Af góðum ljósmyndurum og öðrum

Uppáhalds karlkyns ljósmyndarinn minn gaf út nýja bók í síðasta mánuði, hinn ástralski Trent Parke. Ég er vanur því að það sé ekkert sérstaklega erfitt að nálgast bækur allajafna, en þannig er það ekki í myndlistarheiminum virðist vera. Ekki ein einasta bók eftir hann er fáanleg og mögulega verða þær aldrei prentaðar aftur. Gangvirðið á bókunum hans er eftir því komið út í algjöra vitleysu og ég hreinlega skil ekki hvað listamaðurinn fær út úr því að prenta ekki bara nýtt upplag meðan eftirspurnin er svona.

Bækurnar hans seljast hraðar en miðar á Taylor Swift, svo ég stökk á nýju bókina. Og svo vill til að í henni, innan um aðallega myndir sem ekki hafa áður birst (settar saman í röð sem segir söguna af því kuski sem mannkyn er í alheimssögunni, horfið um leið og það birtist), eru einmitt nokkrar af þeim myndum sem ég held allramest upp á af öllum þeim sem ég hef hingað til séð eftir hann. Af öllu að dæma er nýja bókin rosaleg. Ég rambaði á YouTube-myndband þar sem einhver gaur flettir gegnum alla bókina en hætti fljótlega að horfa því ég vil fá að njóta bókarinnar sjálfur þegar ég fæ hana í hendur, leyfa henni að koma mér á óvart.

Ég er ofsalega spenntur fyrir þessari bók, Monument eftir Trent Parke.

Önnur bók sem mig dauðlangar að eignast er eftir hann og konuna hans Narelle Autio sem líka er ljósmyndari. Eins og allar aðrar bækur sem þau hjón snerta er sú ófáanleg, en hún heitir The Seventh Wave og snýst um baðstrandarmenningu Ástrala. Myndirnar í henni eru hreint út sagt ótrúlegar, allar teknar á filmu með vatnsheldri Nikonvél og margar þeirra, teknar neðan flæðarmáls, sýna syndandi fólk í ótrúlegustu fljótandi stellingum. Þau eru svo miklir snillingar bæði tvö að hálfa væri nóg.

Strákur sem ég hafði aldrei áður heyrt um en mun vera sonur Beckhamhjónanna og heita Brooklyn gaf út ljósmyndabók, ekki af eigin ástríðu heldur af því Penguin hringdi í hann og bað hann um að gera það. Bókin er troðfull af sjálfsmyndum teknar með aðstoð spegils með dýrustu fáanlegu myndavél á þeim tíma (Leica M10). Svo eru myndir af honum sem hann tók ekki sjálfur en það hver tók þær myndir er víst aldrei gefið upp í bókinni. Ljósmyndarar hafa keppst við að drulla yfir þessa bók af ýmsum ástæðum og ég verð að viðurkenna að mér var pínu skemmt yfir þessum bókardómi hér, sem er aðeins fyrri helmingur af ítarlegri níðdómi. Ég nenni ekki að sjá seinni helminginn, þetta dugar mér.

Aumingjans strákurinn. Stórfyrirtæki mættu alveg íhuga hvað þau eru að gera krökkum þegar þau ginna þau út í að prenta peninga handa sér með þessum hætti.

Nú þegar skammur ljósmyndaferill hans er yfirstaðinn, ferill sem otað var að honum eins og hugmynd sem hann aldrei hefði fengið sjálfur, þá ætlar hann víst að reyna fyrir sér sem kokkur. Ég vona innilega að honum gangi það vel þó að mig gruni að fáir muni verða til þess að vilja smakka matinn hans.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *