Handahófskenndur þverskurður úr lífi mínu

Ég fór með Lomma að sjá Tindersticks í Háskólabíó í kvöld. Langt síðan ég hef komið í A-salinn og sakna hans alltaf sem bíósalar.

Snögglega birtist mér þverskurður af samleið minni og A-salar, í tímaröð.

    • Í þessum sal sá ég Jurassic Park og það var ógleymanleg upplifun. Þá fyrst langaði mig að verða vísindamaður — einn af góðu vísindamönnunum. Ungur var ég gefinn góða fólkinu.
    • Löngu síðar fór ég nokkuð skakkur í sama sal að sjá Plan 9 From Outer Space á vegum klúbbsins Filmundar. Ógleymanlegt einnig, en á annan hátt. Sá einnig Night of the Living Dead og margt annað gamalt og gott.
    • Þar voru svo haldnir útgáfutónleikar Jagúarplötunnar Get the Funk Out og samsvarandi stuttmynd, skelfilega léleg, látin rúlla á tjaldinu á meðan. Eftir á að hyggja finnst mér platan líka léleg, en það fannst mér ekki þá. Að mörgu leyti hef ég mýkst með aldrinum en að þessu leyti harðnað.
    • Í menntó fór skólinn í ferð í A-salinn til að sjá nútímatónskáld flytja verk sitt um býflugur. Sumir kennararnir veinuðu úr hlátri allan tímann meðan nemendur sem höfðu meiru að tapa héldu sig á mottunni.
    • Þarna útskrifaðist ég úr Menntaskólanum við Sund og mun aldrei gleyma því að sitja ´á sviðinu með hvítan koll í kjöltunni.
    • Sama ár á sama sviði kenndi Róbert Haraldsson mér í fílunni. Mér þykir enn vænt um það námskeið og finnst skelfilegt hvernig því var slátrað.
    • Ekki löngu síðar sótti ég þar fyrirlestur Davids Lynch um innhverfa íhugun og spjallaði við hann á eftir á sviðinu góða — um allt annað en innhverfa íhugun, sem honum skiljanlega leiddist. Hann virtist dapur því enginn vildi tala við hann um efni fyrirlestrarins. Ég skammast mín enn. Sendi þér afsökunarbeiðni út í kosmósinn, elsku David.
    • Strax eftir bankahrun hentu heimskir stjórnmálamenn ríkisútvarpinu beint í hakkavélina. Í A-salnum var þá haldinn stór mótmælafundur, sem ég sem útvarpsfíkill og -unnandi sótti, en fundurinn skilaði engum árangri svo ég muni. Allt fólkið sem þá var rekið er ennþá rekið í dag.
    • Á nefndu sviði útskrifaðist ein stjúpdætra minna úr menntaskóla. Um leið sá ég ýmsa gamla kennara mína orðna hvíta og komna á eftirlaun, sem var á sinn hátt sérstök upplifun. Hvítir kollar uppi á sviði, rétt að byrja; hvítir kollar úti í sal, komnir langleiðina.
    • Á vori hverju síðan 2014 hef ég fengið að sjá, út um eldhúsgluggann, flóðgátt hvítra kolla fleyta glöðum ungmennum á móts við framtíðina úr þessum sal, og mér verður hlýtt í hjartanu.
    • Kvöld eitt rétt fyrir fertugsafmæli mitt tróðu þar upp Tindersticks og salurinn fylltist af mjúkri og sérstæðri baritónhlýju Stuarts Staple, sem ég átta mig skyndilega á að er ekki töffari heldur krúttmonsa, meðan landsþekktur maður dansaði sitjandi eins og andsetinn væri tveim röðum framan við mig. Eftir á að hyggja hefði ég átt að beina myndavélinni að honum, en þess í stað tók ég 30 sekúndna mynd af hljómsveitinni.

Þannig varð mér samfylgd okkar, þessa salar og sviðs sem mér þykir svo vænt um, skyndilega hugleikið. Og margt auðvitað ónefnt. Guð má vita hvenær ég fæ næst að koma í A-salinn góða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *