurfræði Morgunblaðsins. Þessi nýfæddi skratti var þó fljótur að éta ömmu sína og innan fárra ára var Moggabloggið fætt. Þar gat hver sem er bloggað um fréttir þannig að skoðanir þess birtust inni á fréttavefnum sjálfum. Andri Snær líkti þessu við að fá dagblaðið útkrotað inn um lúguna, eftir að hafa fyrst farið rúnt milli nágrannanna.
Þar vantaði heldur ekki hversdagslegar færslur enda orðið alvanalegt að tjá sig um allt og ekkert á opinberum vettvangi. Mér finnst stundum eins og samfélagsmiðlanotkun töluvert margra kynslóða hafi mótast af tilkomu þessa leiðindafyrirbæris sem Moggabloggið var (og reyndar er, þó það fari lítið fyrir því núorðið). Það segir líka töluvert um Facebook að þar sést ekki ungt fólk. Þar er enda ekkert að sjá nema eitt af þrennu:
-
-
- Stjórnmálatengd öskurapakattalæti
- Hvunndagssögur (stundum í öskurapastíl)
- Tilþrif í einkalífinu
-
Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að samfélagsmiðlar séu eitur, en þó að ég hafi kannski helst hætt á Facebook af fyrstnefndu ástæðunni (þó margar fleiri ástæður megi telja), er þetta síðasttalda ef til vill mesta eitrið. Á níunda áratugnum voru góðborgarar lafhræddir við hlutverkaspil en nútildags ganga samfélagsmiðlarnir einna helst út á að leika uppdiktuð hlutverk, bara mun leiðinlegri hlutverk en Drekar og dýflissur buðu upp á.
Oftnefnt dæmi er ofurmamman sem er búin í ræktinni áður en krógarnir eru skriðnir á lappir og er þá þegar tilbúin með vel útilátinn morgunverð, skutlar krökkunum svo í leik- og grunnskóla, fer svo að forstjórast í verðlaunanýsköpunarfyrirtækinu sínu, tekur hádegisverðarfund með Félagi kvenna í atvinnulífinu á Apótek, og er á dularfullan hátt alltaf með tandurhreint heimili, þriggja rétta kvöldverð og fullkomin englabörn sem aldrei kasta grjóti oní skurð. Þá eru ótaldar fjallgöngurnar, brönsin, Jakobsvegirnir, selfístundir með vinkonum á happy hour á Snafs, dásamlegu utanlandsferðirnar og allt þetta hitt sem lætur okkur hinum líða illa með sjálf okkur.
Um þetta fjalla Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir og gamla skólasystir mín Helga Lára Haarde hvor í sínu lagi í Vísi. Í dag er svo viðtal við þær um þau skaðlegu áhrif sem af því hlýst að vera sífellt að bera sig saman við aðra á samfélagsmiðlum. Ég vona að sem flest lesi þetta. Samfélagsmiðlar eru skolli lúmskt eitur, því í grunninn sjáum við myndir og texta sem lýsa hamingjusömu lífi ósköp venjulegs efrimillistéttarfólks. Og jafnvel þótt við þekkjum kannski ekki margar ofurtýpur af því tagi sem lýst er að ofan, þá safnast stakar færslur okkar mörghundruð facebookvina saman í heildarmynd sem merkir einfaldlega að þú ert sorp með allt niðrum þig, meðan allir aðrir eru normal hamingjuhrólfar, blómálfar og meistarakokkar með eigin atvinnurekstur. Þá hættir fólki til að reyna að vera eins og ofurfólkið á samfélagsmiðlunum, en áttar sig ekki á því að meintu ofurfólki líður svona líka. Keppni í að lifa sem innihaldsríkustu lífi á internetinu gerir tæpast mikið fyrir raunverulegt líf þeirra sem þykjast lifa því.
Fólk vill eðlilega helst draga upp sem besta mynd af sjálfu sér en það getur haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd annarra. Gömul skólasystir hleypur upp og niður Esjuna tíu ferðir á dag (og ekki bara upp að Steini), en þú kemst ekki nema másandi upp tröppurnar að Akureyrarkirkju. Svo rennur til dæmis upp einhver skáldaður dagur tileinkaður feðrum og allir keppast við að setja inn krúttlegar myndir og lýsa margslungnum sönnunargögnum um að þeirra pabbi sé sá besti sem til hefur verið. Það er að segja, allir nema einmitt þín börn.
Það getur verið erfitt að minna sig á að það sé nú ekki alveg satt þegar þetta er það sem blasir við manni á hverjum degi. Að líf annarra sé betra en þitt. Fyrir utan svo öskrin úr apahellinum sem sýna eiga að allir vita betur en allir aðrir hvernig hlutirnir eigi að vera. Svo hoppar upp auglýsing fyrir Skógarböðin og þú fattar skyndilega að frændi þinn var að deila henni í von um að vinna ókeypis aðgang að sundlaug sem er 500 kílómetrum frá heimili hans. Næsta færsla fyrir neðan er frá mömmu; hana langar að vinna rafknúið sláttuorf, þó að hún búi á Hrafnistu. Þín eigin fjölskylda er endurgjaldslaust orðin að gangandi auglýsingastofu.
„Þetta er voðalegur tímaþjófur,“ segirðu á kaffistofunni, en veist innst inni að þú getur ekki hætt. Hætt að lesa um hvunndagsleiðindi annarra. Costcoferðir og hvað það sé nú dýrt í Sky Lagoon. Gremjupósta vegna sorphirðumála í Grafarvoginum („þetta fólk í ráðhúsinu hefur nú aldrei komið austur fyrir læk“), sem einhver einn eða tveir eru ósammála („mér finnst nú sorphirðan alveg til fyrirmyndar hérna í Feykifold“). Máfafaraldur í Sjálandshverfi og rottufaraldur í miðbænum (nei, hin sortin af rottum). Jón Örn orðaði þetta hvað best þegar hann sagðist ekki geta hætt á Facebook vegna þess að þar væri spjallvefur húsfélagsins.
Ekki svo að skilja að ég ætli mér að hræsna með því að gagnrýna fólk fyrir að nýta sér samfélagsmiðla. Ég var mjög virkur á Facebook þar til í nóvember síðastliðnum þegar mér varð loksins nóg boðið sakir stöðugs áreitis og múgæsings, ekki svo mjög vegna hvunndagsfærslna um fermingar og kisuna Táslu (ef það er eitthvað sem ég sakna þaðan, þá væri það einmitt það). Svo er ég ennþá á Instagram en á að vísu ekki í öðrum samskiptum þar en að setja inn ljósmyndir sem ég tek, skrifa aldrei neitt.
Nei, ég skrifa þennan langhund meira í viðleitni til að hugsa upphátt á þessum vettvangi, sem fyrir furðulega mörgum árum þó skammt virðist síðan hlaut ákúrur fyrir að vera leiðindapleis fyrir plebba með sýniþörf. Nú er kominn annar vettvangur fyrir slíkt nema nú eru þar nánast bókstaflega allir. Mér finnst það í senn pínu fyndinn umsnúningur en jafnframt umhugsunarverður. Í sjálfu sér þykir mér það gott að fólk sé orðið minna feimið við að tjá sig opinskátt um líf sitt og líðan, sorgir og sigra. En mér þykir líka skringilegt að sjá megnið af þessum hversdagsfærslum snúast upp í auglýsingar með hinum og þessum hætti. Ég nefndi við einhvern nýverið að ég íhugaði að halda upp á fertugsafmælið mitt í haust og var þá spurður hvernig ég ætlaði að fara að því að bjóða fólki í það, eins og það sé yfirhöfuð ekki hægt nema á Facebook.
Hvernig ætlarðu eiginlega að komast til Ísafjarðar ef þú átt ekki öfluga gormaskó? Til Tene nema að eiga loftbelg?
Ég myndi vilja óska þess að bloggið sneri aftur af krafti, að fólk skrifaði hingað út á netið í samfelldu, ígrunduðu máli, heldur en í fljótfærni og örsneiðum inn í lokaða auglýsingamaskínu jafnaldra míns í Kaliforníu. Það er ekkert sem bendir til þess að það sé raunhæft eins og er, að sú breyting geti orðið. En það væsir heldur ekki um einsetumenn eins og mig hérna úti í óbyggðum internetsins.